25.11.2016 | 17:09
Af hverju ekki á eftir sumardeginum fyrsta?
Það er nýbúið að halda Dag íslenskrar tungu hátíðlegan og fyrr í haust Dag íslenskrar náttúru.
Eins íslenskt og hugsast getur.
Á hverju vori er haldinn hátíðlegur elsti alíslenski hátíðisdagurinn, sumardagurinn fyrsti, ævinlega á fimmtudegi.
Af hverju er "bjartur föstudagur" ekki haldinn hátíðlegur á eftir honum ef það er svona mikil nauðsyn á slíkum degi?
Líklegt svar: Nei, þá er ekki hægt að nota þetta sem innspýtingu og upptakt í jólaverslunina.
Nei, við verðum að gera eins og Kaninn, kalla þetta "black Friday" næsta dag eftir Thanksgiving day.
Ekki þakkargjörðardaginn, nei, Thanksgiving day.
Þá er Kaninn að ná sér eftir hátíðarhöld Thanksgiving day og nota þennan föstudag sem innspýtingu fyrir sína jólaverslun og við verðum líka að gera það.
Við verðum að elta Kanann, það er algert möst.
Glöggur maður benti á á facebook í gær að Thanksgiving day hefði ekki aðeins verið tekinn upp til að þakka fyrir vel heppnað landnám á austurströnd Bandaríkjanna, heldur líka til að fagna því að búið væri að losa sig við Indíánana á svæðinu.
Við Íslendingar verðum þá að halda upp á það líka!
Jólin eru upphaflega norræn hátíð til að fagna hækkandi sól.
Þau heita jól hjá okkur, ekki Christmas. En það er kannski stutt í að við eltum Kanann og höfum heiti þessarar hátíðar á ensku eins og Black Friday. Það væri svo sem eftir öðru.
Þessi elsti uppruni jólanna breytir ekki því að jólin eru mesta hátíð kristinna manna og hátíð jólabarnsins og barnanna.
En að undanförnu hafa helstu fréttir um þau verið fólgnar í spám um það hve mörgum milljarðatugum meira verði eytt í jólabísnissinn en í fyrra.
Bísniss, bísniss, bísniss, american way.
Aðventan hefst á sunnudaginn og kom til Íslands með kristninni, þannig að það er komin löng hefð á hana.
En engin hugmynd hefur verið viðruð hjá kaupahéðnum um að virkja upphaf hennar. Black Friday færir þeim nefnilega heila blússandi verslunarhelgi og miklu meiri auglýsingu en fyrsti sunnudagur í aðventu.
Þótt Valentínusardagurinn sé af amerískum uppruna var þó ákveðin alþjóðleg þörf fyrir þann dag, líka hér á landi.
Kannski ekkert verra að láta hann verða að degi elskendanna en hvern annan.
En Thanksgiving day og Black Friday eiga ekkert meira erindi til Íslendinga en að öll þjóðin rjúki til að halda upp á þjóðhátíðardaga annarra þjóða af sömu ákefð og okkar eigin.
Aldrei séð þetta fyrr | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er að verða býsna löng hefð að bölva hinum "ammrísku" áhrifum. Staðreyndin er auðvitað sú að þetta "hentar" vel. Það er engin að leita að gjöfum eða slíku "glingri" daginn eftir sumardaginn fyrsta. Meira að segja eru líklega færri að leita að nýju sjónvarpi fyrir sumarið.
Auðvitað geta Íslendingar haldið upp á töðugjöld, sem er líklega það sem er næst Þakkargjörðardeginum.
Valentínusardagurinn er Ítalskur, Halloween er Evrópskur siður, sem líklega á rætur sínar að rekja til Írlands.
Jólin eru norræn og hafa verið haldin hátíðleg mun lengur en kristni hefur ríkt á þeim slóðum.
Æ fleiri "ammríkanar" tala reyndar ekki um "Kristmessu" lengur, heldur "X-messu" eða einfaldlega gleðilega "frídaga", en það er önnur saga.
En þær breytingar koma auðvitað til út af "fjölmenningarsamfélaginu" sem þykir framar flestu.
En ef út í það er farið eru þeir ekki margir "dagarnir" sem eru alíslenskir. Það er ekki eins og að hveitibolla með rjóma sé íslensk uppfinning.
G. Tómas Gunnarsson, 25.11.2016 kl. 17:36
Smá leiðrétting – eða eigum við að segja „correction“? Grikkland er kristin þjóð, en jólin eru ekki þeirra mesta hátíð. Páskarnir, upprisa Krists, er mesta hátíð Rétttrúnaðarkirkjunnar (Austurkirkjunnar). ΧΡΙΣΤΟΣ ΑΝΕΣΤΗ! - ΑΛΗΘΩΣ ΑΝΕΣΤΗ!
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 25.11.2016 kl. 18:03
Sumardagurinn fyrsti er ekki séríslensk uppfinning!
Den gammalnordiska kalendern hade ett sommarhalvår från Tiburtiusdagen den 14 april och ett vinterhalvår från Calixtusdagen den 14 oktober.
Sjá hér, mánaðarnöfn und alles.http://sv.wikipedia.org/wiki/Gammelnordiska_kalendern
Jón (IP-tala skráð) 23.4.2015
Þorsteinn Briem, 25.11.2016 kl. 18:54
"Það er hvergi sagt berum orðum í lögum en menn virðast hafa litið á fyrsta dag sumars sem upphaf ársins.
Það sést á því að aldur manna var áður jafnan talinn í vetrum og enn er svo um aldur húsdýra. Því var dagurinn haldinn hátíðlegur."
Steini Briem, 23.4.2015
Þorsteinn Briem, 25.11.2016 kl. 18:56
Hvaða mánaðanöfn voru notuð samkvæmt gamla íslenska tímatalinu og yfir hvaða tímabil náðu þau? - Vísindavefurinn
Þorsteinn Briem, 25.11.2016 kl. 18:57
"Tiburtiusdagen firades den 14 april. Den kallades förr, främst i Sydsverige, första sommardagen beroende på en gammal indelning av året i sommar- och vinterhalvår.
På runstavar märktes den ut med ett lövat träd."
Þorsteinn Briem, 25.11.2016 kl. 19:06
Það gefur auga leið að það sem Kanverjar kalla Thanksgiving eru hin alíslensku töðugjöld; hátíð til að fagna því að uppskeran er hirt og í hlöður komin.
Þorvaldur Sigurdsson (IP-tala skráð) 25.11.2016 kl. 22:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.