25.5.2016 | 20:04
Blær átakastjórnmála hjá Davíð.
Davíð Oddsson naut sín vel þegar svonefnd átakastjórnmál voru algeng við stjórn landsins og sveitarfélaganna.
Á ferli sínum hefur hann fært rök að því að nauðsynlegt sé að stjórnmálamenn tali skýrt og ákveðið í málflutningi sínum og leyfi ólíkum og mismunandi sjónarmiðum og skoðunum að vegast á.
Á þann hátt geti kjósendur helst myndað sér skoðanir og stjórn ríkisins og sveitarstjórnir komist að niðurstöðum sem byggjast á því að meirihlutinn ráði.
Ýmsir hafa gagnrýnt stjórnmálastarfsemi af þessu tagi og notað orðið "skotgrafir" til að lýsa göllum þessarar aðferðar í lýðræðislegu ferli.
Málflutningur Davíðs fyrir forsetakosningarnar bera svolítið keim af þessu. Hann skýtur föstum skotum á köflum að helsta mótframbjóðanda sínum og er óragur við að viðra ákveðnar skoðanir sínar.
Þótt Davíð hafi oft notið sín vel í átakastjórnmálum á fyrri tíð með leiftrandi kímni og rökfimi oft á tíðum, virðist þessi aðferð hans og heitra fylgismanna hans ekki enn hafa breytt miklu um fylgi hans eða annarra frambjóðenda enn sem komið er ef marka má nýjustu skoðanakannanir.
Með aldrinum hættir Davíð og fylgismönnum hans stundum til þess að gera mótframbjóðendum sínum upp skoðanir með því að taka einhver atriði út úr og alhæfa um þau, - og í framhaldinu að berjast síðan við þær af miklum krafti.
Má sem dæmi nefna að fullyrða að Guðni Th. hafi barist hart fyrir inngöngu Íslands í ESB og gert lítið úr baráttu Íslendinga í þorskastríðunum, jafnvel talið hana vera þjóðsögu.
En það verður ekki skafið utan af því að þátttaka Davíðs hleypir heilmiklu fjöri í kosningabaráttuna. Það er aldrei lognmolla þar sem Davíð er.
Guðni með 57% fylgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Tekur Davíð Oddsson forustuna í skoðunarkönnunum þegar og ef Kári Stefánsson lýsir yfir stuðningi við framboð hans til forseta Íslands?
Baldvin Nielsen
B.N. (IP-tala skráð) 25.5.2016 kl. 20:43
"Það verður aldrei", hefði hún amma mín á Baldursgötunni sagt.
Þorsteinn Briem, 25.5.2016 kl. 21:34
Taktík Davíðsmanna er greinilega ekki að virka að neinu ráði í dag. Svona pólitík virkar ekki í dag. Það er ekki þetta sem fólk er að kalla eftir. Pólitík ÓRG, Davíðs og SDG er barasta búin að vera. Nær ekki til neinnar breiddar í dag. Fólk er farið að sjá í gegnum þjóðrembinginn, blekkingarnar og falsið.
Icesave dugar ekki neitt lengur. Flestir búnir að sjá að sú sjallaskuld var alltaf borgið plús álag og átta sig á að það var spilað með það. Að nefna ESB núna dugar líka stutt. Það má ekki einu sinni kjósa um hvort megi tala við ESB. Svoleiðis er nú staðan á því máli vegna ofstækis hægri aflanna og einangrunnarghyggjumanna. En mörgum langar orðið að fá að kjósa enda var því lofað.
Nú nu. Það kórónaði svo alltsaman það útspil, að gagnrýna sagnfræðilega útleggingu á samningum í svokölluðu þorskastríði. Fólk fór almennt þá bara að hlægja þegar davíðsmenn komu með það. Jú jú, svo gagnrýndu þeir líka að Guðni hefði dirfst að segja að Íslendingar hefðu ekki fundið upp 200 mílurnar. Alveg fáránlegt að koma með svona í forsetakosningabaráttu. Álíka og ef Gunnar Thiroddsen hefði farið að gagnrýna Kristján Eldjárn fyrir fornleifaumfjöllun.
Er eiginlega mjög jákvætt, góðar fréttir, að davíðsarmurinn skuli ekki fá nema um 20%. Gríðarlega jákvætt. Vonandi vísbending um áframhaldið. Framsjöllum kastað frá kjötkötlunum með haustinu.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 25.5.2016 kl. 22:03
Þá Kárnar bara gamanið enn frekar...
Þjóðólfur í Forsæti (IP-tala skráð) 25.5.2016 kl. 23:01
Góður pistill hjá Ómari Bjarka.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 26.5.2016 kl. 08:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.