"Góða kvöldið", - á kannski að vera eitthvað fínt.

Myndi menn ekki sperra eyrun ef einhver Íslendinur heilsaði útendingum á ensku að kvöldlagi með því að segja: "The good evening."

Auðvitað heilsar enginn neinum með svona orðalagi á tungum nágrannaþjóðanna.

Menn segja til dæmis ekki den gode aften. 

Í öðrum tungumálum er ekki notaður greinir í þessari kveðju. 

En af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hafa margir tekið upp þann sið að bjóða ekki gott kvöld á íslensku heldur "góða kvöldið."

Það er eins og það þyki eitthvað fínna nota greini. Að minnsta kosti finnst mér þetta tilgerðarlegt.

Og eins og sjá má á tengdri frétt er kveðja Pogba knattspyrnumanns þýdd á íslensku með því að nota orðin "góða kvöldið" sem er auðvitað röng þýðing. 

En svo mikið virðist liggja við að ryðja þessa fína orðalagi braut að leiðindaorðalaginu "góða kvöldið" er troðið inn í þýðingar þar sem á frummálinu er einfaldlega boðið gott kvöld. 

 

 

 


mbl.is Pogba þakkar fyrir víkingafagnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 identicon

Eiginlega sammála, en hvað með "góðan daginn", sem er málvenja?

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.7.2016 kl. 15:07

3 identicon

"Góða helgi", hef ekki getað vanið mig við það, finnst það vera tilgerðarlegt. Er samt vanur; "nice weekend" og "schönes Wochenende."

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.7.2016 kl. 15:17

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í minni sveit er "Góðan dag!" formlegast, því næst "Góðan daginn!" og "Daginn!"

Og í sömu röð er "Gott kvöld!", "Góða kvöldið!" og "Kvöldið!"

Við leit á Netinu kemur "Góða kvöldið!" fyrir um fjörutíu þúsund sinnum en "Gott kvöld!" í um 97 þúsund skipti.

"Góðan daginn!" kemur fyrir 312 þúsund sinnum en "Góðan dag!" í 316 þúsund tilfellum.

Þorsteinn Briem, 8.7.2016 kl. 15:18

5 identicon

Er ekki best að leyfa Íslendingum að hafa sínar málvenjur í friði?

Algjör óþarfi að sveigja málið að einhverjum alþjóðastaðli.

Kveðja.

Sigurður.

Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 8.7.2016 kl. 15:29

6 identicon

Já, hver er munurinn á því að segja „góðan daginn“ og „góða kvöldið“?

Hvers vegna er annað tækt en hitt ótækt?

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 8.7.2016 kl. 19:16

7 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Málvenjan er: "Góðan daginn", "Gott kvöld". Hvers vegna? Eins og gjarna er engin sérstök lógík í þessu, það er bara málvenja. Svarið við spurningu Þorvaldar er því: Af því bara. Svo geta málvenjur auðvitað breyst. Það er einkenni lifandi tungumála.

Þorsteinn Siglaugsson, 8.7.2016 kl. 21:59

8 identicon

Málið er nefnilega að frá því Ómar lærði að tala hafa málvenjur breyst. Hins vegar eru flestir þeir sem eru fastheldnir á málfar þeirrar skoðunar að allt sem tíðkaðist í þeirra ungdæmi sé rétt en breytingar síðan séu af illum rótum. Samt þróast málið stöðugt og mun gera. Svo geta menn deilt um það hvort því hrakar eða ekki en það verður eingöngu smekksatriði. Einhvern tímann hættu menn að segja maþr og fóru að segja maður, hættu að segja fiðr og fóru að segja finnur, hættu að gera greinarmun á i og y. Allt hefur þetta vakið úlfúð á sínum tíma en þykir nú sjálfsagt. Mál sem ekki breytist er dautt mál eins og latína. Eða eins og kellingin sagði: De gustibus non disputandum est.

Því er það að gott kvöld og góða kvöldið eru jafnrétthá hvort sem einhverjum þykir kæst skata betri en blóðug nautasteik.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 9.7.2016 kl. 14:46

9 identicon

Þegar ég hef verið að kenna útlendingum íslenzku, sem ég geri jafnan, þá hef ég útskýrt þetta þannig að upprunalega hafi kveðjan hljóðað: "Má bjóða þér/yður góðan daginn/góða kvöldið?", en síðan hafi fyrri hluti setningarinnar fallið burt vegna málleti, en þolfallið haldizt. Alveg eins og "Vertu blessaður" varð að "Bless" Annað dæmi er orðið "stundum" sem hefur frosið fast í þágufalli af því að forsetningin "á" féll burt af óskiljanlegum ástæðum.

Þess má geta, sem Ómar nefndi ekki, að á þýzku segja menn "Guten Tag/Abend" í þolfalli án sýnilegrar ástæðu, samt ekki með óákveðnum greini sem yrði "Einen guten Tag/Abend", en það á kannski eftir að koma þegar þýzka verður eins háþróað tungumál og íslenzkan, sem sennilega verður aldrei. Það fer líklega hina leiðina eins og afgangurinn af germönsku málunum (ásamt þeim rómönsku) hafa gert síðastliðin 1000 árin (ætli ég megi hafa ákveðinn greini þarna?), sem týndu niður helmingnum af málfræðinni eða meira.

Pétur D. (IP-tala skráð) 10.7.2016 kl. 00:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband