27.11.2016 | 13:22
"Bahrain norðursins" síbyljan. Hið ódrepandi Hrunæði.
Í áfergju sinni í að virkja öll helstu ósnortnu náttúruverðmæt Íslands sundur og saman hafa menn farið óravegu fram úr sjálfum sér í áratugi.
Þegar margumtalaður sæstrengur milli Íslands og Skotlands kom fyrst til umræðu fyrir um tveimur áratugum var skrifað fjálglegt Reykjavíkurbréf um málið á þá lund að "Ísland gæti orðið Bahrain norðursins," og í framhaldinu var farið að ræða um það að orkan væri svo gífurleg, að við Íslendingar gætum stjórnað orkuverði í Evrópu!
Setið við strenginn sem nokkurs konar ígildi olíufursta í skikkjum með vefjarhetti og deilt og drottnað á meginulandinu!
Þegar nánar var aðgætt kom í ljós að öll þessi gífurlega orka Íslands var langt innan við eitt prósent af orkuframleiðslu álfunnar!
En síbyljan holar steininn og enn er fimbulfambað með þetta mál á sömu nótum og ævinlega, og framlag fransks fyrirtækis til strengsins miklað mjög.
Þegar það er skoðað út af fyrir sig nemur það um einum þúsundasta af kostnaðinum, sem áætlaður er!
Rætt er um í tengdri frétt að sæstrengurinn gæti gert fyrirhugað kjarnorkuver í Hinkley óþarft.
Ekki er haft fyrir því að fletta upp hvað það á að verða stórt, en áætlað afl þess verður 3200 megavött eða hátt í fimm Kárahnjúkavirkjanir!
Sem sagt: Öll núverandi orkuframleiðsla Íslands næstum þrefölduð!
Það þurfti bankahrun til þess að slæva aðeins tryllingslegar hugmyndir manna um að Ísland gæti orðið Singapúr norðursins.
En ekkert virðist geta slævt hugsunina um "Bahrain norðursins".
Íslensk eldfjöll hiti upp bresk hús | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Enda ber þessi grein öll þau merki að málið er illa ígrundað og lyktar af græðgi. - Ekkert mark á þessu takandi. - Það er eins og að það sé gúrkutíð hjá blaðamönnum sem eru sífellt að magna upp nýja græðgisvæðingu í þessari þykjustu-uppsveiflu sem er á landinu um þessar mundir.
Már Elíson, 27.11.2016 kl. 14:06
Fjárhæðirnar sem ferðamannasprengingin hefur borið með sér fela að vísu í sér uppsveiflu, en í stað þess að fara þar að með gát og fyrirhyggju með því styrkja undirstöðuna, svo að hún bresti ekki, er kynt upp græðgisknúið gullæði, sem breiðist út um þjóðarlíkamann.
Á tímum síldaræðisins gerði ég lagið "Ég hef aldrei nóg" þar sem reynt var að fanga þennan anda hins takmarkalausa óþols, sem gegnsýrði allt þjóðlífið.
Fjórum árum síðar hafði okkur tekist í góðri samvinnu við Norðmenn að eyða síldarstofninum.
Ekki hafði mig grunað svo skjóta birtingu áhrínsorðanna í lok textans: "..óseðjandi eins og þró...þurrkast út, því ég hef aldrei nóg."
Ómar Ragnarsson, 27.11.2016 kl. 14:39
"Aðspurður hvort [raforkustrengur til Bretlands] muni hækka raforkuverð á Íslandi segir [Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar] að ekki sé þörf á því en ríkisstjórnin þurfi samt að finna leið til að halda verðinu niðri.
Ef norska leiðin yrði farin yrði orkuiðnaðurinn enn með góð kjör og langtímasamninga en verð til almenna markaðarins væri svo pólitísk ákvörðun.
Gert er ráð fyrir að um 20 ár tæki að greiða upp slíkan streng og endingartíminn yrði um 40 ár."
Lokaskýrsla ráðgjafahóps um lagningu sæstrengs til Bretlands, júní 2013, bls. 20
Þorsteinn Briem, 27.11.2016 kl. 17:59
Yfirleitt er ekki hægt að banna útlendingum að dvelja hér á Íslandi eða Íslendingum að veita þeim hér þjónustu samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, meðal annars um frjálsa för fólks og frjáls þjónustuviðskipti á svæðinu.
Og Kínverjar sem komnir eru inn á Evrópska efnahagssvæðið, til dæmis til Noregs, geta að sjálfsögðu flogið þaðan hingað til Íslands.
Hins vegar er hægt að meina glæpamönnum sem búa á Evrópska efnahagssvæðinu landgöngu hérlendis.
Þorsteinn Briem, 27.11.2016 kl. 18:01
17.2.2016:
"Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að umræðan um fjármögnun innviða ferðaþjónustunnar sé á villigötum.
"Hvernig stendur á því að stjórnmálamenn velti fyrir sér af hverju þurfi að eyða fjármunum í ferðaþjónustuna?," spurði hún á fundi sem Íslandsstofa boðaði til í morgun um samstarf og markaðssetningu erlendis á árinu 2016.
Helga sagði að stjórnmálamönnum ætti að vera ljóst að um góða fjárfestingu sé að ræða sem muni skila sér margfalt til baka.
Hún nefndi að innan 15 ára geti gjaldeyristekjur Íslands í ferðaþjónustunni numið svipaðri tölu og heildargjaldeyristekjur þjóðarinnar eru í dag.
Einnig sagði Helga að áætlað sé að gjaldeyristekjurnar í ferðaþjónustunni hafi aukist um 100 milljarða króna frá árinu 2013 til 2015.
"Stundum finnst mér eins og stjórnmálamenn séu ekki tilbúnir til að samþykkja þennan nýja veruleika," sagði hún.
"Það þarf að byggja upp innviði fyrir þessa atvinnugrein eins og aðrar.
Uppbyggingin nýtist okkur öllum vel.""
Umræðan um fjármögnun innviða ferðaþjónustunnar er á villigötum - Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar
Þorsteinn Briem, 27.11.2016 kl. 18:02
Ég lenti á spjalli við þjóðverja fyrir nokkrum árum. Þessi maður er yfirmaður í fyrirtæki sem séhæfir sig í að leggja bæði síma or rafstrengi neðansjávar um allan heim. Þessi maðir sagði mér að það væri ekki hægt að leggja rafstreng til Evrópu frá Íslandi. Aðalástæðuna sagði hann að dýpið væri svo mikið að allir rafstrengir myndu bara pressast í drullu undan fargi sjávarins. Ég þóttist skilja hvað maðurinn var að fara, vegna þess að ég hef tekið þátt í grálúðuveiðum á 500 til 700 faðma dýpi. Þar sem stábobbingar pressuðust í drullu og flotkúlur splundruðust undan fargi sjávarins.
Svo er annað að ég heyrði fyrir stuttu síðan að kaldur kjarnasamruni myndi líta dagsins ljós innan tveggja ára og ef það er rétt þá eru allar virkjanir á Íslandi verðlausar.
Steindór Sigurðsson (IP-tala skráð) 28.11.2016 kl. 03:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.