"Ég tek hundinn!" Kötturinn Kalli.

Gæludýr geta orðið jafnokar mannlegra meðlima í fjölskyldum og miklu meira virði en dauðir hlutir.

Ég reyndi að lýsa þessu í textanum "Ég tek hundinn!" og kynntist þessu sérstaklega vel þegar kötturinn Carl Möller var einn af fjölskyldunni meðan hún bjó í parhúsi.

Þegar við fluttum síðan í blokk var það tilfinningaþrungin kveðjustund þegar Kalli, eins og kötturinn var alltaf kallaður, fékk athvarf hjá miklu sómafólki og dýravinum á bænum Skriðulandi í Langadal.

Vegna þess að engin leið var að Kalli nyti síns þráða frelsis uppi á 9. hæð í blokk og ætti enga leið út og inn nema í gegnum sameign, varð þetta niðurstaðan.

Öðru máli finnst mér gegna ef dýrið fer eingöngu beint út og inn úr húsi án þess að trufla eða ónáða nokkurn.

Kalli var einstæður persónuleiki. Þegar kom að því að flytja hann nauðungarflutningi kom það í minn hlut að sjá um það.  Ég útbjó kassa úr þykkum pappa og lokkaði hann inn í kassan með því að setja inn í hann eftirlætis rétt hans, rækjur.

Bóndinn á Skriðulandi, sem var í Reykjavíkurferð, fékk síðann kassann í hendur og fór af stað með hann norður með Norðurleiðarútunnni.

Kalli trylltist í kassanum þegar honum voru ljós svik mín og hamaðist svo mjög, að þegar rútan stansaði við Ferstikluskála, var hann búinn að klóra gat á kassann og tróð sér hvæsandi í gegnum gatið og hljóp út úr rútunni.

Bóndinn hélt að þar með væri kötturinn horfinn, en þegar síðasti farþeginn gekk inn í rútuna kom Kalli hlaupandi, stökk inn í rútuna og fór beint til bóndans.

Klappaði fótum hans með kattarrófunni eins og katta er siður og gerði sér dælt við hann, stökk upp í fang honum, lagðist þar og malaði.

Þetta var gáfaður köttur, sá að taflið var tapað og kom sér umsvifalaust í mjúkinn hjá nýjum og betri húsbónda.

Nokkrum árum síðar áttum við Helga leið um Langadalinn og fórum að Skriðulandi til að heilsa upp á Kalla, sem hafði verið hvers manns hugljúfi á bænum.  

Hann var með aðsetur í horni í skemmu, og þegar ég kom í dyrnar, fitlaði ég við dyrastafinn eins og ég hafði gert á Háaleitisbrautinni, en þá hafði Kalli ævinlega komið hlaupandi og farið að leika við mig.

En hann sýndi engin viðbrögð.

Ég kallaði þá nafn hans, en hann lá áfram sem fastast og rótaði sér ekki.

Helga nefndi nú nafn hans, og þá kom hann hlaupandi og stökk upp í fang henni en virti mig ekki viðlits.

Að sjálfsögðu, ég hafði svikið hann í tryggðum og greinilegt að hann myndi aldrei gleyma því.

Kalli varð fjörgamall og hrumur. Eitt fagurt og hlýtt sumarkvöld hökti hann hægt inn í eldhús að Skriulandi þar sem fólk sat að snæðingi.

Hann gekk á milli fólksins, nuddaði sér upp við fætur hvers og eins og haltraði síðan rólega út.

Út um gluggann sást hvernig hann dróst hægt upp á smá þúfu fyrir utan, settist rólega, horfði í sólarátt upp til himins og hneig síðan hægt niður, örendur.

Þannig kvaddi þetta yndislega dýr þennan heim og þá, sem honum voru kærastir, með stæl.

Er furða að maður geti komist við þegar maður rifjar upp minningar um slíkt.

Kalli virðist hafa tileinkað sér nokkurs konar austrænt æðruleysi, kannski ekki ólíkt því sem ég var að setja inn í formi langs á facebook síðu minni: "Það er ekki annað í boði".


mbl.is Selja ef hundurinn þarf að fara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband