Bíll, sem hefur æpt á breytingu.

Það er áratugur síðan ég reyndi að sannfæra innflytjendur bíla um að flytja inn bíla af Dacia-gerð, til dæmis Dacia Duster. Dacia Duster

Stærstu rökin voru hve þessir bílar voru miklu ódýrari en aðrir og það, að þeir voru að ávinna sér kröfuharða markaði, svo sem í Frakklandi og Þýskalandi. 

Aðal fyrirstaða þeirra, sem ég ræddi þetta við, virtust vera fordómar gagnvart bílum með rúmenskt heimilisfang. 

"Við förum ekki að flytja aftur inn austur-evrópskt drasl" sögðu margir á sama tíma og "japanskir" bílar á borð við Suzuki Swift og Alto eru framleiddir í Ungverjalandi og Indlandi. 

Kramið í Dacia Duster er hreinræktuð Renault-framleiðsla, og dísilvélin í Renault Clio, sama vélin og er í Duster, reyndist sparneytnasta vélin í sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu um daginn og eyddi rúmum fjórum lítrum á hundraðið í keppninni, þar sem ekið var á raunsæislegum hraða milli Reykjavíkur og Akureyrar. 

Dacia Duster sker sig úr öðrum svonefndum jepplingum, að fyrsti gír er miklu lægri en í keppinautunum, með hlutfallið 4:45 í gírkassanum og rúmlega 21:1 alls. 

Vegna þess hve jepplingar sem ekki eru með millikassa, eru hátt gíraðir, er illmögulegt að stækka á þeim hjólin, vegna þess að þá verður lægsti gírinn óþægilega hár. 

Hæð undir Duster óbreyttan er ekkert til að hrópa húrra fyrir frekar en á öðrum jepplingum, um 18 sentimetrar með einn um borð og bíllinn sígur niður í 13 sm þegar hann er hlaðinn. 

En með breytingu Arctic Trucks hækkar bíllinn upp í um það bil 25 sentimetra veghæð og sígur niður í um 20 sm hlaðinn, sem er alveg nóg veghæð fyrir flesta hálendisslóðir. 

Breytingin býr til jeppling með jeppaeiginleika fyrir alls um 4,4 milljónir króna, sem er afar samkeppnisfært verð. 


mbl.is Arctic Trucks breytir Dacia Duster
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Hvernig er aflið í þessum bílum, fyrir og eftir breytingu?

Árni Árnason (IP-tala skráð) 14.9.2016 kl. 14:52

2 identicon

18 sentimetra veghæð segir þú, en í öllum gögnum um bílinn er hann sagður með 21 cm veghæð? Þessir jepplingar hafa umtalsvert meiri utanvegagetu en hefðbundnir jepplingar, hafa þennan mjög svo lága fyrsta gír einsog þú nefnir, en hafa einngig stórt aðkomuhorn eða yfir 30 gráður og 36 gráður í "departure angle (veit ekki hvernig best er að þýða þetta). Það er nóg að gera einfalda leit á Youtube til að sannfærasr um þetta.

Magnús Már Magnússon (IP-tala skráð) 14.9.2016 kl. 18:27

3 identicon

Renault framleiðir líka alveg frábærar bílvélar. Það sannar árangur þeirra í Le Mans 24 Hours og formúlu 1 í gamla daga.

Þorsteinn Styrmir Jónsson (IP-tala skráð) 14.9.2016 kl. 20:09

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

18 sentimetrarnir eru mín eigin mæling, með einn mann í bílstjórasæti. Enginn bíll ekur sér sjálfur mannlaus. 

Subaru Forester er uppgefinn með 22ja sentimetra veghæð og Subaru XV með 21, og margir þessara jepplinga með uppgefna um 20 sentimetra veghæð. 

Suzuki Grand Vitara með háu og lágu drifi með uppgefna 20 sm veghæð, en kominn niður í 15 sentimetra hlaðinn. 

Ómar Ragnarsson, 14.9.2016 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband