11.6.2016 | 14:06
Ali var alltaf á heimavelli.
Enginn skyldi vanmeta gildi þess að heyja íþróttaviðureign á heimavelli. En á löngum íþróttaferli, lenda allir til skiptis í því að spila á á heimavelli eða ekki.
Þess vegna er það hluti af þjálfun íþróttamanna að byggja upp hjá þeim ónæmi við andsnúnum áhorfendum og jafnvel að snúa hlutunum við og fá þá á band með sér.
Ken Norton, sem var annar af tveimur erfiðustu keppinautum Muhammads Alis, sagði í viðtali, að Ali hefði alla sína tíð verið snillingur í að gera útivelli að heimavöllum sínum í þeim sálfræðihernaði, sem var hluti af bardagaaðferð hans.
Í þriðju og síðustu viðureign Alis og Nortons voru áhorfendur á bandi Alis en púuðu á hann eftir bardagann, þegar honum var dæmdur naumur sigur á vafasömum forsendum.
En púið skipti Ali engu, bardaganum var lokið og Norton upplifði svipað og flestir aðrir mótherjar Alis, að jafnvel "heimavöllur" þeirra varð að heimavelli Alis.
George Foreman var mun dekkri á hörund en Ali, en samt tókst Ali að snúa dæminu við í hugum tugþúsundanna, sem voru viðstaddir "The rumble in the jungle" þannig að Ali væri fulltrúi svartra gegn fulltrúa hinna hvítu.
Ali fékk salinn allan í hléunum milli lota að hrópa einum rómi með sér: "Ali, bomaye!", "Ali, dreptu hann!"
Mörg dæmi eru um það að hugrakkur og djarfur íþróttamaður, sem átti mjög undir högg að sækja, og hafði áhorfendur á móti sér, sneri áhorfendum smám saman og fékk þá til að standa með sér.
Aldrei hefur jafn fámenn þjóð tekið þátt í úrslitakeppni EM, og það gæti alveg verið möguleiki á einhverju slíku fyrir íslenska liðið, ef það leikur og berst af lífi og sál með hjartanu.
Óvænt tromp Ronaldos og félaga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.