15.6.2016 | 09:17
Mjög sérstakt mál.
Það hlýtur að teljast mjög sérstakt mál að menn séu handteknir og yfirheyrðir vegna "morðmáls" fyrir 42 árum.
Ég set gæsalappir utan um orðið "morðmál", því að það eina tæknilega, sem er í hendi, er hvarf Guðmundar Einarssonar 29. janúar 1974.
Í því máli, eins og máli Geirfinns Einarssonar, skorti bæði lík, morðvopn eða önnur hlutgerð sönnunargögn, gagnstætt því sem var varðandi það þegar Gunnar Tryggvason leigubílstjóri var skotinn sex árum fyrr og fyrir lá lík, stolið morðvopn í höndum grunaðs manns og hugsanleg ástæða.
En hinn grunaði var sýknaður vegna þess að hann neitaði staðfastlega sök.
Mál Guðmundar Einarssonar verður enn sérkennilega vegna þess að hvarf Geirfinns Einarssonar tæpum tíu mánuðum seinna var spyrt saman við það og meintir morðingjar beggja dæmdir til hörðustu mögulegu refsinga.
Ekki er að sjá af fréttum að sams konar rannsókn með tilheyrandi handtökum og yfirheyrslum eigi sér stað varðandi Geirfinnsmálið, en það er ekki óhugsandi að stutt verði í að eitthvað nýtt komi fram varðandi það mál.
Handteknir vegna Guðmundar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sammála þessu Ómar, var enda búin að skrifa um þetta á fb. löngu áður en ég sá þessa færslu þína.
Án þess að vitað sé enn í dag hver drap hvern, hvenær eða hvernig, eða bara yfirleitt, var alltaf afar sérstakt hvernig þessi tvö mannshvörf -með tíu mánaða millibili, þó að gerðust á sama árinu- voru spyrt saman.
Það var nákvæmlega ekkert sem tengdi þessa tvo menn saman, eða gaf sama fólkinu ástæðu fyrir að verða þeim báðum að aldurtila. Svo vitnað sé í miður smekkleg orð Ragnars H. Hall frá þessum tíma, þá voru þetta "engir kórdrengir" sem þarna voru negldir fyrir tvöfalt morð. Hvort það gaf ákæruvaldinu átyllu fyrir að dæma þá -og þau- fyrir það sem gert var, er svo önnur og heldur ljótari saga.
Þetta mál hefur hvílt eins og mara á öllum sem muna það, og mun gera á íslensku réttarkerfi um ókomna tíð, þannig að það er stórfrétt ef eitthvað er að koma upp varðandi amk. annað mannshvarfið. Annað telst það varla fyrr en um afdrif hins horfna er vitað, þrátt fyrir vafasamar játningar fólks sem var búið að sitja í einangrum mánuðum saman.
Þó að eitthvað sé hugsanlegan að koma upp í tengslum við Guðmundarmálið, þarf það varla að þýða að Geirfinnsmálið fylgi í kjölfarið, eða hvað ? Vonandi reynist grunur þinn þó réttur varðandi það... Mál er að linni.
Hildur Helga Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 16.6.2016 kl. 02:24
Vildi bara bæta hér við að mál er einnig að linni fyrir fjölskyldur þessara horfnu manna, sem sjaldan er fjallað um, bera harm sinn í hljóði, en ættu þó svo sannarlega skilið að fá einhver málalok. Eftir öll þessi ár.
Hildur Helga Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 16.6.2016 kl. 02:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.