Tæknileg utanbrautarlending.

Lýsingin "...lenti utan brautar" getur skapað misskilning þegar um er að ræða að flugvél hafi farið fram yfir svonefndan þröskuld brautar í lok lendingarbruns, því að í slíkri lendingu hefur vélin snert braut löngu fyrr. 

Á flugvöllum er skylt að hafa brautarenda þannig, að skráð lengd sé styttri en brautin er í raun og veru. Innanlands eru 30 metrar lágmark, sé brautin innan við 800 metra löng, en 60 metrar, sé hún 800 metrar eða lengri. 

Ástæðan fyrir mismunandi lengd er sú, að þær flugvélar sem geta lent á 799 metra löngum brautum eða skemmri, lenda yfirleitt á minni hraða en þær flugvélar, sem verða að nota lengri brautir, og skekkja í lendingarbruninu verður því ekki eins stór í metrum talið og skekkja sama eðlis hjá stærri flugvélum. 

Ekki er gert ráð fyrir því að þessir brautarendar séu reiknaðir eða notaðir í lendingum, heldur er hér aðeins um varúðaratriði að ræða til þess til þess að eiga upp á eitthvað að hlaupa, ef lendingarbrun verður lengra en reiknað var með, og til að tryggja að flugstjórar reikni ekki með fullri lengd þegar þeir ákveða að lenda á viðkomandi brautum. 

Svonefndir þröskuldar eru merktir á sérstakan hátt með ljósum en brautin engu að síður auð svo að hægt er að aka eftir henni yfir "þröskuldinn" ef svo ber undir.

Ágætt dæmi um þröskuld, sem er alllangt inni á braut er þröskuldurinn í aðflugi til vesturs á austur-vestur braut (13/31) á Reykjavíkurflugvelli.  

Hann er um 200 metra inni á brautinni vegna þess að aðflugið á stórum flugvélum er nokkuð bratt og hátt af því að flogið er yfir öxl Öskjuhlíðarinnar. 

Auðvelt væri að lenda minnstu flugvélum austan við þröskuldinn, en eitt verður þó yfir alla að ganga. 

Svo einkennilegt, sem það kann að virðast, eru skráðar lengdir brauta ekki alltaf þær sömu í báðar áttir á sömu braut. 

Á Sauðárflugvelli er til dæmis ein brautin, 18/36, skráð 160 metrumm styttri en hún raunverulega er. 

Ástæðan er sú að á norðurendanum er lítilsháttar alda á brautinni, sem getur verið varasöm í lendingu til suðurs á fullum lendingarhraða en kemur ekki að sök í flugtaki til suðurs, af því að í upphafi flugtaksbruns er hraði flugvéla mun minni en í upphafi lendingarbruns í sömu átt.

Í praxis er brautin því 770 metrar í flugtaki til suðurs og lendingu til norðurs, en 640 metrar í lendingu til suðurs.   

 


mbl.is Þota WOW lenti utan brautar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ómar. Ef það er einhver íslendingur sem hefur vit á flugi og öllu slíku viðkomandi, þá ert það þú. Fyrr má nú annars vera, vandræðin og óhappatíðnin hjá þessu flugfélagi.

Fyrst var það: WOW flýgur í gegnum eldingu.

Svo var það: WOW lendir utan flugbrautar.

Hvað er eiginlega með þetta WOW-ævintýraflug háloftanna þessa dagana? ,,Sjaldan er ein báran stök", segir víst gamalt máltæki. Sem þýðir víst að einni óhappa-öldu fylgja oft fleiri slíkar óhappaöldur. (Reyndar öldugangur háloftanna í þessu tilfelli, en ekki sjávaröldugangur). 

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 4.10.2016 kl. 22:11

2 identicon

Það er alltént ljóst að Anna Sigríður hefur ekki vit á flugi, þótt hún sé um margt skynsöm. Það lýsir sér í því að hún kallar eldingu og meinta utanvallarlendingu WOW vandræðo og óhöpp. Hún gæti alveg eins kallað Kynnisferðir vandræða- og óhapparútufyrirtæki því bíll frá þeim ók yfir drullupoll í fyrradag og þá ekki síður þegar rútan fór út á vegöxlina í gær. Þetta eru vandræði og óhöpp af svipaðri stærðargráðu hjá báðum fyrirtækjum, enda héldu bæði rúturnar og þoturnar áfram eins og ekkert hefði í skorist.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 5.10.2016 kl. 21:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband