Nú er svo komið að dreifingaraðili, nokkurs konar hugverkamafíósi, hvetur fólk feimnislaust til "að dreifa inn öllu íslensku efni sem þið mögulega getið."
"Efnið" er fólgið í verðmætum, sem listamenn hafa framleitt með ærnum kostnaði, með vinnu við að semja tal og tónlist, útsetja það og taka flutninginn á því upp á mynd og hljóðspor, kaupa til þess stúdíótíma og upptökufólk, hanna og láta framleiða umbúðir með myndum, sem ljósmyndarar hafa eytt fjármuna og tíma í að taka, oftast með ferðakostnaði og kaupum á myndavélum og tölvum.
"Efnið" er neysluvara, menningarneysluvara, verðmæti í krónum talið, rétt eins og búvörur eru neysluvara og verðmæti í verslunum.
Þetta er viðurkennt í löggjöf um höfundarrétt og kostaði Jón Leifs og fleiri menn mikla baráttu fyrir 60 árum að fá viðurkennt hér á landi.
En á örfáum árum hefur það viðgengist að sé um hugverk að ræða sé ekki aðeins farið um þau ræningjahöndum, heldur beinlínis hvatt til þess opinberlega. Og komist upp með það.
Að "deila inn" þýðir að sá sem hefur efnið undir höndum, er hvattur til þess að láta siðblindan dreifingaraðila hafa það svo að hann geti gert sem flestum höfundarréttarþjófum kleyft að hjálpa sér við að margfalda illa fengin verðmæti.
Þetta er ígildi búðaþjófnaðar þar sem mafíósinn gengst upp í því að hafa sem flesta þjófa á sínum snærum í menningarlegu þjófagengi.
Og til að kóróna þetta athæfi er það einkum íslenskt efni, sem er skotmark, eins og vitnað er í hér áðan, og herhvötin í lokin er beinskeytt, - orðrétt: "...allt sem þið finnið, endilega setjið það inn á síðuna. Sýnið að við erum öll Pirates Yarr!!"
Eftir sitja listamenn með milljóna króna tap af því að hafa verið svo barnalegir að halda, að þeir gætu framleitt kvikmyndir og hljómdiska til þess að þjóna menningu og eftirspurn landsmanna og haft til þess fjárhagslegt bolmagn að sinna köllun sinni, en síðan setið uppi með óselda vöru, af því að í gangi er herferð til "kæru notenda", sem eru beðnir um þetta: "...að deila inn öllu íslensku efni sem þið getið."
Hvattir til að deila íslensku efni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þjófar að stela frá þjófum. Skemmist diskur fæ ég ekki annan á kostnaðarverði, ég þarf að greiða höfundarréttargjaldið aftur þó augljóst sé að ég sé búinn að greiða það. Kaupi ég safndisk þá fæ ég ekki að sleppa við að greiða höfundarréttargjald af þeim lögum sem ég sannanlega hef þegar greitt höfundarréttargjald. Og höfundarréttargjald er tekið af útvarpsstöðvum sem lækkar ekkert þó flestir hlustendur hafi keypt diskinn og greitt höfundarréttargjaldið. Ítrekuð innheimta höfundarréttargjalds af fólki sem búið er að borga höfundarréttargjaldið er þjófnaður.
Hábeinn (IP-tala skráð) 26.7.2016 kl. 13:29
Af óáteknum diskum og böndum er greitt höfundarréttargjald. Þegar ég vil varðveita hjal barna minna og fjölskyldumyndir þá greiði ég höfundarréttargjald. Ég þarf að borga Ómari Ragnarssyni fyrir að fá að setja myndir úr afmæli dóttur minnar á disk. Í staðinn er mér heimilt að setja á diskinn allt efni sem Ómar Ragnarsson hefur samið, því ég er búinn að greiða höfundarréttargjald.
Ómar Ragnarsson og aðrir höfundarrétthafar voru hræddir við það að einhverjir stælu hugverkum þeirra eða keyptu bara einu sinni og fengu þessa gjaldtöku því í gegn. Því má segja að höfundarrétthafar hafi selt frá sér réttinn til að stöðva hugverkaþjófnað, þeir fá þegar greitt fyrir hugsanlegan hugverkaþjófnað.
Hábeinn (IP-tala skráð) 26.7.2016 kl. 14:52
Já, Hábeinn er búinn að greiða heilar fimmtiu krónur í höfundarréttargjald af hverjum þeim geisladiski sem tekur meira en 2 gígabæt af efni. Hversu mikið af því efni sem Ómar Ragnarsson hefur samið kæmist fyrir á slíkum diski? Ætli Ómar Ragnarsson verði feitari en hann er af þessum feiknagreiðslum?
En það má hugga Hábein með því að hann gæti sloppið billegar: Noti hann diska sem eru undir 2 gb, til dæmis 1,9 gb, er gjaldið 17 krónur. Þá myndi Ómar ekki fitna nærri eins svakalega.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 27.7.2016 kl. 00:50
Verðinu ræð ég ekki. Ég greiði uppsett verð. Ég greiði höfundarréttargjaldið því verði sem stjórnvöld og höfundarrétthafar sömdu um. Það er ekki við mig að sakast telji höfundar sig ekki fá nóg.
Hábeinn (IP-tala skráð) 27.7.2016 kl. 02:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.