26.6.2016 | 20:41
Enginn verður samur ferð yfir Grænlandsjökul.
Það skiptir ekki máli hvort gengið er yfir Grænlandsjökul eða farið á farartækjum hvað það snertir að jökullinn sjálfur hefur þau áhrif, að enginn verður samur eftir slíka ferð.
Víst er Vatnajökull einstakur og býður upp á staði eins og Grímsvötn og Kverkfjöll, sem hvergi finnast annar staðar á jarðríki.
En stærð, hæð og mikilleiki Grænlandsjökuls er í slíkum mæli, að í samanburðinum verða íslenskir jöklar líkari sköflum. Grænlandsjökull er einfaldlega 200 sinnum stærri og meira en þúsund metrum hærri og risinn meðal íslenskra jökla.
Ég átti þess kost að fara í einu jeppaferðina, sem farin hefur verið yfir jökulinn, og enda þótt aðstæðurnar hafi verið gerólíkar því sem þær eru þegar gengið er eða farið á hundasleðum, þurfti samt að sofa í tjaldi í svefnpoka sem gæti staðist 30 stiga frost og ég á enn.
Leiðin lá frá Ísortoq í nágrenni Kulusuk yfir til Kangerlussuaq eða Syðri-Straumfjarðar á vesturströndinni og farið var upp í um 3000 metra hæð.
Síðustu 100-200 kílómetrarnir voru og eru erfiðastir og hrikalegastir, svakalegur skriðjökull með ótal sprungum og hættulegum hindrunum, krapa og grófu íslandslagi.
Þar fyrir vestan er komið niður í einstaklega fallegan dal með rennandi jökulsá í fossaflúðum og hreindýraslóðum.
Í nágrenni alþjóðaflugvallarins í Kangerlussuaq eru sandöldur, og allt í einu uppi á einni þeirra birtist flugvöllurinn í landslagi sem líkist frekar eyðimerkurlandslagi Arabalanda en þessum mikla heimskautslandi.
Í júlí er þar 16 stiga meðalhiti á daginn, hærri en nokkurs staðar annars staðar norðan heimskautsbaugs, á sama tíma og á austurströndinni, hinum megin við jökulinn, þar sem hitinn í júlí rétt skríður yfir 4 stig.
Eitt af mörgum atriðum sem sýnir öfgar og hrikalegar andstæður þessa mikla lands, sem liggur aðeins 285 kílómetra frá Vestfjörðum.
Ég lýsti fyrirbærum þessum lítillega í bókinni "Ljósið yfir landinu" og nú loks hillir undir það að geta farið í það verkefni að setja saman sjónvarpsmynd um þennan leiðangur, þótt seint sé.
Í tíunda sinn yfir Grænlandsjökul | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.