6.5.2016 | 01:22
Hvers vegna sjá útlendingar það sem við sjáum ekki?
C-117 flugvélin var í grunninn DC-3, hernaðarleg útgáfa smíðuð á síðustu árum framleiðslunnar á DC-3 eða C-47. Hún var miklu hraðskreiðari en DC-3, meðal annars vegna þess að afl hreyflanna var aukið um fjórðung, hjólahúsinu var lokað alveg þegar hjólin voru dregin upp, og vængendar og stélfletir voru endurbættir.
Stór kostur DC-3 var að ofrishraðinn var aðeins 67 mílur, sem er álíka og á mörgum litlum einhreyfils vélum og vegna þess hvað hjólin voru stór var hægt að lenda vélinni á frumstæðumm lendingarstöðum.
Flugvélarflak á eyðisandi er ekkert sem Íslendingum finnst merkilegt og því kann okkur að finnast óskiljanlegt hvílík aðsókn útlendinga er að vélinni eftir að við sjálfir höfum ekki farið að henni í rúm 40 ár.
En myndirnar sem erlendir ferðamenn taka af flakinu, sem er þarna í miðri víðáttumikilli sandauðn, með að því er virðist óendanlega sandfjöru nálægt, og mikilfenglega jökla á hina hliðina er eitthvað, sem hvergi er hægt að taka mynd af annars staðar í heiminum.
Þess vegna er þessi staður merkilegur eins og hann er núna og þess vegna á ekki að hrófla við honum.
Töldu að dagar þeirra væru taldir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Flugvélarflak á eyðisandi er ekki sjaldgæft. Flök má finna í öllum eyðimörkum, frumskógum, á sléttum Afríku, kóralrifum Kyrrahafsins og fjallshlíðum víða um heim.
Það sem gerir flökin að góðu myndefni er að þau eiga engan veginn heima á þessum stöðum. Flökin hafa einnig oftast merkilega sögu að segja. En þau passa ekki inn í umhverfið og eru því samskonar umhverfisspjöll og háspennumastur á hálendinu. Margar góðar myndir hafa útlendingar tekið af háspennumöstrum.
Jós.T. (IP-tala skráð) 6.5.2016 kl. 08:52
Það er hægt að fjarlægja flugvélarflakið af sandinum á broti úr degi.
Það er ósambærilegt við hundraða kílómetra langar risaháspennulínur á svæði, sem verður að gera að stórum þjóðgarði.
Allt svæðið norður og vestur af flakinu er manngert. Flakið er undantekning sem sannar regluna.
Sæstrengur frá Skotlandi kallar á risalínur allt frá Hornafirði vestur um land.
Ómar Ragnarsson, 6.5.2016 kl. 11:04
Flakið sést ekki nema komið sé nálægt því.
Fyrirhugaðar risalínur þvers og kruss um Ísland stinga í augun á mörg hundraða kílómetra köflum.
Ómar Ragnarsson, 6.5.2016 kl. 11:05
„Flakið er undantekning sem sannar regluna.“
Það verður greinilega aldrei of oft fram tekið að undantekningar geta aldrei sannað reglur. Væri svo mætti setja fram regluna: Jón er mikill gæðamaður sem sannast best á því að hann lemur konuna sína sjaldan.
Undantekningin reynir eða prófar regluna hins vegar. Og vegna þess að prófa og sanna hljóma eins á ensku halda menn að það sama gildi á íslensku.
Þetta er sem sagt þýðing úr latínu og hljóðar á frummálinu: Exceptio probat regulam.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 6.5.2016 kl. 16:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.