4.7.2016 | 19:32
Forsmáða loforðið frá 2007. Lónið sem á ekki að vera til.
Neðst á þessari bloggfærslu er mynd af affallslóni, sem á ekki að vera til af marka mátti yfirlýsingar á almennum fundi í Mývatnssveit fyrir nokkrum árum.
Í kosningabaráttunni vorið 2007 leist Framsóknarmönnum ekki á blikuna varðandi gengi sitt, þrátt fyrir slagorðið "Árangur áfram! - Ekkert stopp!" sem þýddi i raun áframhaldandi ofuráhersla á áfamhaldandi stanslausar stóriðju- og virkjanaframkvæmdir.
Skoðanakannanir sýndu að stóriðjustjórnin gæti fallið og eina ráðið við því var að lofa einhverju nógu stórkostlegu í náttúruverndarmálum.
Jón Sigurðsson, formaður flokksins og iðnaðarráðherra, og Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra, boðuðu því til blaðamannafundar, þar sem kynnt var metnaðarfull áætlun þeirra um sérstaka vernd verðmætustu náttúrufyrirbæri landsins.
Sem dæmi frá Norðausturhálendinu má nefna Öskju, Kverkfjöll og svæði, sem þau kölluðu réttilega Leirhnjúk-Gjástykki.
Þetta svæði samsvarar nokkurn veginn hamfaravettvangi Kröfluelda 1975-1984 og Mývatnselda 1724-1725.
Og skilgreiningin fellur að þremur aðalatriðum í náttúru- og umhverfisvernd: Afturkræfni, landslagsheildir og vistkerfi.
Alvaran á bak við þetta var samt ekki meiri en svo, að tveimur dögum fyrir kosningar, þegar öruggt var að það myndi ekki fréttast fyrr en eftir kosningar, gaf iðnaðarráðherra Landsvirkjun leyfi til þess að fara með bora sína inn í Gjástykki til þess að bora eftir heitu vatni.
Að vísu kallað tilraunaboranir en borar og búnaður þeirra og rask leyft á nýrunnu hrauni.
Sem betur fór urðu stjórnarskipti og útundir vegg við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs í Skaftafelli náði ég að sannfæra nýjan iðnaðrráðherra, Össur Skarphéðinsson, um hvað væri í húfi á Leirhnjúks- Gjástykkissvæðinu, og hann tók heimildina til baka.
En siðan þá hefur verið í gangi stanslaus ásókn í að umturna þessu svæði með virkjanaframkvæmdum eins og fyrirhuguð lagning háspennulínu um Leirhnjúkshraun ber vott um.
Nefnd um skipulag miðhálendisins samþykkti einróma að Gjástykki yrði iðnaðarsvæði (virkjanasvæði) og mat á umhverfisáhrifum stækkaðrar Kröfluvirkjunar og Kröfluvirkjunar II er eitthvert hræðilegasta blekkingaplagg varðandi virkjanir, sem ég hef skoðað.
Enn hefur ekki verið hætt við að reisa 90 megavatta jarðvarmaraforkuver í Bjarnarflagi og þrátt fyrir margendurteknar fullyrðingar um að niðurdæling affallsvatns gangi vel, rennur enn lækur tíu kílómetra í suður frá Kröfluvirkjun og myndar lón, sem fer stækkandi, því að enda þótt óþétt hraun sé þarna undir, rennur vatnið ekki nægilega hratt niður í jarðlögin.
Á þessari loftmynd sjást gufustrókarnir í Kröflu efst á myndinni.
Stöðva lagningu Kröflulínu 4 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.