5.9.2016 | 20:05
Sofið í runna við M.R.?
Þótt merkilegt þyki að ferðamaður skuli hafa ætlað að sofa á bekk fyrir utan Hafnarkirkju, er fátt nýtt undir sólinni.
Ýmsir magnaðir karakterar leyndust innan um menntaskólanema í M.R. þegar ég var í þeim skóla, og voru uppátæki þeirra oft skrautleg.
Nokkrir þeirra voru það sem kallað var séni, eða stórsnillingar, sem voru svo gáfaðir og skarpir, að þeir þurftu ekki að lesa eins og þeir dúxar, sem þurfa að vera lúsiðnir og liggja í skólabókunum lon og don til að ná árangri.
Sagt var að nokkur þessara gáfnaljósa sætu alla daga inni á sjoppunni Skalla handan við Lækjargötu til þess að sýna fram á að þeir þyrftu ekki að lesa, en sætu siðan heima um nætur með fæturna ofan í bölum, fullum af köldu vatni, til þess að halda sér vakandi við lestur, sem fór leynt.
Nokkrir utanskólanemendur tóku stúdentsprófinu 1960 og var eitt séníið þeirra á meðal, ef ég man rétt.
Stillt veður, eins og oft er í maí-júní, var prófdagana, og fékk sú saga flug, að séníið hefði sofið einhverjar nætur í runna skammt frá skólanum og risið þar að morgni úr þessari frumlegu útivistarrekkju til að fara í próf og brillera.
Aldrei varð ég vitni að þessum meintu uppátækjum séníanna, þótt ég heyrði þessar sögur.
Þótt um það gildi hið fornkveðna, að hvatki er missagt sé, skuli hafa það er sannara reynist, má líka hafa í huga ummæli Indriða G. Þorsteinssonar ritstjóra og skálds þess efnis að góð saga megi ekki líða fyrir sannleikann.
Ferðamaður ætlaði að sofa við bæjarkirkjuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Oft í runna Simmi svaf,
sótti marga skóla,
karabískt nú kyssir haf,
karlinn á Tortóla.
Þorsteinn Briem, 5.9.2016 kl. 22:50
Enda þótt Ólöf Nordal og Lilja Dögg Alfreðsdóttir séu ráðherrar eru þær ekki þingmenn.
Og Þorsteinn Pálsson gæti að sjálfsögðu orðið ráðherra, enda þótt hann fari ekki í framboð fyrir Viðreisn í alþingiskosningunum í næsta mánuði.
19.5.2015:
"Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að ef Píratar myndu verða í þeirri stöðu að hafa áhrif á ríkisstjórnarmyndun eða áherslur á næsta kjörtímabili, ... :"
"Aðskilnaður framkvæmdavalds og löggjafarvalds, þannig að ráðherrar megi ekki vera þingmenn á sama tíma og þeir eru ráðherrar."
Þorsteinn Briem, 17.9.2016 kl. 06:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.