9.5.2016 | 11:19
Pólitík er hugsun, ekki aldur líkamsvefja.
Sterkasti fylgismannahópur öldungsins Bernie Sanders er unga fólkið af því að hugsun Sanders er fersk og ung og í samræmi við nýja tíma og ný, krefjandi og breytt viðfangsefni.
Hér á landi höfum við dæmi um allt of marga unga þingmenn og ráðamenn, sem eru með sömu hugsun og viðhorf og voru gild fyrir hálfri öld en eru orðin úrelt og úr takti við 21. öldina. Ungir líkamar, gömul og stöðnuð hugsun.
Steingrímur J. Sigfússon er víkingur til verka þegar svo ber undir og sannaðist það í afköstum hans í miðjum brunarústum Hrunsins.
Skömmu fyrir Hrun skrifaði hann ágæta bók um pólitískar hugsjónir sínar, sem voru að ýmsu leyti býsna ferskar. Steingrímur á heilmikið eftir og býr yfir afli og reynslu sem þörf er á að nýta.
En 2013 stóð hann fyrir því að veita stóriðju í kjördæmi sínu meiri ívilnanir og eftirgjafir miðað við stærð framkvæmda en nokkur ríkisstjórn Sjalla og Framsóknar hafði veitt.
Það hryggði marga sem höfðu mikið álit á honum.
Ef forsetakosningarnar núna hefðu snúist upp í hanaslag milli Davíðs Oddssonar og Ólafs Ragnars Grímssonar, hefði það orðið enn ein rimman á milli fulltrúa liðinnar aldar, sem eru að miklu leyti úr takt við tröllaukin og ný viðfangsefni þessarar aldar.
Þeir eru báðir fulltrúar og aðdáendur stjórnarskrár, sem að meginefni er dönsk, gerð til að þóknast dönskum kóngi fyrir 167 árum.
Danir gáfust upp á henni fyrir 62 árum og gerðu nýja.
Davíð og Ólafur eru andsnúnir því verkefni, sem Íslendingar með Jón Sigurðsson í broddi fylkingar hófu fyrir 165 árum, að gera sjálfir sína stjórnarskrá frá grunni, byggða á þvi að nýta sér það besta sem nútíminn hefur upp á að bjóða og í samræmi við nýja tíma.
Saman lögðu þeir Davíð og Ólafur Ragnar nöfn sín við Kárahnjúkavirkjun, langstærstu mögulegu umhverfis- og náttúruspjöll á Íslandi.
Ólafur Ragnar má þó eiga það og hafa þökk fyrir að hafa sýnt lofsvert víðsýni og mikinn dugnað við að koma á átaki þjóða á norðurslóðum vegna áhrifa manna á loftslag og náttúru og að opna augu manna fyrir því að á þessari öld verður sólarlag olíualdarinnar.
En hlutirnir gerast hratt í heimi, sem er á hverfanda hveli. Því fyrr sem ung, ný og fersk hugsun raunsæis og kjarks tekur við, því betra.
Aldur líkamsvefjanna skiptir þá ekki máli heldur hugsunin.
Steingrímur áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Stafkarlinn þar steyptist í,
Steingrímur með joðið,
eitrað Mývatn út af því,
ef þið bara skoðið.
Þorsteinn Briem, 9.5.2016 kl. 20:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.