3.7.2016 | 11:13
Ágætt ef þeir gleyma okkur.
Eitt af þeim atriðum, sem oft vegur þungt þegar annar aðili viðureignar er fyrirfram talinn lakari en hinn og er þar að auki lítt þekktur, er það, að þá þekkja hugsanlegir andstæðingar hans hann oft ekki nógu vel.
Hins vegar eru þeir bestu oft afar vel þekktir og því auðveldara en ella að finna´út veikleika þeirra og styrkleika og nýta sér þá þekkingu og æfingu í því að fást við þá.
Í leiknum við Englendinga þekktu ekki aðeins þjálfararnir enska liðið og leikmennina út í hörgul, heldur einnig íslensku landsliðsmennirnir, sem hafa horft á ensku knattspyrnuna frá blautu barnsbeini.
Dæmi um svona fyrirbæri eru mýmörg í sögunni.
Á blómatíma Jack Dempsey sem ósigrandi heimsmeistara í hnefaleikum, voru kvikmyndir komnar til sögunnar, en voru aðeins teknar af þeim allra bestu.
Ungur hnefaleikari, Gene Tunney, ákvað að sökkva sér niður í rannsóknir á Dempsey árum saman í því augnamiði að fá tækifæri til að berjast við hann og sigra hann.
Dempsey vissi hins vegar lítið um Tunney, og þegar á hólminn kom, vann Tunney hann á næsta öruggan hátt, ekki aðeins einu sinni, heldur tvisvar í einstæðum bardögum, þar sem um hátt í hundrað þúsund manns voru viðstaddir á útileikvangi og í fyrsta skipti í sögunni var innheimtur meira en milljón dollara samanlagður aðgangseyrir, sem myndi samsvara um tíu milljörðum íslenskra króna nú.
Það er því hið besta mál ef landsliðsþjálfarar stórþjóðanna gleyma því að taka islenska landsliðið með í reikninginn í undirbúningi sínum.
Löw gleymdi Íslendingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.