16.5.2016 | 16:42
"Það besta, sem ég veit, er að gera ekkert..." sagði Púlli.
Páll Jónsson, sem gekk undir nafninu Púlli, var lífskúnstner, setti svip á lífið í miðbænum í Reykjavík og var þekktur fyrir lífsgleðin og áhyggjuleysi.
Haraldur Á. Sigurðsson leikari kunni fjölda margar skemmtilegar sögur af Púlla, sem hann sagði á héraðsmótum um allt land árið 1959 og ég hef geymt í huga mér síðan.
Nokkrar sögurnar fjalla um leti Púlla.
1. Auglýst var staða forstjóra Tjarnarbíós. Púlli hitti Harald á förnum vegi, sagðist ætla aö sækja um og bað Harald um meðmæli. "Komdu á skrifstofu mína og við græjum þetta,"svaraði Haraldur, en Púlli sagðist ekki nenna því akkúrat á þessu augnabliki og myndi koma siðar.
Þeir hittust nokkrum sinnum á gangi eftir þetta og Haraldur minnti Púlla á meðmælin, en Púlli svaraði: "Det haster ikke eins og Danskurinn segir."
Daginn áður en umsóknarfresturinn rann út hittust þeir enn og aftur á förnum vegi og Haraldur sagði við Púlla: "Nú verðum við að drífa í þessu, umsóknarfresturinn rennur út á morgun."
En Púlli svaraði: "Æ, ég er hættur við."
"Af hverju?" spurði Haraldur.
"Ég fór að hugsa um það að ég gæti kannski verið ráðinn," svaraði Púlli.
2. Púlli var eitt sinn spurður hvað væri það besta sem hann gæti hugsað sér. Svarið kom um hæl: "Það besta, sem ég veit, er að gera ekki neitt og hvíla sig svo vel á eftir."
3. Púlli var hjartveikur og gekk með pillur á sér, sem skyldi taka umsvifalaust ef hann fyndi fyrir óþægindum. Hann átti bróður í Vík í Mýrdal, sem lést einn góðan veðurdag.
Daginn eftir var Púlli í skemmtilegu kjaftasnakki í Austurstræti þegar hann var að segja skemmtilega sögu en fann fyrir óþægindum fyrir brjóstinu. En hann tímdi ekki að hætta rabbinu í miðju kafi og tók pillurnar of seint.
Þegar einu vini Púlla voru sögð tíðindin af andláti hans sagði hann: "Þetta var Púlla líkt. Ekki nennti hann að fylgja Böðvari bróður sinum til grafar."
Ætlar að gera ekkert sem forseti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Einhverju sinni var Púlli spurður að hver væri uppáhaldsmaturinn hans.
"Kjötkássa", svaraði hann.
"Af hverju?"
"Af því að þá getur maður haft aðra hendina í vasanum meðan maður borðar."
Sæmundur Bjarnason, 16.5.2016 kl. 22:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.