Óvæntar vikur nálægt Holuhrauni. Ógleymanlegasta sýnin.

Ég minnist þess, að í heimildarmynd um Skaftáreldana, sem sýnd var í Sjónvarpinu 1983 í tilefni af 200 ára afmæli þeirra, voru vangaveltur um það hvort eitthvert samhengi hefði verið á milli eldgoss út af Reykjanesi um vorið og umbrotum í Grímsvötnum síðar í þessu umbrotaferli. 

Nú eru frekari líkur leiddar af hinu síðarnefnda, tengslum Grímsvatna og Lakagíga. 

Gosið í Holuhrauni var 24. eldgosið sem ég hef séð og verið í námunda við. Strax í Surtseyjargosinu flaug ég í kringum það og flaug á lítilli Piper Super Cub vél út í eyna með varning fyrir vísindamenn. 

Cubnum var lent á stuttri sendinni braut á norðvestuhorni Surtseyjar. 

Næst kom Heklugosið 1970 með sínum myndatökuferðum, en Heimaeyjargosið var lang dramatískast og með mest návígi. 

Þeir sem flugu út í eýjuna um nóttina fóru í blindflugi og komu niður úr skýjaþykkninu skammt frá flugvellinum

Ég var hins vegar á einu flugvélinni sem flogið var undir skýjum í sjónflugi alla leið og kom því frekar lágt yfir Þrídranga í átt að Heimaey. 

Þá blasti við mér sjón, sem ég gat ekki fest á mynd, en væri gaman að tölvugera, því að þetta er ógleymanlegasta sýnin á ferli mínum og enginn annar sá hana nema ég: Ég kom úr vestri yfir endann á röð báta, sem sigldu með flóttafólkið, sem sumt stóð á þilförum þeirra, óslitin röð ljósanna á bátunum, en í baksýn var Eyjan með ljós í gluggum yfirgefinna húsanna og að baki þeim samfelldur eldveggur úr gígaröð, sem náði alveg suður undir austurenda austur-vesturbrautarinnar á flugvellinum. 

Kröflueldarnir, 14 umbrotahrinur og 9 gos, voru viðfangsefni 1975-84. 

En Holuhraunsgosið var að því leyti til óvenjulegast, að vegna þess að ég gat haft viðveru á Sauðárflugvelli meira og minna í þrjár vikur í aðeins tíu mínútna flugfjarlægð frá gosinu, varð það nánara og samfelldara návígi en í nokkru öðru gosi á unan því. 

Ekki þurfti annað en að fara nokkur hundruð metra leið til að sjá bjarmann frá gosinu, og það tók ekki nema tveggja mínútna klifur eftir flugtak að sjá eldana sjálfa. 

Þetta var óvænt, - og þó, - ein af forsendunum fyrir því að fá flugvöllinn viðurkenndan og nothæfan fyrir alla var raunar sú, að hann væri á afar heppilegum stað, ef það gysi á hinu mjög svo eldvirka svæði fyrir vestan hann. 


mbl.is Draga upp nýja mynd af öskjusigi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband