10.11.2016 | 00:10
Verður Esjan "sjúkleg"?
"Finnst þér ekki Esjan vera sjúkleg?" orti Megas og bætti við: "Og Akrafjallið geðbilað að sjá?"
Þetta kom í hugann á almennum fundi á Kjalarnesi í kvöld þar sem kynntar voru hugmyndir, sem framtakssamir menn hafa unnið að varðandi stóran og afkastamikinn kláf, sem flutt geti hundruð þúsunda ferðamanna upp á Esjuna, beint gegnt Reykjavík.
Gætu orðið þrír áningarstaðir með veitingaaðstöðu á leiðinni, neðst, ofarlega og uppi á brún.
Þetta virðist komið ansi langt, birtar myndir af fyrirbærinu á fundinum og hugmyndin reifuð svo að það virðist sem þegar sé búið að leggja í þetta fé og fyrirhöfn.
Málið komið inn á borð hjá borgaryfirvöldum, og af því leiðir væntanlega, að það mun leiða til fjártjóns ef þetta verður ekki að veruleika.
Lykt af túrbínutrixinu? Spurning.
Þann tíma sem ég var á fundinum kom fram gagnrýni á bæði hugmyndina og málsmeðferð. Hugmyndin væri vanreifuð og lítt kynnt né rökrædd, og byrjað á öfugum enda.
Fyrst hefði átt að rannsakað málið vel og rökræða sig til niðurstöðu, meðal annars með mati á umhverfisáhrifum, og síðan að afgreiða önnur atriði varðandi framkvæmdina, ef af yrði.
Ég hef áður bent á það hér á blogginu að íbúar höfuðborgarsvæðisins eigi betri útsýnisstað fyrir austan borgina, efst uppi á Bláfjöllum, í svipaðri hæð yfir sjó sá staður, þar sem kláfurinn mikli á að enda uppi á brún Esjunnar.
Meira að segja búið að leggja bílveg upp á topp Bláfjalla, reisa veitingaskála og lyftur fyrir skíðafólk, sem mætti breyta í lyftur fyrir ferðafólk á sumrin.
Útsýnið: Allur Reykjanesskaginn og Faxaflóinn með Snæfellsjökul og Snæfellsnesfjallarðinn, Akrafjall, Esja, Skálafell, Botnssúlur, Mosfellsheiði, Vífilfell, Hengill, glyttir í fjöll og jökla norður af Þingvallasveit / Bláskógabyggð, - til austurs allt Suðurlandsundirlendið, Surtsey, Vestmannaeyjar, hinn heimsfrægi Eyjafjallajökull, að baki hans Mýrdalsjökull og Katla, þá Tindfjöll, Torfajökull fjær, hin heimsfræga Hekla nær.
260 kílómetra loftlína frá Snæfellsjökli til Mýrdalsjökuls.
Hvað er þá eiginlega í gangi? Við erum að drukkna í ferðamönnum og þurfum helst að hægja á straumi þeirra og eigum fleiri kosti en að ráðast í gerð risamannvirkis á mest áberandi stað bæjarfjalls Reykjavíkursvæðisins. Nefndir voru aðrir möguleikar en þessi staðsetning kláfs upp á Esju og minnt á tilvist Skálafells.
Enginn minntist á Akrafjall þrátt fyrir ljóðlínur Megasar um að það væri geðbilað að sjá.
Eftir að hafa hlustað á umræðurnar sagði borgarsjórinn, Dagur B. Eggertsson, í lok fundarins að ekkert lægi á í þessu máli og að um það yrði fjallað af vandvirkni og yfirvegun.
Framkvæmdir í Austurstræti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Schnapsidee", eins og hraðlest á milli KEF og Reykjavíkur.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 10.11.2016 kl. 00:28
Ef hugmyndin er fjárhagslega raunhæf er hún góð, annars ekki. Ásýnd fjallsins verður ekki verri en það er auðvitað smekksatriði og eflaust hávær hópur fólks ósammála því.
Gunnar Th. Gunnarsson, 10.11.2016 kl. 01:02
Á facebook erum við að skeggræða um kláfinn upp á Floyen við Bergen vegna þess að einn þáttakenda í spjallinu vísar til þess hve vel hann sé heppnaður. Hefur þó ekki komið þangað sjálfur.
Ég hef hins vegar farið upp á Floyen og sá kláfur er alveg ósambærilegur við Esjukláfinn fyrirhugaða, ef hann á að verða þar sem nú er ætlað.
Floyen er aðeins eitt af frekar lágum fjöllum við Bergen, aðeins 320 metra hár, og ég átti erfitt með að finna hann, af því að hann er svo vel falinn í skógi vaxinni hlíðinni.
Kláfurinn, sem á að koma utan á nakta Esjuna á þeim stað í fjallinu þar sem hann veldur langmestri sjónmengun, mun hins vegar blasa við í allt að 15 kílómetra radíus. Hér vilja sumir vaða áfram eins og okkur Íslendingum er svo tamt, en vonandi stendur borgarstjóri við það að vanda til verks og finna aðra lausn.
Ómar Ragnarsson, 10.11.2016 kl. 01:22
"Málið komið inn á borð hjá borgaryfirvöldum, og af því leiðir væntanlega, að það mun leiða til fjártjóns ef þetta verður ekki að veruleika."
Þetta er að sjálfsögðu fáránleg fullyrðing hjá þér, Ómar Ragnarsson.
Þorsteinn Briem, 10.11.2016 kl. 02:16
""Schnapsidee", eins og hraðlest á milli KEF og Reykjavíkur."
Engin rök heldur fyrir þessari fullyrðingu.
Þorsteinn Briem, 10.11.2016 kl. 02:20
15.12.2015:
"Ef svo fer fram sem horfir gæti hraðlest úr Vatnsmýrinni til Keflavíkurflugvallar verið komin í gagnið eftir átta ár.
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa möguleikann til skoðunar."
"Fluglestin - þróunarfélag ehf. hefur uppi áform um hraðlest úr Vatnsmýrinni til Keflavíkurflugvallar.
Það yrði raflest sem nær 250 kílómetra hraða og því tæki ferðin suður með sjó 15-18 mínútur.
Að hraðlestinni standa Fasteignafélagið Reitir, Landsbankinn, Ístak, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar Kadeco og Efla."
Hraðlest á milli Keflavíkurflugvallar og Umferðarmiðstöðvarinnar (BSÍ) eftir átta ár
Þorsteinn Briem, 10.11.2016 kl. 02:23
7.7.2014:
Hraðlest á milli Keflavíkurflugvallar og Umferðarmiðstöðvarinnar (BSÍ) skilar allt að sextíu milljarða króna ábata - Ferðatíminn um korter
Þorsteinn Briem, 10.11.2016 kl. 02:28
Forsendur varðandi Keflavíkurflugvöll hafa breyst mjög mikið.
Árið 2012 fóru 2,38 milljónir farþega um völlinn, um 44% fleiri en árið 2009.
Keflavíkurflugvöllur árið 2012 - Staðreyndir og tölur
Um 647 þúsund erlendir ferðamenn komu og dvöldu hér á Íslandi árið 2012, um 31% fleiri en árið 2009.
Og um 96% erlendra ferðamanna sem dvelja hér á Íslandi koma hingað um Keflavíkurflugvöll.
Um 622 þúsund erlendir ferðamenn komu því til landsins um Keflavíkurflugvöll árið 2012 og dvöldu hér á Íslandi.
Og um 95% erlendra ferðamanna komu þá til Reykjavíkur, eða um 615 þúsund.
Þar að auki fóru um 63% þeirra sem eru búsettir hér á Íslandi til útlanda árið 2012 og að meðaltali fóru þeir þá tvisvar til útlanda.
Um 322 þúsund manns voru búsettir hér á Íslandi í árslok 2012 og þar af leiðandi voru þessar ferðir búsettra hérlendis til útlanda um 408 þúsund árið 2012.
Um 64% þeirra sem búsettir eru hér á Íslandi búa á höfuðborgarsvæðinu, frá Kjalarnesi til Hafnarfjarðar, um 206 þúsund manns, og því fóru þeir væntanlega í um 261 þúsund ferðir til útlanda árið 2012.
Og tiltölulega fáir búsettir hérlendis fljúga beint til útlanda frá Akureyri og Egilsstöðum eða ferðast með ferjunni Norrænu.
Ef reiknað er með um 600 þúsund ferðum þeirra sem búsettir eru hérlendis á milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar, fram og til baka, og um 1,2 milljónum ferða erlendra ferðamanna þessa leið, fram og til baka, voru þessar ferðir því um 1,8 milljónir árið 2012.
Ferðaþjónusta hér á Íslandi í tölum árið 2012 - Ferðamálastofa í apríl 2013
Far með flugrútunni á milli Keflavíkurflugvallar og Umferðarmiðstöðvarinnar (BSÍ) í Reykjavík, um 50 kílómetra leið, kostar um tvö þúsund krónur aðra leiðina og rútan er 45 mínútur á leiðinni.
Og 1,8 milljónir ferða árið 2012 fyrir tvö þúsund krónur hverja ferð eru samtals um 3,6 milljarðar króna, eða um 72 milljarðar króna á 20 árum.
Hins vegar er reiknað með að hingað komi og dvelji hér á Íslandi um tvær milljónir erlendra ferðamanna árið 2023, eftir níu ár.
29.11.2013:
""Ástæða þótti til að skoða málið og kanna hvort raunhæft sé og hagkvæmt að ná háhraðatengingu á milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkur," segir Runólfur Ágústsson.
Framkvæmdin kostar 106 milljarða, að mati hópsins.
"Þá er við það miðað að lestin fari frá Keflavíkurflugvelli að Hafnarfirði og þaðan neðanjarðar síðustu 11-12 km að miðborg Reykjavíkur."
"Ef að allt gengur upp gæti þessari framkvæmd verið lokið upp úr 2020 og þá yrði farþegafjöldinn 3-4 milljónir á ári," segir Runólfur."
Háhraðalest milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur kostar 106 milljarða króna
Steini Briem, 7.7.2014
Þorsteinn Briem, 10.11.2016 kl. 02:35
Umferðarmiðstöðin (BSÍ) við Hringbraut er aðalumferðarmiðstöð höfuðborgarsvæðisins og langflest hótel og gistiheimili, um tvö hundruð, eru vestan Kringlumýrarbrautar.
Þorsteinn Briem, 10.11.2016 kl. 02:43
"... nýju vélarnar [Bombardier Q400] geta flogið allt að 25% hraðar en Fokker F50 vélarnar."
Innanlandsflugið verður hugsanlega fært frá Reykjavík til Keflavíkurflugvallar með skemmri flugtíma í innanlandsfluginu og hraðlest á milli vallarins og Umferðarmiðstöðvarinnar (BSÍ) á Vatnsmýrarsvæðinu.
Steini Briem, 25.4.2016
Þorsteinn Briem, 10.11.2016 kl. 02:54
"Flestir flugfarþegar eru karlmenn á aldrinum 30-35 ára, sem nota flugið vegna vinnu eða viðskipta.
Tæplega helmingur ferða er greiddur af einkafyrirtækjum og opinberum aðilum.
Keflavíkurflugvöllur er vel í stakk búinn til að taka við innanlandsflugi, reisa þyrfti nýja flugstöð eða finna henni stað í húsnæði sem til staðar er á vellinum."
Innanlandsflug um Keflavíkurflugvöll, möguleikar og samfélagsleg áhrif - Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja, janúar 2014
Þorsteinn Briem, 10.11.2016 kl. 02:56
Ákveðið hefur verið að hraðlest gangi á milli Keflavíkurflugvallar og Umferðarmiðstöðvarinnar (BSÍ) við Hringbraut:
Steini Briem, 8.10.2016
Þorsteinn Briem, 10.11.2016 kl. 03:01
Steini Smile (IP-tala skráð) 10.11.2016 kl. 10:19
Enn ein runan af athugasemdum um allt annað mál en það, sem verið er að ræða og sagt það muni stytta "flugtímann" að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur.
Einu sinni var sagt um styttingu brauta á Reykjavíkurflugvelli að það myndi auka flugöryggi eitt og sér. Í fyrsta skipti í flugsögunni.
Að lengja stytta tímann sem tekur að fljúga með því að lengja flugleiðirnar um 35 kílómetra að meðaltali yrði líka í fyrsta sinn í flugsögunni sem flugtíminn (air time) yrði styttur á þann hátt.
Ómar Ragnarsson, 10.11.2016 kl. 20:09
Er það þá ekki Runólfur Briem
Sæll (IP-tala skráð) 11.11.2016 kl. 17:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.