13.5.2016 | 09:18
1962? Nei, 2016?
Fréttirnar af því þegar George Zimmerman skaut hinn 17 ára gamla blökkudreng Trayvon Martin "í sjálfsvörn" í Flórída 2012 og síðan fréttir af eftirmálum þess, eru allar með þeim blæ, að hægt er að klípa sig í handlegginn til þess að átta sig á því að það sé árið 2012 en ekki 1962.
Zimmerman var sýknaður í þessu máli á þeim forsendum að hann hefði verið að verjast "hrottafenginni árás" blökkudrengsins, sem var með sælgæti og ávaxtasafa að vopni!
Þó lá fyrir að Zimmmermann fór inn á svæðið þar sem drengurinn var og veittist þar að honum.
Nú hefði mátt ætla að málinu væri lokið með þeirri sérstöku tegund af réttarfari, sem sýknudómurinn sýndi, en það er öðru nær.
Zimmermann rær nú, fjórum árum seinna, að því öllum árum að verða moldríkur með því að græða allt að tvo milljarða króna á því að selja morðvopn sitt á uppboði.
Svona lagað virðist sem sé enn geta gerst þarna vestra, rétt eins og fyrir rúmri hálfri öld.
Eða réttara sagt fer langt fram úr því sem gerðist fyrir hálfri öld.
Og raunar er ekki hægt að muna í svipinn að neitt hliðstætt hafi gerst fyrir 1962 varðandi þessa fyrirætlan að verða stórríkur á einni byssu,, sem er komin í svona hátt verð, af því að búið er að blása upp virði hennar sem "stórmerks minjagrips varðandi sögu Bandaríkjanna."
Að endemum.
Fær milljarða fyrir byssuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Samála Ómar þetta er algerlega óásættanlegt, lýsir hugafarinu þerna vestra. Ekkert getur réttlætt þetta nema að fjármunirnir renni til þess að uppræta rasisma.
Sigurður Haraldsson, 13.5.2016 kl. 09:51
Vestrænu gildin. Það má ekki einu sinni veifa fána þegar Evrópa er að kvelja heimsbyggðina með gauli sínu.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 13.5.2016 kl. 10:27
Kæri Ómar
Ég segi nú eins og Júlíus sagði hér um árið"Et tu Omar"
Ekki átti ég von á dönskum greini frá jafn ritfærum manni og þú ert en
í upphafi greinar segir þú "hinn", eins og blessaðir unglingarnir, sem þýða erlendar greinar fyrir mbl.is
Með öðrum orðum notar danskan greini. Laus, eða danskur, greinir verkar á mig eins og krossmark á skrattann.
Margblessaður
Geir Magnusson
Geir Magnússon, 13.5.2016 kl. 10:50
Þó aðstæður sé vissu öðruvísi, þá ber líka að hafa áhyggjur af uppgangi öfgaþjóðernissinna og icesavekrossfara hér.
Held þetta eigi eftir að enda með ósköpum.
Það ber líka að líta á viðvörunarbjöllur úr fortíðinni.
Meina, um 1934 var gefið út blað í Vestmannaeyjum sem heit bókstafleg Fasistinn. Það segir ákveðna sögu.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.5.2016 kl. 11:26
Ómar fellur í þá gryfju að nota sömu málfræði og Íslendingasögurnar og það fer illa í hinn bandaríska hænsnabónda.
...Nú skal nefna sonu Njáls. Skarphéðinn hét hinn elsti....Þér synir mínir eigið allir eina gjöf saman. Þér eruð kallaðir taðskegglingar en bóndi minn karl hinn skegglausi....Þennan morgun hinn sama stóðu þeir upp snemma, Sigmundur og Skjöldur, og ætluðu til stóðhrossa....Gunnar reið við hinn tólfta mann í Kirkjubæ og kallaði út Otkel....o.s.frv.
Hábeinn (IP-tala skráð) 13.5.2016 kl. 12:58
Þegar við bætast úgglenskar gæsalappir þá rugglast maður algerlega.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 13.5.2016 kl. 14:20
"Hið ljósa man" sagði Nóbelsskáldið. "Þegar sólin, hið himneska glóðarauga," orti Tómas Guðmundsson.
Ómar Ragnarsson, 13.5.2016 kl. 20:17
Meira nöldrið í þessum "þykjustunni málfarsráðunautum" hér að ofan. - Lyklaborðið og andsvör á bloggi sem þessu bjóða ekki upp á skóla-gæsalappir. En þó allt skiljist, skal nöldrað.
Már Elíson, 13.5.2016 kl. 22:33
Mér finnst Ómar fara frjálslega um staðreyndir í málaferli Zimmermans og það gefur ekki gott af sér
Til að það sé tekið mark á pistlum, þá þurfa staðreyndir að vera réttar. Svo geta þeir sem vilja, farið út í spinn, til að gera pistilinn meira grasserandi fyrir lesendur.
Kveðja frá Houston
Jóhann Kristinsson, 14.5.2016 kl. 17:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.