18.11.2016 | 23:55
Svartir blettir og kaflar í sögu ótrúlegustu þjóða.
Versta dæmið um svartan blett í sögu einnar helstu menningarþjóðar Evrópu eru voðaverk nasista.
En blettirnir eru fleiri.
Hjá frændþjóð okkar, Dönum, er meðferðin á börnum, sem danskar konur eignuðust með þýsku hermönnum svartur blettur á sögu þeirrar þjóðar.
Gömul kona í Demyansk í Rússlandi sagði mér frá því 2006 að verstu hrottarnir í hernámsliðinu, sem var lokað þar inni í fjóra mánuði á útmánuðum 1942 hefðu ekki verið þýsku hermennirnir, heldur þeir finnsku, hermenn einnar af Norðurlandaþjóðunum.
Illvirki Japana í hernumdum löndum í styrjöldum þeirra á árunum 1937-1945 er risastór svartur kafli í sögu þeirrar þjóðar.
Sömuleiðis ill meðferð Bandaríkjamanna í Seinni heimsstyrjöldinni á fólki af japönskum uppruna, sem átti heima í Bandaríkjunum.
Á fyrri hluta sjötta áratugarins viðgengust hreinar ofsóknir í Bandaríkjunum á hendur fólki, sem sakað var um þau föðurlandssvik að vera hliðhollt kommúnistum.
Bæði þessi bandarísku mál talin vera svartir blettir á sögu þessarar miklu þjóðar lýðræðis og mannréttinda.
Það er sameiginlegt öllum þessum atvikum, að hatur og sjúkleg tortryggni sem beindist að kynþáttum, skoðunum og uppruna fólks, fór óravegu út fyrir skynsamleg mörk.
Nú sýnist af fréttum að svipað kunni að vera í uppsiglingu í Bandaríkjunum gagnvart innfluttu fólki af mexikóskum uppruna og frá löndum, þar sem múslimatrú eru höfuðtrúarbrögð.
Þjóðerni og trúarbrögð aftur leidd til öndvegis í ofsóknum gegn fólki.
Eftir að þrælum var gefið frelsi í lok þrælastríðsins í Bandaríkjunum var brugðið á það áð að hafa lög um kosningarétt og kjörgengi svo ströng, að svertingjarnir voru í raun raun sviptir grundvallarmannréttindum.
Með fáránlega ströngum reglum um sakaskrá var auðvelt að koma svörtu fólki á sakaskrá fyrir litlar eða engar sakir.
Republikanar í Wiscounsin breyttu lögum um kosningarétt í forsetakosningunum á dögunum þannig að Trump fékk meirihluta atkvæða í ríkinu.
Það, út af fyrir sig, réði ekki úrslitum í heildina, en söm var gerðin.
Og ef það á að flytja tvær til þrjár milljónir fólks af mexíkóskum uppruna nauðungarflutningum út úr Bandaríkjunum, á grundvelli þess að það sé á sakaskrá, eru aðferðirnar til þess að koma því á sakaskrá bæði fyrr og nú vel þekktar og æfðar.
Við Íslendingar eru því miður ekki alveg lausir við svarta bletti í sögu okkar.
Spánverjavígin 1615 voru ekkert annað en svívirðileg fjöldamorð.
Og Drekkingarhylur á Þingvöllum er kolsvartur blettur á helgasta stað Íslands.
Athugasemdir
Hér er talað um illa meðferð á kommúnistum og vonda Finna í Sovétríkjunum, en svo jafnræðis sé gætt væri ekki í lagi að minnast á svarta bletti í stjórnartíð kommúnista sjálfra í Sovétríkjunum?
Wilhelm Emilsson, 19.11.2016 kl. 01:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.