20.6.2016 | 00:53
"Hafragrautur góður er..." Upp með skyrhræringinn!
Í mínu ungdæmi voru hafragrautur og skyrhræringur, sem var blanda af hafragraut og skyri, daglega á borðum.
Hafragrauturinn þokaði áratugum saman fyrir morgunkorni en er nú að fá uppreisn æru, og er daglega á mínum borðum.
Nú er sagt að hann vinni gegn hættunni á því að fá krabbamein.
Því miður eru mörg ár síðan ég bragðaði skyrhræring, en á því þarf að verða bragarbót.
Þegar ég var í Kaldárseli var þetta sungið, daglegum hafragraut til dýrðar:
Hafragrautur góður er.
Gæða sér á honum ber.
Sá, sem hafra- góflar - graut
gildur verður eins og naut.
Æ, þar fór í verra í síðustu ljóðlínunni, því að hún segir grimman sannleika. Í 100 grömmum af haframjöli eru 374 hitaeiningar, næstum eins og í súkkulaði, og tíu sinnum fleiri en í 100 grömmum af Kóladrykk.
Af 100 grömmum af haframjöli eru 8 grömm af fitu og 24 grömm af kolvetnum, mun meira en í mjólk.
Offita er sögð verða mesta heilbrigðisvandamál þessarar aldar, svo að síðasta ljóðlínan hefur orðið að áhrínsorðum, nema menn passi sig vel og vinni upp mikla orku og fitu í morgungrautnum með því að minnka hana í mataræðinu síðar á deginum.
Hafragrautur hindrar krabbamein | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hafragrautur góður er
gæða sér á honum ber
hafragrautur gefur kraft
góður bæði með mjólk og saft
Hafragraut á brattri braut
borða menn í strit‘ og þraut
þeir sem hafra gófla graut
gildir verða eins og naut.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 20.6.2016 kl. 01:07
Í minni sveit voru ekki til feitir menn, enda voru þeir allir í erfiðisvinnu. Hins vegar dóu þeir allir úr krabbameini:
Morgunmatur: Kleinur, kaffi og hræringur.
Morgunkaffi: Kleinur og kaffi.
Hádegismatur: Kleinur, kaffi og sviðakjammi.
Síðdegiskaffi: Kleinur og kaffi.
Kvöldmatur: Kleinur, kaffi, siginn fiskur og súr hrútspungur.
Kvöldkaffi: Kleinur og kaffi.
Þorsteinn Briem, 20.6.2016 kl. 04:50
Þó þau séu orðin all-nokkur árin síðan ég smakkaði skyrhræring síðast eru þau alls ekki nógu mörg....
ls (IP-tala skráð) 20.6.2016 kl. 09:03
Hafragrautur er eitt það besta sem ég borða. Herramannsmatur. Annað má segja um skyrið ..mér líkar það ekki þar af leiðandi get ég ekki borðað hræring :)
Ragna Birgisdóttir, 20.6.2016 kl. 11:16
Hvað eru mörg grömm af haframjöli í 100g af hafragraut?
Bjarki Hilmarsson (IP-tala skráð) 20.6.2016 kl. 15:41
Það hlýtur að fara eftir því hve mikið vatn er notað og hve mikið af því gufar upp við suðu. Ég sýð ekki hafragrautinn minn heldur borða annað hvort mjölið með undanrennu eða helli heitu vatni yfir mjölið svo að það verður að þykkildi.
Ómar Ragnarsson, 20.6.2016 kl. 20:02
Skyrhræringur var einn af mínu uppáhaldi þegar eg var smástrákur, en ég hef fengið krabbamein tvisvar og það eina sem læknaði það var hnífur og ultra sound bylgjur.
Kveðja frá Houston
Jóhann Kristinsson, 21.6.2016 kl. 04:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.