26.5.2016 | 20:18
Löngu tímabært framfaraskref.
Loksins, eftir að áratuga draumur um millidómstig hefur ræst, hillir undir einhverja mestu framför, sem möguleg er í meðferð dómsvaldsins á Íslandi.
Lýðræði við stjórn landsins og löggjöf og réttlæti í dómskerfinu fæst ekki ókeypis.
Hvort tveggja er dýrt og kostar mikið fé, enda er um að ræða grundvöll fyrir réttlátu nútíma samfélagi.
Hinn kosturinnn, að reyna að komast ódýrt fram hjá því að rækta þessi svið, verður dýrari ef ókostir skorts á lýðræði og réttlæti fá að valda tjóni.
Jón Steinar Gunnlaugsson hefur réttilega bent á ókosti þess að auka álag á Hæstarétt úr hófi fram. Það hefur ekki einasta kostað hættu á því að rétturinn fái ekki tíma og aðstöðu til að kryfja erfið mál til mergjar, og aukið þannig hættu á röngum dómum, heldur er það afleitt fyrir stöðugleika í dómum og mótun fordæma, að skipun dómara í málum sé vegna álags og fjölgunar hæstaréttardómara, undirorpið miklum breytingum.
Það skapar til dæmis hættu á því að það verði áhætta falin í því að sækja mál fyrir réttinum og veðja á það að vera heppinn með það í hlut hvaða dómara kemur að skipa réttinn í einstaka málum.
Auk millidómstigs kæmi fyllilega til greina að setja á stofn sérstakan stjórnlagadómstól svipaðan þeim sem eru í mörgum öðrum löndum.
Sú afsökun, að vegna smæðar þjóðarinnar sé of dýrt að hafa millidómstig og stjórnlagadómstól, er hættuleg, því að ef Ísland ætlar að keppa við önnur lönd um góða stjórnsýsluhætti, verður það að vera á öllum mikilvægustu sviðum þjóðlífsins.
Dómsmál munu fá vandaðri meðferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.