22.6.2016 | 15:54
Því betur vopnum búinn hver maður, því betra?
Á úrslitum byssumála í bandaríska þinginum má sjá það ofurvald, sem samtök byssueigenda, byssuframleiðendur og byssutrúarmenn hafa yfir þingmönnum, enda nýta þeir sér það, að enginn þingmaður vestra kemst hjá því að eyða meirihluta vinnutíma síns í að ná sér í fjárhagsstuðning hagsmunaafla til að geta haldist á þingi.
Á sínum tíma tóku hvítir menn landið af indíánunum í krafti yfirburða í vopnaeign og það er því ekkert skrýtið þótt trúin á mátt vopnanna eigi sér langa hefð vestra.
Í gangi er eins konar vítahringur, sem hefur leitt af sér miklu fleiri byssumorð en í sambærilegum löndum eins og Kanada og Ástralíu, sem líka eru landnemaþjóðir.
Eina ráðið sem ríkjandi öfl sjá, er að mæta þessu morðæði með því að hver maður vígbúist sem best til að efla "sjálfsvörn" sína.
Sem leiðir það af sér að það þykir eðlilegt að bandarískur borgari geti keypt hríðskotabyssu af öflugustu gerð líkt og notaðar eru í stríði.
Sem aftur þýðir það að fjöldamorð verða æ algengari og stærri og að varnarviðbúnaður hvers borgara þarf að vera æ öflugri.
Og Sara Phalin, fyrrum varaforsetaframbjóðandi, dregur þá ályktun af morðinu á bresku þingkonunni um daginn að segja, að hún hafi átt það skilið ("she deserved it") að vera drepin, af því að hún hafi ekki verið hlynnt almennri byssueign.
Vegna byssuástar svo margra vestra og allra glæpamyndanna fá margir þá bjöguðu mynd af Bandaríkjunum sem birtist í átökum glæpagengja í undirheimum stórborganna.
Það er alröng mynd, því að um allt landið eru stór samfélög með löghlýðnum, friðsömum, öguðum og kurteisum borgurum, sem rækja vel siðræna menntun í skólum sínum og stofnunum.
Fyrir nokkrum árum sögðu íslensk hjón, sem höfðu átt heima um hríð vestra, að þau væru komin á fremsta hlunn með það að flytja aftur til Bandaríkjanna, vegna þess hve miklu meiri agi, regla og kurteisi ríkti en í skólanum hér heima.
Hélt að barnið væri að grínast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Bara til að leiðrétta Ómar. Þessi ummæli Palin eru tekin af grínsíðunni Polticops. Ég leitaði smá og fann ekkert sem birtist fyrr. Bara tilvísanir í Polticops. Ekki þar fyrir að hún hefði svo sannarlega getað sett þetta út úr sér og þú mátt velja úr hvorum enda. :-)
Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 22.6.2016 kl. 20:09
Athyglisvert myndband sem Ástþór birtir af Davíð að gera grín að því að hann hafi sett okkur á lista viljugra þjóða. Öll gerum við mistök. Það hefði verið svo auðvelt fyrir hann að segja: Þetta voru mistök. Ég byggði mína ákvörðun á röngum forsendum. Það var logið að okkur. Eina leiðin til að tryggja að mistök eins og þessi endurtaki sig ekki er að við segjum okkur úr Nató. Í staðinn fyrir að segja þetta fer hann að grínast. Þá skilur maður loksins að grín Sigurðar Inga í Washington (þar sem hann sagði að við þyrftum bara að læra að beina eldgosunum í réttar áttir) er ekki hægt að skrifa á reynsluleysi, taugaveiklun og taktleysi. Þeim finnst þetta einfaldlega fyndið.
https://www.youtube.com/watch?v=6JN70uCe5fk
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 23.6.2016 kl. 08:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.