"Þegar jörðin þiðnar koma ormarnir upp."

Ofangreint máltæki kemur upp í hugann þegar hlustað er á frétt dagsins varðandi söluna á ríkisbönkunum og fleiri ríkisfyrirtækjum fyrir hálfum öðrum áratug.

Ríkisfyrirtækjajörðin þiðnaði og ormar gróðaafla komu upp.

Ég verð sífellt hrifnari af þessu rússneska máltæki, sem varfærnir íbúar Sovétríkjanna vitnuðu í þegar þeir voru spurðir við upphaf Glasnost og Perestrojku um álit þeirra á þessum ráðstöfunum Gorbatjofs.

Sovétmenn höfðu myndað sér hentuga aðferð til að neita að segja skoðanir sínar með því að svara: "Ég hef enga skoðun á þessu, en það er til rússneskt máltæki sem segir:...

Og síðan mæltu þeir máltækið af munni fram án þess að segja neitt annað.

Það er sagan endalausa að þegar los kemur á þjóðfélagið vanmeti menn þau öfl, sem þá ryðja sér til rúms.

Hindenburg forseti Þýskalands og Von Papen vanmátu Adolf Hitler gróflega þegar hann braust til valda. Hindenburg hafði afar lítið álit á "austurríksa liðþjálfanum" og Von Papen taldi það verða létt verk og löðurmannlegt að hafa hemil á honum.

Annað kom í ljós.  

Gandhi var gróflega vanmetinn lengi vel í baráttu hans fyrir sjálfstæði Indlands. Haft er eftir honum: Fyrst láta þeir sem þú sért ekki til, síðan gera þeir gys að þér og tala um þig af lítilsvirðingu, síðan vinnur þú.

Winston Churchill vanmát stórlega hug bresku þjóðarinnar í stríðslok og treysti á það að frábær forysta hans í gegnum stríðið myndi gera annað óhugsandi en að hann sigraði í fyrstu þingkosningunum eftir stríð.

En meirihluti kjósenda var dauðfeginn að stríðinu var lokið og uppteknari af umbótum í innanlandsmálum.

Aðeins níu árum eftir að Churchill hafði talað í frægri ræðu um "stærstu stund Bretlands og heimsveldisins í þúsund ár, hafði Indland fengið sjálfstæði og lönd breska heimsveldisins á hraðri leið til sjálfstæðis.

Á Atlantshafsfundi Roosevelts og Churchills 1941 hafði Roosevelt gefið það sterklega í skyn við Churchill að Bandaríkjamenn myndu að vísu styðja Breta gegn Öxulveldunum eftir megni, en þó ekki veit stuðning í því að koma í veg fyrir lönd breska samveldisins gæti fengið sjálfstæði.

Bandaríkjamenn og Vesturveldin vanmátu Mao og baráttu Víetnama fyrir sjálfstæði og lögðu hvað eftir annað rangt mat á ástandið í Írak, fyrst varðandi upphaflegan stuðning þeirra við Saddam Hussein og síðar varðandi seinna varðandi innrásin í Írak 2003.

Þeir vanmátu líka ástandið í Íran þegar þeir héldu, að með því að ryðja burtu Mossadek eftir stríðið og styðja keisara, sem gæti orðið þægur bandamaður.

En Resa Palevi varð æ firrtari eftir því sem valdatími hans lengdist uns honum var steypt af öflum, sem nýttu sér svipaða óánægju og Mossadek hafði leyst úr læðingi 30 árum fyrr.

Bæði Sovétmenn og Bandaríkjamenn vanmátu möguleika sína í Afganistan, Sovét menn þó sýnu meira.

Síðustu ár hefur formúlan fyrir "arabísku vori" í framhaldi af "frelsun" Íraks, Líbíu og Sýrlands reynst óraunhæf og valdið meira tjóni en gagni.

Rússneska máltækið um það sem tæki við eftir að sovétfrostinu lyki reyndist eiga við þegar allt fór þar úr böndunum eftir fall Sovétríkjanna og ormar olígarkanna og ósvífinna gróðapunga spruttu upp og sölsuðu mestöll auðæfi landsins undir sig.

Og ef marka má skoðanakannanir er af sú tíð, að "fjórflokkurinn" svonefndi njóti fylgis allt að 90 prósent kjósenda, því að þetta fylgi hefur ekki verið samanlagt nema rúmlega 60% í meira en heilt ár.     

 

 


mbl.is „Ég vanmat óstöðugleikaöflin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Valgerður Sverrisdóttir tók nokkurn veginn eins til orða í viðtali í fréttum í hádeginu í dag. Hún vanmat erlendu ráðgjafana sem komu að sölu bankana í ráðherratíð sinni. Auðvitað treysti hún þeim en ekki heilbrigðri dómgreind sem virðist lítið fara í höfðinu á sumu fólki.....

Ragna Birgisdóttir, 25.5.2016 kl. 13:41

2 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

http://www.ruv.is/frett/madur-treysti-thessum-erlendu-radgjofum

Ragna Birgisdóttir, 25.5.2016 kl. 13:43

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Einkavæðing bankanna var einkavæðing sem fór fram árið 2002 með sölu á ríkisreknum bönkum, Landsbankanum og Búnaðarbankanum, í hendur einkaaðila.

Einkavæðingin var alla tíð nokkuð umdeild og varð enn umdeildari eftir bankahrunið 2008.

Bent hefur verið á að ef öðruvísi hefði verið farið að hefði þenslan í hagkerfinu ekki orðið jafn mikil á jafn skömmum tíma.

Einnig hefur verið gagnrýnt að ekki var fylgt upprunalegri settri stefnu um að bankarnir skyldu verða í dreifðri eignaraðild.

Steingrímur Ari Arason
sagði sig úr einkavæðingarnefnd Landsbankans í september 2002 og viðhafði þau orð að hann hefði aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum."

Geir H. Haarde
, þáverandi fjármálaráðherra, 12.9.2002:

"Við erum ekki sammála Steingrími [Ara Arasyni] þegar hann segir önnur tilboð vera hagstæðari á alla hefðbundna mælikvarða.

Þessu erum við einfaldlega ósammála og það er um þennan ágreining sem málið snýst.

Við byggjum afstöðu okkar á mati HSBC-bankans og einkavæðingarnefnd sendir málið áfram til ráðherranefndar sem tekur þessa ákvörðun eins og henni ber.

Hún er hinn pólitískt ábyrgi aðili í málinu.
"

Þorsteinn Briem, 25.5.2016 kl. 14:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband