6.6.2016 | 11:57
"Hagsmunamál allra á Norðurlandi" eru því miður "eitthvað annað."
Fyrir löngu, jafnvel fyrir áratug, hefði verið hægt að koma samgöngumálum beggja vegna nyrsta hluta Jökulsár á Fjöllum í viðunandi horf ef fjárveitingavaldið hefði haft skilning á því, sem í ályktun Ferðamálasamtaka Norðurlands eystra er sagt vera "hagsmunamál allra á Norðurlandi".
Sömuleiðis er ömurlegt að horfa upp á að í stað þess að aka grjóti og möl úr Vaðlaheiðargöngum rakleitt í stækkað flughlað Akureyrarflugvallar, er því slegið á frest með þeim augljósu afleiðingum að síðar meir verður þessi bráðnauðsynlega framkvæmd miklu dýrari en ella.
En því miður hafa samgöngubætur til hagsbóta fyrir ferðaþjónustuna fallið undir hugtakið "eitthvað annað", þ.e. eitthvað annað en stóriðju, hugtak, sem hefur falið í sér fyllstu fyrirlitningu og vantraust á því að neitt annað en stóriðjan geti falið í sér "atvinnuuppbyggingu."
Því augljósara er þetta í ljósi þess að hinn dæmalausi vöxtur ferðaþjónustunnar hefur skapað tífalt fleiri ný störf síðustu fimm ár en stóriðjan og þessi stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar hefur nánast einn og sér skapað þann hagvöxt og aukningu kaupmáttar sem stjórnvöld hæla sér af, stjórnvöld sömu afla sem hafa talað niður "eitthvað annað" og tíma ekki að sjá af broti hagnaðarins af henni til þess að búa í haginn fyrir hana og koma í veg fyrir stórfelld vandræði af völdum þessarar nísku.
Hagsmunamál allra á Norðurlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þegar hugtakið "eitthvað annað" varð til þá náði það yfir allt sem ekki var í hendi. Óljósar hugmyndir um ýmsa fjarlæga möguleika. Ferðaþjónusta, fjallagrasatýnsla eða vettlingaprjón. Bara "eitthvað annað" en það sem til boða stóð. Í dag væri til dæmis járnbrautalest frá Selfoss til Víkur í Mýrdal "eitthvað annað". Kafbátahöfn í Vestmannaeyjum "eitthvað annað". Og Kókospálmarækt á Héraði "eitthvað annað".
Mun Ómar spyrja eftir tíu ár hvers vegna við fórum í vegabætur á Vestfjörðum þegar við hefðum getað lagt járnbrautalest frá Selfossi til Víkur í Mýrdal? Hvers vegna við fórum í nýjan Herjólf frekar en Kafbátahöfn í Vestmannaeyjum? Og hvort Kókospálmaræktin stæði ekki betur ef við hefðum hafið hana af fullum krafti 2016?
Hábeinn (IP-tala skráð) 6.6.2016 kl. 13:01
Útflutningur á vörum og þjónustu héðan frá Íslandi árið 2009:
1. sæti: Þjónusta 287 milljarðar króna (þar af samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta 197 milljarðar króna),
2. sæti: Iðnaðarvörur 244 milljarðar króna (þar af ál 171 milljarður króna og kísiljárn 17 milljarðar króna),
3. sæti: Sjávarafurðir 209 milljarðar króna,
4. sæti: Landbúnaðarvörur 8 milljarðar króna.
Útflutningsverðmæti samgangna, flutninga og ferðaþjónustu var því níu milljörðum króna meira árið 2009 en útflutningsverðmæti áls og kísiljárns.
Þorsteinn Briem, 6.6.2016 kl. 13:29
Samtök iðnaðarins:
"Mikilvægi hátækniiðnaðar fyrir atvinnulíf framtíðarinnar speglast í því að fimmtungur allra nýrra starfa sem urðu til í landinu á árunum 1990-2004 sköpuðust vegna hátækni.
Á sama tíma fjölgaði aðeins um 500 störf í stóriðju og fækkaði um fjögur þúsund í sjávarútvegi.
Í lok tímabilsins störfuðu 5% vinnuaflsins, 6.500 manns, við hátækni, 900 við stóriðju (0,7%) og ríflega 10 þúsund í sjávarútvegi.
Í hátækni eru 40% starfsfólksins með háskólamenntun og um 60% með háskóla- og iðnmenntun."
Þorsteinn Briem, 6.6.2016 kl. 13:31
Á fjórða ársfjórðungi 2014 voru 185.700 manns á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaðnum hér á Íslandi, samkvæmt Hagstofu Íslands.
Hjá Norðuráli á Grundartanga unnu um 500 manns í árslok 2009, þar af um 400 félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness.
Þorsteinn Briem, 6.6.2016 kl. 13:32
Stóriðjan þarf gríðarmikla raforku og stóriðjufyrirtæki verða einungis á örfáum stöðum á landinu.
Ferðaþjónusta er hins vegar í öllum bæjum, þorpum og sveitum landsins.
Þar að auki eru langflest fyrirtæki í ferðaþjónustunni hér á Íslandi einkafyrirtæki, sem Sjálfstæðisflokkurinn talar sífellt um af mikilli lítilsvirðingu, eins og mörg önnur einkafyrirtæki hér, til að mynda alls kyns þjónustufyrirtæki.
Þorsteinn Briem, 6.6.2016 kl. 13:33
"Hagkerfi margra vestrænna landa byggist nú á þjónustu og samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum veittu Bandaríkin mesta þjónustu árið 2005.
Næstmesta veittu Japan og Þýskaland en þjónusta myndaði þá 78,5% hagkerfis Bandaríkjanna."
En það skilja Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn engan veginn.
Þjónusta - Vörur
Þorsteinn Briem, 6.6.2016 kl. 13:36
Ferðaþjónustan hefur vaxið mikið hér á Íslandi undanfarin ár meðal annars vegna þess að gengi íslensku krónunnar var alltof hátt og ekki innistæða fyrir þessu háa gengi.
23.3.2015:
"Árið 2001 spáði Vilhjálmur Bjarnason þingmaður og þáverandi sérfræðingur hjá Þjóðhagsstofnun því að hingað til lands myndi koma um ein milljón ferðamanna árið 2016 ... en talan fékkst meðal annars með því að framreikna þá fjölgun sem varð á ferðamönnum milli áranna 1990 og 2000."
Spáin reyndist nærri lagi
Þorsteinn Briem, 6.6.2016 kl. 13:37
Enn sem fyrr kemur Hábeinn fram með fáránlegar hugmyndir sem ég hef aldrei sett fram og mun aldrei setja fram´sem sönnun þess hve fáránlegar hugmyndir mínar um möguleika ferðaþjónustunnar hafi verið, hugmyndir sem ég hef kynnt áratugum saman.
Ég dirfðist til dæmi að fjalla um hvalaskoðunarferðir fyrir 25 árum, þegar fyrsti báturinn var gerður út til þeirra, og var skammaður fyrir og talað um "geimóra" hjá mér.
Ég hef aldrei haldið fram vettlingaprjóni eða fjallagrasatínslu sem bjargráðum fyrir þjóðina.
Allar hugmyndir, sem ég hef haldið fram, hafa reynst raunhæfar og framhjá því kemst Hábeinn/Hilmar ekki.
Ómar Ragnarsson, 6.6.2016 kl. 13:45
Það sem Ómar kemst sjálfur ekki framhjá er að hugmyndir sem hann hefur haldið fram eru lítið meira en "eitthvað annað". Óljósar hugmyndir um ýmsa fjarlæga möguleika. Hann hefur viljað "eitthvað annað" og síðan eignað sér það sem komið hefur fram og kallað það þetta "eitthvað annað".
Ómar átti að eigin sögn hugmyndina að hvalaskoðunum og fékk hana stuttu eftir að fyrsti Íslenski hvalaskoðunarbáturinn lét úr höfn. Hefði verð á fjallagrösum rokið upp og Austfirðingar í þúsundatali gert fjallagrasatínslu að blómlegri atvinnugrein hefði Ómar eignað sér fjallagrasatínsluhugmyndina.
Allt sem ekki tengist stóriðju og virkjunum rúmast innan "eitthvað annað". En það þarf náttúrulega að kalla það "eitthvað annað" meðan enginn veit hvað það ætti að vera. Það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á.
Hábeinn (IP-tala skráð) 6.6.2016 kl. 16:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.