11.9.2016 | 09:26
Stærsti galli prófkjöranna: Siðleysi og tortryggni.
Smalarnir spjalla og spjalla /
og spillingin heltekur alla: /
Við fáum kalla og kalla /
en konurnar falla og falla.
Ofangreind lýsing kann að þykja óvægin og glannaleg, en þetta er myndin sem blasir við mörgum eftir nótt hinna löngu hnífa.
Það er synd, því að frá upphafi hef ég til dæmis ekki efast um að Páll Magnússon fengi gott gengi í upphafi stjórnmálaferils síns. Hann hefur flesta þá hæfileika sem færir stjórnmálamönnum það sem kallað er kjörþokki og á skilið að fá að njóta þess.
En, eins og Steinn Steinarr sagði forðum: "það er vitlaust gefið."
Ef sú skipan kosninga, sem lögð er til í tillögum stjórnlagaráðs, væri komin á, myndu prófkjörin færast inn í kjörklefana, og jafnvel þótt einstakir flokkar beittu prófkjörum sem leið til að stilla upp á lista sína, myndi smölun og siðleysi, sem oft hefur fylgt henni, verða úr sögunni á úrslitastundinni þar sem kjósandinn er einn í kjörklefanum og lætur flokkinn, sem óskaframbjóðandi hans býður sig fram fyrir, njóta atkvæðisins.
Þá efast ég ekki um að Páll Magnússon fengi glæsilega kosningu hjá þeim sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn, en munurinn yrði sá, að sú tortryggni, sem nú nær nýjum hæðum vegna þess hvernig karlar leika kvenframbjóðendur grátt út um allar koppagrundir, skemmmir fyrir.
Það voru ungir og ófyrirleitnir frambjóðendur sem fyrst beittu þeirri aðferð að smala jafnvel heilu íþróttafélögunum inn í flokka sína og láta þessi aðskotadýr skrá sig út strax eftir prófkjör.
Með þessari aðferð voru góðir og gegnir menn eins og Ólafur Björnsson prófessor og Guðmundur Þórarinsson felldir út af þingi.
Þegar þessar aðferðir spurðust út, breiddist þetta siðleysi út, jafnt og þétt.
Á okkar tímum þykja þessi spillin orðin sjálfsögð, því að hver og einn réttlætir þetta með því að segja: Úr því að aðrir gera þetta neyðist ég til að gera þetta líka.
Þetta minnir mig á alræmdan rummungsþjóf fyrir sjötíu árum, sem sagði, þegar hann var staðinn að verki: "Það er betra að ég hirði þetta heldur en að hinir steli því."
Afleiðingin hefur sjaldan blasað eins vel við og nú: Karlarnir hrauna yfir konurnar og víðtæk tortryggni skyggir jafnvel á sigra, sem eru verðskuldaðir.
Páll Magnússon á leið á þing | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Eru ekki karlar konur og konur karlar? Erum við ekki öll jöfn? Hafa konur ekki verið að skila sér betur inn í framhaldsskóla og háskólanám? Eru ekki konur búnar að koma sér í áhrifastöður eftir nám sitt og standa sig vel og jafnvel með heimili og barnauppeldi á herðunum? Af hverju ættu þær ekki þá að geta haslað sér völl í pólitíkinni?Þær verða þá bara að tileinka sér kosningasmölun karlanna hvernig hún svo sem er ef að þær eiga að hljóta náð fyrir augum kjósenda.Þetta kynjakjaftæði er farið að ganga yfir allt.Konur vilja jafnrétti.Karlar vilja jafnrétti.Samfélag byggist á því.Kjósendur þessara flokka sem mættu þó á kjörstað stóðu með sínu fólki.Þeir kusu og það er lýðræði.
Ragna Birgisdóttir, 11.9.2016 kl. 11:27
Á annað hundrað innflytjendur og hælisleitendur eru sagðir, hafa verið skráð á svokallaðan stuðningsmannalista samfylkingarinnar vegna prókjara flokksins í Reykjavík,og allt er þetta fólk sem hefur ekki kosningarétt hér á landi til Alþingiskosninga, en samfylkingar fólk lætur þetta fólk, samt taka þátt í að velja alþingismenn Samfylkingrinnar fyrir næsta kjörtímabil, ef þetta er ekki dómgreindarskortur og siðleysi á mjög háu stigi, veit ég ekki hvað dómgreindarskortur er, og það væri óskandi að til væri einhver eftirlitsstofnun, sem tæki framfyrir hendurnar á þessum kjánum í samfylkingunni, og svo býður þetta sama fólk sig fram til að stýra þjóðarskútunni, vona bara að Guð lofi að svo verði ekki. Og það sér náttúlega flestaalir kjósendur að ekki er hægt að bjóða landanum upp á þetta.
Halldór Björn (IP-tala skráð) 11.9.2016 kl. 16:42
Rétt hjá þér Halldór Björn.
Hrólfur Þ Hraundal, 11.9.2016 kl. 17:44
Innflytjendur greiða skatta hér á Íslandi eins og aðrir en mega sem sagt ekki hafa áhrif á stjórn landsins.
Hversu margir innflytjendur eru á Alþingi, enda þótt fjölmargir þeirra séu orðnir íslenskir ríkisborgarar?!
Í Svíþjóð gat undirritaður kosið í sveitarstjórn, enda þótt ég hefði einungis búið þar í eitt ár og væri ekki sænskur ríkisborgari.
Í Samfylkingunni var flokksval nú um helgina og undirritaður tók þar ekki þátt, enda ekki í Samfylkingunni og í prófkjörum dugar enginn stuðningsmannalisti.
Þorsteinn Briem, 11.9.2016 kl. 19:54
Lýsingar á tortryggni eiga mun betur við um sum önnur prófkjör en þessi tvö hjá Sjálfstæðisflokknum.
En varðandi þau tvö og fall þriggja þingkvenna á listunum þar verður líka að skoða einstaklingana, hvernig þeir hafa komið fram og endurspeglað sjónarmið kjósenda sinna (að mati kjósendanna sjálfra). Persónulega er ég bara ofurlítið hissa á einu tilviki af þessum þremur. Í kraganum raða sér efst formaður flokksins, tveir þingmenn sem hafa verið áberandi og duglegir að koma sínum áherslum á framfæri og svo varaþingmaður sem hefur verið mjög duglegur að brýna þingmenn flokksins. Strax á eftir þeim koma svo tveir sveitarstjórnarmenn úr kjördæminu (konur) sem þykja greinilega hafa staðið sig vel þó að eðlilega sópist ekki að þeim fylgi úr öðrum sveitarfélugum strax.
ls (IP-tala skráð) 12.9.2016 kl. 08:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.