Árgangar eins og í þorskinum?

Fyrir nokkrum árum náði íslenska unglingalandsliðið tímamótaárangri í alþjóðlegri keppni og þá var hægt að spá því hér á síðunni, að ef rétt væri haldið á spilum, gæti hér verið að skapast nokkurs konar gullaldarlið í íslenskri knattspyrnu.

Sú varð raunin, að aðeins það eitt að hafa spilað sig af öryggi inn í lokakeppni EM og velgt sjálfum Hollendingum undir uggum er nægilegt útaf fyrir sig og allt meira en það aðeins bónus.

En hvað svo? Er í sjónmáli nýrri árgangur sem getur tekið við kyndlinum?

Það er ekki svo að sjá svo óyggjandi sé, og margt í umgerð íslenskrar knattspyrnu gefur tilefni til að krefjast úrbóta, því að annars getur komið bakslag þegar´núverandi landslið fer að eldast.

Að einu leyti hrjáir svipað íslenska knattspyrnu og þá ensku: Of margir erlendir leikmenn eru hjá félögunum og þetta bitnar á landsliðunum.

Mikill fjöldi erlendra leikmanna veldur því að heimamenn eiga erfitt með að komast lengra en að sitja á bekknum, og verða of oft jafnvel að víkja fyrir gömlum erlendum leikmönnum, sem hingað koma í lok keppnisferils síns.  

Í öllum íþróttum er næg keppnisreynsla í krefjandi alvöru leikjum forsenda fyrir framförum.

Allt of margir ungir og efnilegir íslenskir leikmenn fá ekki tækifæri til þess að öðlast þessa ómetanlega reynslu, ekki einu sinni þeir, sem eru jafnvel valdir efnilegustu leikmenn síns aldursflokks.

Sumir neyðast til að fara of ungir til útlanda í örvæntingarfullri von til að bæta þetta íslenska ástand upp, - of ungir til þess að vera búnir að öðlast þroska til þess að standast það álag sem framandi umhverfi og ungur aldur leggja á þá.

Mistekst kannski og koma heim vonsviknir eftir að hafa misst úr dýrmæt ár til náms og undirbúnings fyrir lífið.

Rétt eins og í þorskstofninum þarf að rækta og vernda uppvaxandi árganga og sjá til þess að skilyrði þeirra til vaxtar verði sem best.

Núna njótum við einstaks árgangs á knattspyrnuvellinum, en framantaldir annmarkar varðandi árgangana sem eiga að taka við eru áhyggjuefni, ástand sem krefst aðgerða.


mbl.is Breytingar í íslenska fótboltanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband