15.8.2016 | 11:29
Samgöngur skipta sköpum fyrir Íslendinga.
Það gefur auga leið að Ísland gat ekki orðið albyggt á undra skömmum tíma nema að siglingar væru örar til og frá landinu.
Forsenda þeirra var að hægt væri að smíða skip í landinu og hugsanlega að festa kaup á skipum í Noregi. Sjá má frásagnir af því að stórviður var keyptur í Noregi og fluttur til landsins.
Landnámsmennirnir kunnu sér hins vegar ekki hóf í að höggva kjarr og skóga landsins og þar að auki fór veðurfar kólnandi og eldgos gerðu usla.
Jarðvegurinn íslenski hvíldi á stórum hluta landsins á lausri eldfjallaösku, og þegar skógar og kjarr voru hoggin og bundu ekki lengur jarðveginn og moldina með rótakerfum sínum, byrjaði rof sem á endanum feyktu jarðvegnum af stórum svæðum á hinum eldvirka hluta landsins út í buskann.
Þetta var ólíkt því sem var í Noregi, þar sem moldin og jarðvegurinn hvíldu á klöpp.
Samskiptin við Noreg voru afar náin eins og sést á því að Þórður kakali fékk "brennivínsslag" í Skíðaborg (Skien) þegar hann var að fagna því að vera orðinn stjórnandi Skíðafylkis.
1262 var svo komið að sú lífæð, sem siglingarnar voru, var orðin svipur hjá sjón, og á Gamla sáttmála má sjá, að samningurinn við Noregskonung um að tryggja lágmarks siglingar til og frá landinu var líklega ein af aðalástæðum þess að sjálfstæðinu var fórnað.
Eftir þetta var það að mestu háð nýtingu erlendra þjóða á auðlindum Íslands og framleiðsluvörum landsmanna, auk verslunar við Íslendinga, hve mikil einangrunin gat orðið vegna fjarlægðarinnar frá öðrum löndum og takmarkaðs skipastóls í eigu landsmanna.
Þessi einangrun hélst í meginatriðum fram eftir 19. öld, eins og sést vel á því, að þegar Friðrik 7, konungur Dana og Íslendinga lést 15. nóvember 1863, fréttist það ekki til Íslands fyrr en með vorskipi frá Kauðmannahöfn mörgum mánuðum síðar.
Allan þann tíma var stjórnsýslan á Íslandi framkvæmd eins og konungurinn væri í fullu fjöri.
Nú er öldin önnur, en mikilvægt er að Íslandingar sjálfir eigi þau samgöngutæki og fjarskiptatæki, sem nota þarf í lofti og á sjó til að tryggja sem best samband við útlönd.
Fornleifafræðin á nýjum sjónarhóli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góður pistill, Ómar.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 15.8.2016 kl. 12:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.