3.10.2016 | 00:18
Hvað gerðu fyrrum formenn Framsóknar?
Tryggvi Þórhallsson var forsætisráðherra jafnframt því að vera formaður Framsóknarflokksins 1927-32.
Ágreiningur varð til þess að hann klauf flokkinn og stofnaði Bændaflokkinn 1933, sem bauð fram í kosningum 1934 og fékk þrjá þingmenn, en Tryggvi féll sjálfur fyrir hinum kornunga Hermanni Jónassyni.
Jónas Jónsson frá Hriflu, líkast til stjórnmálamaður 20. aldarinnar, dómsmálaráðherra 1927-32, var afar umdeildur og kom sér þannig út úr húsi hjá mörgum, að Alþýðuflokkurinn gerði það að skilyrði 1934 að hann væri ekki í ríkisstjórn flokkanna tveggja og var hann þó formaður Framsóknarflokksins.
Jónas hafði áhrif bak við tjöldin við myndun Þjóðstjórnarinnar 1939 en varð samt ekki ráðherra og áhrif hans fóru dvínandi.
Var hann þó framsýnastur allra íslenskra stjórnmálamanna varðandi nauðsynlegt samstarf um öryggismál landsins við "Engilsaxa", Bandaríkjamenn og Breta.
1944 hætti hann sem formaður flokksins, en sat áfram á þingi, bauð sig fram fyrir flokkinn 1946 í sínu heimakjördæmi Suður-Þingeyjarsýslu og sat á þingi til 1949.
Jónas klauf ekki flokkinn eins og Tryggvi Þórhallsson hafði gert, en nýtti sér sterka stöðu sína á heimaslóðum til að sitja á þingi.
Vangaveltur um það að Sigmundur Davíð eigi að kljúfa Framsóknarflokkinn og bjóða fram sér, eða að ganga til liðs við einhvert annað framboð, eru afar óraunsæjar.
Eins og staðan er nú veitir flokknum ekki af öllu sínu til þess að endurheimta það mikla fylgi sem hann hefur misst.
Ef staða Sigmundar Davíðs er jafn sterk og hún virtist vera í vali listans í Norðausturkjördæmi, sýnist skásti möguleiki hans vera: "If you can´t beat them, join them", það er, að taka þátt í því að auka fylgi flokksins og nýta sér jafnframt stöðuna á heimavelli.
Velja frekar viðbrögð Hriflu-Jónasar en Tryggva Þórhallssonar.
Gallinn er bara sá, að þegar litið er á sinnaskipti fjölda fulltrúa á flokksþinginu, til dæmis Ásmundar Einars Daðasonar, er ekki lengur jafn víst að þeir sem studdu SDG í Norðausturkjördæmi og veðjuðu á það, að þar með væru þeir að fá mann, sem gæti hyglað mörgum í kjördæminu í stíl við það sem hann hefur gert, kunna að byrja að efast í ljósi nýrrar heildarstöðu.
Því miður glutraði Sigmundur Davíð niður næstum hálfs árs umþóttunartíma til þess að gera upp við mistök sín og taka nýjan kúrs, heldur hélt fast við dramb, ofmat og samfellda afneitun og firringu allt fram til loka flokksþingsins örlagaríka.
Svekktur yfir niðurstöðu kosninga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hér gæti hvatvísi Sigmundar skipt öllu máli. Ákvörðun gæti þegar legið fyrir, tekin á leið hans út af þinginu.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 3.10.2016 kl. 04:42
Alltaf gaman að lesa færslurnar þínar en þær stoppa of stutt við. Næsta færsla, oftast um gerólíkt efni, er komin ´áður en eðlilegum umhugsunar eða viðbragðstíma er lokið fyrir þá sem hafa fleiru að sinna en athyglisverðum bloggfærslum á mbl.is. Kannski ættirðu að hafa fleiri bloggsvæði á Mogganum?
Að ætla Sigmundi Davíð færan um að feta í fótspor Jónasar Jónssonar frá Hriflu er hreint fráleitt, að mínum dómi. Jónas var afburða vel gefinn og óvenjulega vel og víðmenntaður hugsjónamaður, mótaður af sjálfstæðisbaráttu Íslands. Hann komst til valda vegna eigins atgerfis. Sigmundur er hinsvegar afsprengi hrunsaðdragandans og fékk sinn pólítíska frama á silfurfati. SD virðist rétt meðalgreindur og ekki vel menntaður (ekki einu sinni samtalshæfur á ensku) og reyndist ekki einu sinni fær um að klára sig út úr erfiðu sjónvarpsviðtali nema með því að grípa til fótanna.
Kannski væri eðlilegra að dæma frammistöðu Sigmundar DG og stöðu hans frá sjónarmiði kjósenda nútímans frekar en að reyna að tengja hans feril við löngu liðna foringja framsóknarflokksins.
Agla (IP-tala skráð) 3.10.2016 kl. 10:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.