21.5.2016 | 18:30
Minnir á Heklu.
Hekla er eldfjall, sem sýnist vera býsna líkt eldfjallinu í Indónesíu, sem gaus í morgun.
Hekla er kannski mesta ólíkindatól íslenskra eldfjalla og hugsanlega eitt það hættulegasta.
Hekla, Katla og Eldfellið á Heimaey hafa öll kostað beint eða óbeint mannslíf á þessari öld, glóandi hraunbjarg féll á Steinþór Sigurðsson jarðfræðing við Heklu 1947, maður fórst af völdum eldingar, sem kennd var Kötlu 1928 og eiturgufa í kjallara frá Eldfelli varð manni að bana í Heimaey.
Hekla er nú á því stigi, að hún gæti gosið fyrirvaralaust innan klukkustundar frá fyrstu vísbendingum um gos, og það er ekki útilokað að einhvern tíma verði gríðarlegt sprengigos í fjallinu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum, jafnvel á þann hátt að fjallið klofni og gífurlegt eimyrjuflóð, sem eyði öllu lífi, sem á vegi þess verður æði með ógnarhraða frá því, líkt og þegar bæirnir St. Pierre og Pompei eyddust.
Fleiri eldfjöll en Hekla geta verið stórhættuleg hér á landi, en um aldir, allt fram að gosinu í Eyjafjallajökli, var full ástæða til þess að Hekla væri illræmdasta eldfjall Íslands og jafnvel anddyri sjálfs helvítis.
Og hvað heitir svo þessi fallegi foss í Þjórsá á þeim slóðum þar sem stefnt er að því að virkja hana? Búðafoss heitir hann, oft kallaður Búði, eitt af býsna vel varðveittum leyndarmálum íslenskrar náttúru.
Þrír létu lífið í eldgosi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hekla var álitin fordyri Helvítis.
"Náttúrufræðingarnir Bjarni Pálsson og Eggert Ólafsson vildu afsanna það og voru fyrstir manna til að ganga á Heklu árið 1750."
Hins vegar er undirritaður engan veginn viss um að það hafi verið afsannað og að sjálfsögðu er Helvíti á Suðurlandi.
Þorsteinn Briem, 21.5.2016 kl. 18:50
Hekla virðist stundum hafa reynt að herma eftir stóru systrum, m.a. í Indónesíu. Hún er hinsvegar mini-útgáfa af þeim. Þó vissulega hafi orðið bæði eðjuflóð og gjóskuflóð samfara Heklugosum er afar ólíklegt að slíkt gerist nema hún hvíli sig fyrst í mörg hundruð ár. Og svona dramatík eins og þú nefnir dæmi um þyrfti Hekla að undirbúa í ansi mörg hundruð ára, ef ekki þúsund.
Guðrún Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 21.5.2016 kl. 20:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.