28.11.2016 | 13:15
Rúnturinn í Dagsljósi. "Ýkt bæld..."
Mikið er gott að einhver tók að sér það verk sem rétt var tæpt á að byrja í þættinum Dagsljósi fyrir 18 árum. Þá var staldrað stutt við á þremur rúntum, Á Akureyri, Akranesi og í Reykjavík.
Nú er verið að gera löngu þarfa heimildarmynd um fyrirbærið.
Tveir rúntar að minnsta kosti voru enn enn "í góðum gír", - 1. gír, á Akureyri og Akranesi á þessum árum, en í Reykjavík, þar sem forðum daga var lang stærsti rúntur sögunnar, var allt steindautt á sama tíma.
Ég lagðist í frekari rannsóknir á þessu og komst að þeirri niðurstöðu að ástæðan væri sú, að á blómatíma rúntsins var jafnmikil örtröð af fólki á gangstéttunum og af bílum á götunni.
Það tryggði höfuðatriði rúntsins, að sýna sig og sjá aðra.
Ég tæpti síðan á því í fréttum síðar árið 2006 hvort hægt yrði að breyta þessu með því að taka upp tvístefnuakstur á hluta rúntsins líkt og tíðkaðist á Akureyri og Akranesi og mældi meira að segja breidd gatnanna til þess að sjá hvort þetta gengi tæknilega upp.
Fékk þáverandi borgarstjóra í stutt spjall. Hugmyndin fékk ágætar undirtekir hjá honumm en dræmar hjá ýmsum, sem töldu þetta fela í sér stórvarasama mengun.
Mín mótrök voru þau að ekki mætti gleyma gildi þess að gera sér dagamun, rúnturinn sæi um að þjóna því hlutverki. 100 þúsund bílar ækju Miklubrautina á hverjum degi og nokkrir tugir eða kannski hundrað á rúntinum væri aðeins 0,001% af því.
Þegar ég var að taka mynd við Ingólfstorg af steindauðum rúntinum um kvöld gerðist skemmtilegt atvik.
Nokkrir strákar um fermingu voru þeir einu sem voru á ferli á torginu, þeystu eftir því á ofsahraða fram og til baka og sneru sér á punktinum með skrensi þegar þeir skiptu um stefnu.
Ég var með stóra myndavélarhlunkinn Sjónvarpsins á öxlinni, þegar einn strákurinn tók eftir mér útundan sér, snarhemlaði, tók vinkilbeygju, þeysti á fullu alveg að mér og snarhemlaði á síðustu stundu þannig að andlit hans var alveg upp við mitt.
Mér krossbrá, en hann glennti hvessti sjónir beint upp í andlit mér og við horfðumst beint í augu, þegar hann benti sallarólegur með fingri framan í mig og sagði: "Hey, þú. Ýkt bæld sjónvarpsstöð sem þú vinnur hjá."
Snarsneri sér síðan snöggt og var þotinn í burtu.
Hvernig datt ykkur þetta í hug? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Og ekki hefur sjónvarpsstöðin lagast, Aðeins tveir þættir sem horfandi er á, "Landinn og Ferðastiklur."
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 28.11.2016 kl. 17:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.