4.6.2016 | 11:05
Einn af hundrað mestu snillingum síðustu aldar?
Muhammad Ali var eini íþróttamaðurinn, sem sérfræðingar tímaritsins Time töldu hafa verið einn af 100 mestu snillingum (genius) síðustu aldar.
Það var ekki endilega vegna þess, að aldrei, fyrr né síðar, hefur verið uppi 95-100 kílóa þungur hnefaleikamaður, 1,91 metri á hæð, sem gat "flögrað eins og fiðrildi og stungið eins og býfluga), dansað og slegið á ofurhraða léttvigtarboxara í 15 lotur með fegurðarhreyfingum ballettdansarans, eða að hann hefði haft betur í bardögum við fjóra heimsmeistara í þungavigt og tvo í léttþungavigt, heldur ekki síður vegna þeirra gríðarlegu áhrifa, sem hann hafði á íþróttir, þjóðmál og stjórnmál síns tíma.
Hann átti það sameiginlegt með öðrum helstu snillingum að sköpunargáfa hans og afköst eða framlegð, var einstök.
Hugrekkið var aðdáunarvert bæði utan og innan hrings. Hann var í fremstu röð í andófshreyfingu gegn Víetnamstríðinu og kynþáttamisrétti í Bandaríkjunum og mátti þola það að vera sviptur réttindum til að verja heimsmeistaratitil sinn í þrjú og hálft ár vegna málaferla af því að hann neitaði að gegna herþjónustu af trúarástæðum.
Hæstiréttur sneri niðurstöðu undirréttar við í tímamótadómi, og það byggðist á því að Ali gat vitnað í meginatriði múslimastrúar sinnar varðandi frið og að drepa ekki menn, á sama hátt og Mormóni hafði verið sýknaður áður af svipaðri ástæðu varðandi sína trú.
Ótal ummæli Ali urðu fleyg eins og t.d. "Ég á ekkert sökótt við Viet Kong. Enginn þeirra hefur kallað mig "nigger". "Hvers vegna skyldi ég, svartur maður, fara að drepa gulan mann á vegum hvíts manns, sem rændi landi af rauðum manni?"
Hluti af sálfræðihernaði Ali gagnvart andstæðingunum var fólgið í fádæma yfirlæti og stundum hroka sem fór yfir strikið:
"Ég er svo fljótur, að ég get slökkt á ljósarofanum í herbergi mínu og verið kominn upp í rúm áður en ljósið slokknar." "Ég get verið svo illskeyttur, að ég get gert meðöl veik."
"Foreman notar aldrei spegil,- þorir það ekki, af því að það myndi líða yfir hann ef hann sæi hvað hann er ljótur". "Heimsmeistarar eiga að vera fallegir eins og ég."
Ali var eitt sinn spurður álits á því þegar menn segðu að hann væri árásargjarnan og illskeyttan (truculent)og svaraði samstundis:
"Ég veit ekki hvað truculent þýðir, en ef það á við mig hlýtur það að vera gott."
Ali hefur haft áhrif á milljónir aðdáenda sinna um víða veröld vegna baráttu sinnar á heimsvísu fyrir frelsi, jafnrétti og mannréttindum.
Ef hann hefði hætt keppni eftir að hann endurheimti titil sinn á móti Foreman 1974, eða ekki síðar en eftir bardagann mikla við Frazier 1975, hefði hann kannski sloppið við að fá Parkinsonveikina, þótt þetta verði aldrei sannað til fulls.
En hann gat ekki hætt fyrr en 1981 og var þá búinn að þola yfirgengilegar barsmíðar, einkum í bardaga við Earnie Shavers, sem Ali sagði hafa verið lang höggþyngsta andstæðing sinn.
Og hann sagðist viljugur berjast stærsta bardaga sinn, við sjálfan Parkinson, og láta til sín taka svo um munaði.
Einn af snillingum og mikilmennum síðustu aldar, sem ætíð reis upp í þau þrjú skipti sem hann laut í strigann, er nú hniginn að foldu.
Muhammad Ali látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þú hlýtur að hafa link á þennan TIME 100 mestu snillingar (genius) síðustu aldar. Ég finn hann hvergi á internetinu. TIME hefur gert nokkra 100 lista en ég finn engan sem passar við lýsingu þína.
Hábeinn (IP-tala skráð) 4.6.2016 kl. 12:49
Ég þurfti að flétta upp orðinu "truculent." Get ekki lagt dóm á innihald pistilins, en hann er ljómandi vel skrifaður Ómar.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 4.6.2016 kl. 13:40
Ég flokka ekki svona slagsmál sem íþrótt.
Jón Þórhallsson, 4.6.2016 kl. 14:42
Ég fór að leita að þessum Time-lista vegna orða Hábeins og fann ekki heldur. Á wikipediu er ekki minnst á Time en sagt að Ali hefði verið kosinn ""Sportsman of the Century" by Sports Illustrated and "Sports Personality of the Century" by the BBC.
En Ómar ... hefurðu séð þetta viðtal við þá alla í einu, Foreman, Frazier og Ali, löngu síðar? Það er magnað, sérstaklega þegar Ali byrjar að tala (af veikum mætti því þarna er hann orðinn alvarlega veikur af parkinson).
https://youtu.be/IlB-NRQv3OY
Bergur Isleifsson (IP-tala skráð) 4.6.2016 kl. 16:26
Svartur múslími og baráttumaður fyrir mannréttindum.
Gæti best trúað að hann hafi verið í Framsóknarflokknum.
Þorsteinn Briem, 4.6.2016 kl. 18:20
Er hægt að flokka skák undir íþrótt, þar sem málið snýst eingöngu um að drepa menn andstæðingsins, hóta manndrápum og hafa í frammi hvers kyns þvinganir og hótanir?
Hvað um íslensku glímuna, sem felst í því að fella andstæðinginn til jarðar með hvers kyns "fantabrögðum"? Eða grísk-rómverska glímu, júdó, karate, ji-jitsu, Tækvandó og aðrar bardagaíþróttir?
Ég held ekki uppi bókhaldi um allar blaðagreinar, sem ég les og hef lesið um dagana og þeir Hábeinn og Hilmar (kannski sami maðurinn) þrástagast á að ég verði að finna og birta og hef ekki tíma til að leggjast í leit að linkum á allt sem hef fram að færa hér á síðunni, sem þeir fullyrða að sé allt saman "lygi og rangfærslur".
Í einstaka tilfellum hafa aðrir en ég fundið þetta og birt hér í athugasemdum, og í fyrra vildi tvívegis svo heppilega til að ég gat rekið ásakanir um "lygi og rangfærslur" beint ofan í þá (hann?) af því að þær voru alveg við hendina.
Ómar Ragnarsson, 4.6.2016 kl. 23:33
Hvort sem Ali var einn mesti snillingur eða ekki mesti snillingur síðustu aldar, þá er það öruggt að hann var einn skemmtilegasti karakter síðustu aldar, og líka einn sá fallegasti.
Bjarni (IP-tala skráð) 4.6.2016 kl. 23:55
Ómar heldur ekki bókhald...nema kannski yfir þau tvö skipti sem hann laug ekki á síðasta ári.
Stöðugar ásakanir og aðeins tvö skipti sem hann gat sýnt sig fara með rétt mál. Það kallast lélegur árangur. Og nú er komið staðlað svar við öllum ásökununum "Ég veit ekki hvaðan ég hef þetta en ég laug ekki tvisvar í fyrra."
Það er frekar lélegt að þurfa að hefja stutta grein um hetjuna sína með rangfærslum. Eins og afrek Alis séu ekki næg til að fylla margar blaðsíður. Og hafa svo ekki manndóm til að viðurkenna að minnið hafi brugðist. Amma mín hefði sagt skammastu þín hefði ég gert svona.
Hábeinn (IP-tala skráð) 5.6.2016 kl. 00:50
Clay var rasisti sem tók upp íslam. Varla boðberi friðar eða merkilegasti maður veraldar. En hann var góður boxari.
https://www.youtube.com/watch?v=_HBnc8YNaaQ
immalimm (IP-tala skráð) 5.6.2016 kl. 00:56
Samkvæmt ályktunaraðferð Hábeins (Hilmar) sagði Ali ekkert af því sem ég hef eftir honum, af því að ég birti ekki "sannanir" fyrir hverju og einu. Allt lygi hjá mér og allir mínir 10 þúsund pistar "lygar og rangfærslur".
Kannski tók einhver annar myndirnar, sem ég birti í nýjasta pistli mínum, og þær eru falsaðar af því að ég birti ekki sannanir um myndatökurnar.
Kannski heiti ég ekki Ómar Ragnarsson, af því að ég hef ekki birt sönnun fyrir því hér á síðunni. Kannski er ég bara maðurinn sem leikur mig.
Ómar Ragnarsson, 5.6.2016 kl. 11:21
Þetta er það nýjasta, sem maður sér, að þeir, sem börðust fyrir mannréttindum blökkumanna í Bandaríkjunum, hafi verið rasistar.
Ómar Ragnarsson, 5.6.2016 kl. 11:22
Geta blökkumenn s.s. ekki verið rasistar?
Horfðu á vídeóið og segðu mér svo að þetta sé ekki rasismi.
immalimm (IP-tala skráð) 5.6.2016 kl. 16:09
Það eru fáir íþróttamenn sem megna að endur heimta titil eftir þriggja ára bann frá keppni. Ali var einn af þeim og hann sótti sjálfan heimsmeistarann! Við vitum það öll að hann er og verður alltaf einn af þeim bestu og við þurfum hvorki Time eða Moggann til að staðhæfa það.
Ferlega leiðinlegt að sjá fólk talandi rasista fram og til bakka á þessari stundu. Það hefur ekkert með málið að gera og Ómar, láttu ekki einhverja ónefninga ná þér.
Hvíldu í friði Ali. Þín persóna er ómetanleg okkur öllum
Gaui
Guðjón Erlendur Guðjónsson (IP-tala skráð) 5.6.2016 kl. 16:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.