17.9.2016 | 00:42
"Go all the way, - then back off!"
Harley Earl vann hjá General Motors og var áhrifamesti útlitshönnuður bandarískra bíla á síðustu öld. Kjörorð hans eða leiðarstef, var setningin í fyrirsögn þessa bloggpistils um að fara alla leið í upphafi, en draga síðan í land.
Þetta virkaði vel áratugum saman, nema síðustu tvö ár Earl, árgerðirnar 1958 og 1959, þegar farið var of geyst og nær ekkert dregið í land.
Píratar hafa nú bara þrjá þingmenn og hafa enga reynslu af því hvernig eigi að vinna úr úrslitum kosninga við að mynda ríkisstjórn.
Þá vantar fólk, sem hefur reynslu af slíku.
Þeir virðast vera að átta sig á því, að til lítils er að stórauka fylgi sitt á þingi, ef þeir komast ekki í stjórn eftir kosningar.
Stjórnmál eru list hins mögulega og til þess þarf aðstöðu.
Það hefur stundum verið sagt, að það sé eitthvert ömurlegasta hlutskipti stjórnmálamanna að lenda í stjórnarandstöðu, því að til þess að hafa áhrif og koma málum sínum fram, verði að ná framkvæmdavaldinu í sínar hendur með aðild að ríkisstjórn.
Að klikka á því tækifæri sem gefst til þess að komast í stjórn eftir kosningar, getur komið framboðum í koll, og má sem dæmi nefna, að Kvennalistinn gat ekki, þrátt fyrir gott gengi og að mörgu leyti lykilaðstöðu í kosningunum 1987, komist í stjórn í tvennum stjórnarmyndunum.
Að koma óreyndir og óskipulagðir út úr kosningum er álíka og ef landslið hleypur inn á völlinn án þess að hafa neitt leikskipulag og engan leikmann, sem hefur leikið landsleik áður.
Það verður ekki mikill tími fyrir Pírata til að búa til stjórnarmyndunarleikskipulag á næstu vikum, og þá vantar reynt fólk í þeim efnum til þess að leiðbeina sér eða taka verkið eða hluta þess að sér.
En samt hlýtur að vera skárra fyrir þá að reyna hvað þeir geta í þessum efnum, sjá hvað þeir geta gengið langt og vera tilbúnir með það hve langt þeir þurfi að bakka ef þörf krefur.
Um það gildir slagorð kröfufyrirtækis eins í Reykjavík: Ekki gera ekki neitt.
Undirbúa hugsanlega stjórnarmyndun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Þeir virðast vera að átta sig á því, að til lítils er að stórauka fylgi sitt á þingi, ef þeir komast ekki í stjórn eftir kosningar."
Fylgi Pírata hefur einmitt stóraukist, enda þótt þeir hafi ekki verið í ríkisstjórn eftir síðustu alþingiskosningar, sem voru árið 2013.
Stofnfundur Pírata var í nóvember 2012 og flokkurinn fékk þrjá alþingismenn vorið 2013.
Fylgi Framsóknarflokksins hefur hins vegar hrunið, enda þótt flokkurinn hafi unnið stórsigur í síðustu alþingiskosningum og þá myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Alþingiskosningarnar vorið 2013
Þorsteinn Briem, 17.9.2016 kl. 04:39
"Píratar hafa nú bara þrjá þingmenn og hafa enga reynslu af því hvernig eigi að vinna úr úrslitum kosninga við að mynda ríkisstjórn."
Eitt sinn höfðu Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ekki heldur reynslu af því að mynda ríkisstjórn.
Þorsteinn Briem, 17.9.2016 kl. 04:44
"Píratar hafa nú bara þrjá þingmenn ..."
Fimm frambjóðendur Pírata sem væntanlega verða þingmenn eftir alþingiskosningarnar í næsta mánuði hafa setið á Alþingi, Birgitta Jónsdóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir, Jón Þór Ólafsson, Halldóra Mogensen og Björn Leví Gunnarsson.
Framsóknarflokkurinn fékk nítján þingmenn í síðustu alþingiskosningum og tólf þeirra voru þá ekki þingmenn, fimm höfðu setið á Alþingi frá árinu 2009, einn frá 2008 og einn frá 2007.
Þorsteinn Briem, 17.9.2016 kl. 05:58
Enda þótt Ólöf Nordal og Lilja Dögg Alfreðsdóttir séu ráðherrar eru þær ekki þingmenn.
Og Þorsteinn Pálsson gæti að sjálfsögðu orðið ráðherra, enda þótt hann fari ekki í framboð fyrir Viðreisn í alþingiskosningunum í næsta mánuði.
19.5.2015:
"Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að ef Píratar myndu verða í þeirri stöðu að hafa áhrif á ríkisstjórnarmyndun eða áherslur á næsta kjörtímabili, ... :"
"Aðskilnaður framkvæmdavalds og löggjafarvalds, þannig að ráðherrar megi ekki vera þingmenn á sama tíma og þeir eru ráðherrar."
Þorsteinn Briem, 17.9.2016 kl. 06:24
Þorsteinn Pálsson og Helgi Hrafn Gunnarsson gætu því orðið ráðherrar í næstu ríkisstjórn.
Þorsteinn Briem, 17.9.2016 kl. 06:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.