70 ára gamall vandi varðandi umboð og forsæti. 1978 og 2016.

Það hefur alltaf verið viss vandi fólginn í því hver myndi ríkisstjórn á Íslandi. 

Aðeins einu sinni áður, 1978, hefur flokkur lengst til vinstri verið næst stærstur á þingi.

1931 ríkti ákveðið þrátefli eða pattstaða milli stjórnar og stjórnarandstöðu, og niðurstaðan varð sú að Tryggvi Þórhallsson forsætisráðherra, vék til hliðar og Ásgeir Ásgeirsson varð forsætisráðherra í stjórn tveggja stærstu flokkanna sem fékkst við afmörkuð brýn mál, meðal annars að bregðast við geigvænlegum afleiðingum heimskreppu og gera lágmarksbreytingar á kjördæmaskipun til að minnka afleiðingar stórfellds misvægis atkvæða. 

1942 varð trúnaðarbrestur í svonefndu "eiðrofsmáli" milli Ólafs Thors og Hermanns Jónassonar sem olli því að upp frá því gat hvorugur gat hugsað sér að sitja í stjórn undir forsæti hins. 

Stefán Jóhann Stefánsson formaður Alþýðuflokksins varð því forsætisráðherra í þriggja flokka stjórn 1947 þar sem hvorki Ólafur né Hermann voru ráðherrar. 

1950 varð þrautalendingin sú að Steingrímur Steinþórsson alþingismaður Framsóknarflokksins varð forsætisráðherra, en Ólafur varð sjávarútvegsráðherra og Hermann landbúnaðarráðherra. 

1974 var "samkvæmisleikurinn" eða "hringekjan" í gangi og þegar Ólafur Jóhannesson formaður Framsóknarflokksins og fráfarandi forsætisráðherra vinstri stjórnar hafði umboðið eftir að Geir Hallgrímssyni formanni Sjálfstæðisflokksins hafði mistekist stjórnarmyndun, tókst Ólafi að finna flöt á samstarfi flokkanna undir forsæti Geirs.

Sú upphefð Geirs varð honum lítt til framdráttar, því að skopast var að því að Ólafur hefði myndað stjórn fyrir Geir.

Svipuð uppákoma varð við myndun stjórnar 1983, en þá lauk stjórnarmyndunarviðræðum þessara tveggja stærstu flokka með því að Sjálfstæðismenn gátu valið um að hafa stjórnarforystu og fá færri og lakari önnur ráðuneyti, eða að láta Framsóknarmönnum eftir forystuna og fá í staðinn betri útkomu varðandi önnur ráðuneyti.

Sjálfstæðismenn völdu síðari kostinn og Steingrímur Hermannsson varð forsætisráðherra.

Steingrímur sýndi mikla pólitíska stjórnunarhæfileika í embættinu og margir Sjálfstæðismenn hörmuðu það síðar að hafa gefið honum þetta tækifæri.

Allan Kaldastríðstímann þótti andstæðingum Sósíalistaflokksins og síðar Alþýðubandalagsins það fráleitt að formennn þessara flokka væri veitt umboð til stjórnarmyndunar.

Í "hringekjunni" 1978 fékk Lúðvík Jósepsson formaður Alþýðubandalagsins umboð til stjórnarmyndunar eftir að Benedikt Gröndal og formönnum annarra flokka en Alþýðubandalagsins hafði mistekist, og fyrtust forystumenn hinna flokkanna við að "kommúnisti" fengi stjórnarmyndunarumboð og margir urðu Kristjáni Eldjárn gramir, - þessi tilraun Lúðvíks fékk því fyrirsjáanlegan endi. 

En hefð var samt rofin. 

Á endanum tókst Ólafi Jóhannessyni, þeim mikla stjórnmálaref, að mynda þriggja flokka vinstri stjórn þótt Framsóknarflokkurinn hefði í kosningum beðið mesta afhroð í sögu sinni fram að því.

 

Núna er staða Vinstri grænna sterkari en staða flokks yst til vinstri hefur verið síðan 1978 og af því að Kristján Eldjárn rauf ákveðna hefð 1978, yrði engin hefð rofin með því að veita Katrínu Jakobsdóttur umboð til stjórnarmyndunar nú, þótt hún fengi kannski ekki umboðið fyrr en öðrum hefði mistekist.

En spurningin er hvort enn eimi svo mikið eftir af 70 ára gamalli andúð, sem fyrst reis árið 1946, að þess vegna reynist það enn einu sinni ómögulegt að mynda stjórn undir forystu þess flokks, sem er lengst til vinstri.   

Við erum aftur komin að upphafi þessa pistils: Aðeins einu sinni áður í stjórnmálasögu þjóðarinnar, 1978, hefur flokkur lengst til vinstri verið næststærstur og því fróðlegt að sjá hvað gerist nú. 


mbl.is Þrír óska eftir umboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband