Hlerað löggusamtal í den: "Hann segist heita Róbert..."

Lítil saga úr Reykjavík fyrir nokkrum áratugum kemur upp í hugann þegar fréttir berast jafnt frá útlöndum sem hér innanlands af alls kyns hlerunum, svo sem af hlerunum á tetra-kerfi íslensku lögreglunnar og vitneskju Rússa um "krísu-handbók" NATO. 

Leigubílstjóri einn, sem hafði sopið marga fjöruna í akstrinum og fannst ekkert verra að geta hlerað það sem lögreglan var að gera, sagði mér þessa skemmtilega sögu fyrir mörgum árum, en á þeim tíma var hægt að ná sér í tæki eða skanna, sem gátu numið bylgjuna sem lögreglan notaði 

Bílstórinn heyrði um miðja nótt í tæki sínu að lögreglubíll, staddur við Sæviðarsund, kallaði í stöðina og sagði lögreglumaðurinn, sem kallaði að þeir hefðu handtekið ungan mann í afar annarlegu ástandi, sem hefði engin skilríki, vissi ekki hvar hann ætti heima og væri erfitt að fá út úr honum hvað hann héti. 

Hér á eftir er samtalið eða þær setningar sem leigubílstjórinn kvaðst hafa heyrt á bylgjnni. 

St: = stöðin.

Lb: = Lögreglubíllinn

 

St: Hvað heitir maðurinn? Spyrjið hann aftur að því. 

Lb: Bíddu aðeins. (Við manninn) Hvað heiturðu? 

St: Hvað segist hann heita?

Lb: Hann segist heita Róbert. 

St: Það er ekki nóg. Spurðu hann að fullu nafni. 

Lb: ( Við manninn) Hvað heiturðu meira en Róbert?

St: Já, hvers son er hann?

Lb: Hann segist heita Róbert, eh, (við manninn) hvað sagðistu aftur heita meira?

St: (Óþolinmæði í röddinni)  Já, hvað segist hann heita meira?

Lb: Hann segist heita Redford, (hikar), eh, Redford.

St: Hvaða bull er þetta?  Hann sagði áðan að hann héti Róbert.  

Lb: Já, en það er fyrra nafnið. Hann heitir líka Redford. Róbert Redford. 

St: Þetta er ekki nóg. Hverra manna er hann?

Lb: (Við manninn) Hverra manna ertu? Hvað heita foreldrar þínir?

(þögn)

St: (Vaxandi óþolinmæði í röddinni) Já, hvað heitir til dæmis mamma hans?

Lb: (Við manninn)  Hvað heitir mamma þín?

(þögn)

St: Hann hlýtur að vita hvað mamma hans heitir.

Lb: Hann segir að hún heiti Judy.

St: Judy?

Lb: Já, Judy. 

St: Judy? Bara Judy? Ekkert meira?

Lb: (Við manninn) Hvað heitir mamma þín meira en Judy? 

(þögn) 

St: Voðalega gengur þetta seint hjá ykkur. Hvað heitir mamma hans fullu nafni?

Lb: Eh, það er erfitt að skilja hann, en hann segir að mamma sín heiti Judy, eh, hérna,        Garland, eh, Judy Garland. Hann heitir sjálfur Róbert Redford en mamma hans heitir Judy    Garland. 

St: Það var mikið að það hafðist. Það var að koma hér inn félagi okkar sem kannast við kauða og farið þið með hann yfir á Klepp.  Hann hefur greinilega sloppið út. 


mbl.is Rússar voru með „krísu-handbók“ NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Ég er nú búinn að vera leigubílstjóri í fjeritíu ár en hef aldrei vedað annað eins!"

Þorsteinn Briem, 18.11.2016 kl. 01:43

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þessi leigubílstjóri, sem ég var einmitt að tala við rétt í þessu, var bara svo heppinn að detta niður á óborganlegt samtal, sem skópst af ástandi mannsins, sem virtist í afar annarlegu ástandi. 

Lögreglumönnunum á vettvangi var vorkunn, því að hvernig átti þá að gruna, hvers kyns var?

Ómar Ragnarsson, 18.11.2016 kl. 12:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband