Góð kynni af þessum manni.

Ég vissi ekkert hver Logi Már Einarsson var þegar upp kom, að hann myndi stjórna vinnu hóps um umhverfismál á einum landsfundi Samfylkingarinnar, sem falið var að semja og bera fram þann hluta stefnuskrár flokksins.  

Loft var lævi blandið, því að á fyrri landsfundi 2009 hafði munað aðeins örfáum atkvæðum að samþykkt yrði tillaga um að það skyldi vera stefna flokksins að láta reisa eins margar álbræðslur á Íslandi og hægt væri með því að virkja til fulls alla vatnsorku og jarðvarmaorku landsins. 

Samþykkt þeirrar tillögu hefði orðið Samfylkingunni til óumræðanlega mikils tjóns í formi ævarandi skammar, sem lifa myndi um aldir ásamt því að meirihluti þingmanna flokksins hafði samþykkt Kárahnjúkavirkjun 2003. 

Með því að samþykkja slíka stefnu hefði Samfylkingin orðið að harðasta stóriðjuflokki landsins.

Stóriðjufíklar í flokknum höfðu borið fram tillögu sína á síðustu stundu áður en frestur til slíks rann út á lokadegi landsfundarins, greinilega í þeirri von, að andófsfólk gegn slíkum firnum myndi ekki ná vopnum sínum og að umræður yrðu takmarkaðar vegna tímaskorts. 

Búast mátti við einhverju svipuðu á landsfundinum þar sem Logi Már stjórnaði umræðum í umhverfishópnum.  

Logi kom mér mjög á óvart í stjórn og vinnu hópsins við að lempa mál og finna fleti til að ná fram niðurstöðu, og sýndi þar ótvíræða stjórnunarhæfileika, yfirvegun, íhygli, lagni, sanngirni og öguð vinnubrögð, sem skiluðu mun betri ályktun en margir umhverfis- og náttúruverndarsinnar óttuðust að yrði niðurstaðan. 

Honum er nú meiri vandi á höndum en nokkrum öðrum formanni jafnaðarmanna á undan honum, en vonandi tekst honum jafn vel í hinu nýja vandasama verki sínu og þegar hann kom mér hvað mest á óvart.  


mbl.is Berum öll ábyrgð á ósigrinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband