Málefnin mikilvægari en hve stór meirihlutinn sé.

Reynslan á fullveldistímanum frá 1918 sýnir, að staða málefna í stjórnarsamstarfi skiptir meira máli en það hvort stjórnin hafi aðeins eins atkvæðis meirihluta eða mjög ríflegan meirihluta. 

Nýsköpunarstjórn þriggja flokka af fjórum á þingi hafði það ríflegan meirihluta, að það skipti ekki máli þótt fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins væru andvígir myndun hennar. 

Þegar einn flokkanna, Sósíalistaflokkurinn, taldi Keflavíkursamning Ólafs Thors við Bandaríkjamenn andstætt stefnu flokksins, sprakk stjórnin og önnur þriggja flokka stjórn tók við, þar sem Framsóknarmenn komu inn í stað Sósíalistaflokksins. 

Ágreiningur um efnahagsmál reis þegar sú stjórn hafði setið í tvö ár, sem varð til þess að stjórnin sprakk, þótt hún hefði ríflegan meirihluta. 

Vinstri stjórni sprakk líka 1958 vegna ágreinings um stjórnarstefnuna í efnahagsmálum þótt hún hefði góðan meirihluta. 

Viðreisnarstjórnin sat hins vegar sem fastast í tólf ár samfleytt, þótt meirihluti hennar væri frekar knappur og aðeins eins þingsmanns meirihluti síðustu fjögur árin. 

Stjórn Gunnars Thoroddsens hafði knappan eins þingmanns meirihluta þegar hún var mynduð í ársbyrjun 1980 en sat þó út kjörtímabilið til 1983. 

Stjórn Þorsteins Pálssonar hafði mjög tryggan meirihluta þegar hún var mynduð 1987, en sprakk í beinni útsendingu á Stöð 2 1987 vegna ágreinings um efnahagsstefnu og trúnaðarbrests innan stjórnarinnar. 

Þá var mynduð sú stjórn sem hefur haft einna tæpastan þingmeirihluta á Alþingi, stjórn Steingríms Hermannssonar, hvorki meira né minna en fjögurra flokka stjórn. Einn flokkurinn, Samtök um jafnrétti og félagshyggju, var þó aðeins einn þingmaður, Stefán Valgeirssonn. 

Hún hafði aðeins eins atkvæðis meirihluta í annarri þingdeildinni og leikar stóðu jafnir í hinni. Það þýddi þó, að tillaga um vantraust félli á jöfnum atkvæðum. 

Hitt var tæpara, að varpa þurfti hlutkesti, sem skar úr um meirihluta í nefndum þingsins. 

Þá gerðist einsdæmi: Stjórnin vann öll níu hlutkestin, sem þarna réðu úrslitum. 

Þrátt fyrir þennan sérstaklega nauma meirihluta sat stjórnin út kjörtímabilið og styrktist rúmu ári síðar þegar stjórnarflokkunum var fjölgað um einn, upp í fimm. 

Stjórn Geirs H. Haarde hafði drjúgan meirihluta 2007, en Hrunið og Búsáhaldabyltingin ollu því að sú stjórn sprakk. 

Í þeim tilfellum sem ríkisstjórnir með drjúgan og tryggan meirihluta hafa sprungið, hefur það verið af vegna þess að nýjar aðstæður sköpuðust, sem gerðu það að verkum, að skoðanir um viðbrögð við þeim og aðgerðir stjórnarinnar, urðu skiptar og ekki reyndist unnt að brúa ágreininginn. 

Að öðru jöfnu hlýtur mikill munur á stefnu flokka að auka líkur á slíku. 


mbl.is Reynt til þrautar í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband