14.12.2016 | 20:15
Rússland, land hinna "miklu" leiðtoga.
Það segir oft meira um viðkomandi land og þjóð að koma þangað í heimsókn til jaðarsvæðis frekar en að fara til höfuðborgarinnar.
Tvær heimsóknir mínar til Rússlands, annars vegar síðsumars 1978 til Kolaskaga og Múrmansk, og hins vegar heimsókn til Demyansk, 5 þúsund manna bæjar í Valdai-hæðum um 250 kílómetra fyrir norðvestan Moskvu, í febrúar 2006.
Í seinni ferðinni var Rússi, sem hafði dvalið í nokkur ár á Íslandi, hjálparmaður minn og hafði hann aldrei farið í slíka ferð út frá höfuðborginni fyrr, út í dreifbýlið í fjötrum rússneska vetrarins.
Hann sagði mér að Moskva segði enga sögu um hið raunverulega Rússland með allar sínar víðáttur og firnindi.
Í Múrmansk mátti sjá sú ofuráhersla sem Rússar leggja á sögu sína, einkum "Föðurlandsstríðið mikla" 1941-1945.
Líklega á engin þjóð eins marga leiðtoga úr sögu sinni, sem hafa verið sveipaðir mikilleik í hástigi í sögubókum sínum.
Leiðsögufólk nefndi Bresnéf eins um guðdómlega veru væri að ræða 1978 en þar áður höfðu Stalín og Lenín verið dýrkaðir.
Úr fortíðinni segja nöfn eins og Pétur mikli og Katrín mikla sína sögu.
Flestir voru þessir þjóðarleiðtogar ósparir á að beita kúgun, harðræði og glæpaverkum til þess að efla völd sín, en engu að síður eru nöfn þeirra letruð gullnu letri eða að minnsta kosti stóru letri í rússneskri sögu.
Vladimir Pútin er á góðri leið með að skrá nafn sitt með stóru letri í rússneska sögu og nú þegar talinn valdamesti maður heims fjögur ár í röð.
Samt er Rússland fyrir neðan Spán í þjóðarauði og þjóðarframleiðslu og enn neðar á lista í flestu því sem notað er til að mæla velgengni borgara hinna ýmsu ríkja heims.
En Pútín hefur lag á að spila á þá staðreynd, að þjóðin ræður yfir öðru af tveimur langstærstu kjarnorkuvopnabúrum heims, og að Pútín eyðir frekar takmörkuðum fjármunum ríkisins frekar í herinn en í velferðarmál og innviði hins borgaralega samfélags.
Og Rússar voru þjóðin sem auðmýkti bæði Napóleon og Hitler þegar þeir kumpánar héldu að veldi sitt væri með sem mestum blóma.
Meirihluti Rússa virðist láta sér veldi og ofríki Pútíns vel líka. Ekki ónýtt ef nafn Pútíns bætist við nöfn Stalíns, Lenins, Péturs mikla og Katrínar miklu.
Pútín sagður valdamesti maður heims | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér detta í hug fleig orð Jónasar frá Hriflu: „Það má Stalín eiga, að hann lét mála góðar myndir!"
Wilhelm Emilsson, 14.12.2016 kl. 23:47
En alveg hræðilega hallærislegar auglýsingar.
Ómar Ragnarsson, 15.12.2016 kl. 22:12
Takk fyrir svarið :)
Wilhelm Emilsson, 16.12.2016 kl. 07:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.