4,03 á bíl. 2,6 jafnhratt á vespuhjóli, vannýttur möguleiki.

Sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu, sem haldin var fyrir helgi, leiddi ýmislegt í ljós eins og sjá má í fréttum á vefnum fib.is. DSCN8015

Almennt kom í ljós að uppgefnar eyðslutölur frá framleiðendum eru of lágar miðað við almenn not hér á landi. Virðist það gilda jafnt um bíla og vélhjól. 

Sjá má í bílabókum upplýsingar um bíla í stórum bunkum, þar sem uppgefnar eyðslutölur framleiðenda í blönduðum akstri eru milli 3 og 4 lítrar á hundraðið, en eru miklu hærri í raunverulegri notkun. 

Hjólið mitt, 125 cc vespuhjól, á samkvæmt upplýsingum framleiðandans að komast niður í 1,8 á hundraðið, en eyðir í raun 2,2-2,7 lítrum eftir aðstæðum. DSCN8018

Enginn þátttakendanna í sparaksturskeppninni komst niður fyrir fjóra lítra og er eyðsla bíla þó minni í þjóðvegaakstri en í blönduðum akstri. 

Sigurvegarinn, á Renault Clio með dísilvél, eyddi 4,03 lítrum á hverja hundrað kílómetra, en í keppninni var líkt eftir venjulegum ferðamáta og ekið á eðlilegum þjóðvegahraða, sem þýddi, að það tók þá 5 og hálfa klukkustund að fara á milli Reykjavíkur og Akureyrar að meðtöldu 30 mínútna stoppi á miðri leið. DSCN7958

Uppgefin eyðsla á Clio frá´framleiðanda er 3,3 til 3,5 lítrar, svo að 4,03 er út af fyrir sig hin fínasta útkoma á bíl, sem er næstum 1300 kíló á þyngd. 

Viku fyrr hafði þessi leið verið farin á vespuhjólinu Honda PCX á svipuðum hraða og tíma og bílarnir í sparaksturskeppninni, og var eyðslan 2,6 lítrar á hundraðið. Farinn var allur hringvegurinn í beinu framhaldi á svipuðum ökuhraða og var eyðslan á öllum hringnum, 1341 kílómetra vegalengd, að meðaltali 2,65 lítrar á hundraðið. 

Hjólið hefur reynst eyða minna í innabæjarakstri, 2,2 til 2,3 lítrum, vegna þess að það er með einum manni um borð fjórum sinnum léttara en bíll á borð við Renault Clio með einn mann um borð og þarf þess vegna fjórum sinnum minni orku til að fara af stað á umferðarljósum og aka upp brekkur.DSCN7873

Vélin í hjólinu er 125 cc að rúmtaki en 1461 cc í Clio. 

Verð hjólsins er átta sinnum lægra en bílsins. Allar þessar tölur sýna yfirburði hjólsins gagnvart bílunum, sem ódýrs og einfalds samgöngumáta, enda er allt morandi í svona hjólum erlendis. 

Auðvitað hefur bíllinn yfirburði hvað snertir rými og þægindi, en í innanbæjarumferð er hjólið miklu handhægara og meðfærilegra, - alltaf fljótara en bíllinn frá A til B vegna þess hvernig það smýgur áfram þar sem umferð er mikil og engin vandræði eru við að fá stæði.

Sá bensínknúinn bíll, sem sparneytnastur var í keppninni, var Toyota Prius tvinnbíll með 4,67 lítra á hundraðíð, en þar hjálpar rafmótor við að auka sparneytnina. 

Kia Niro, líka tvinnbíll, eyddi 5,2 á hundraðið, eða tvöfalt meira en hjólið "Léttir".  

Verðmunurinn á hjólinu og sparneytnustu bílum er fimmfaldur til tífaldur. 

Þegar meta á vistvænleika farartækja verður að huga að öllum ferlinum við gerð þeirra og förgun. Þar er oftast um að ræða efni og hluta frá mörgum löndum um víða veröld með tilheyrandi flutningum í skipum og flugvélum, sem menga og eyða, og við bætast flutningar bílanna frá verksmiðju til kaupenda. 

Því flóknara sem farartækið er og því flóknara og erfiðara sem er að farga því, því verra út frá umhverfislegu sjónarmiði. 

Því vekja há innflutningsgjöld á hjólin undrun á sama tíma sem afar flókin farartæki fá mikla afslætti. 

Þar sem ég á heima legg ég hjólinu þversum í sama stæði og bíll, sem ég á, er í. 

Það er kostur bíls, miðað við hjólið, að sæti í bíl eru fjögur til fimm, en á móti kemur að í meira en 90 prósent innanbæjaraksturs er aðeins einn um borð. 

Og reyndar er hjólið tveggja sæta ef út í það er farið. 

Þegar ég hjólaði frá Akureyri til Reykjavíkur í fyrrasumar á rafhjóli, gafst gott næði á hinni rólegu ferð til að sjá, hve margir væru um borð í bílunum, sem ég mætti. 

Í meira en 80 prósent tilfella var aðeins einn um borð og viðburður, ef það voru fleiri en tveir.

Í ferðum milli Reykjavíkur og Akureyrar í ágúst 2015 og ágúst 2026 voru eðal annars sett tvö met:

Minnsti orkukostnaðurinn milli þessara staða:    115 krónur á rafreiðhjólinu Sörla.

Minnsta eyðsla farartækja með jarðefnaeldsneyti: 2,6 lítrar/100 km, vespuhjólið "Léttir", Honda PCX ".  

 

Niðurstaða: Farartæki, sem gefa möguleika á miklum sparnaði og vistvænni samgöngum en tíðkast hafa, eru stórlega vannýtt hér á landi. 

Þar að auki eru léttu vélhjólin og rafhjólin, sem hafa yfirburði hvað snertir einfalda gerð,og sparneytni, ekki látin njóta þess í skattlagningu og innflutningsgjöldum.  

Vegna skorts á hraðhleðslustöðvum var ekki hægt að láta hreina rafbíla spreyta sig í fyrrnefndum sparakstri, og einnig útilokað að tengiltvinnbílar gætu látið (raf)ljós sitt skína.

Og hringvegurinn og mestallt þjóðvegakerfið er í raun lokað fyrir hreinum rafbílum.  

 

 

 


mbl.is Keppa í sparakstri til Akureyrar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott Ómar. Kemur mér ekki á óvart að Renault Clio sé sigurvegarinn. Hef leigt slíkan bíl hjá „Bílaleiga Húsavíkur“ og furðað mig á lítilli eyðslu. Keyrði t.d. á milli Húsavík og Akureyri, spýtti í upp Víkurskarðið og rúntaði allmikið innanbæjar á Akureyri. Eyðslan var 4.7 lítrar.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 30.8.2016 kl. 19:34

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

1461 cc vélin hjá Renault hefur síðustu árin glansað, og er til dæmis helsta skrautfjöðrin hjá Dacia, dótturfyrirtæki Renault, til dæmis í Dacia Duster jepplingnum. 

Ómar Ragnarsson, 30.8.2016 kl. 23:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband