Fáránlega villandi nafn á vegi, "fjallvegurinn Reynisfjall."

Af tali við fjölda fólks síðustu tvo daga hef ég sannfærst um hve mikinn misskilning eitt rangnefni á vegi getur leitt af sér: "Reynisfjall." 

Í sumum vasahandbókum er listi yfir fjallvegi landsins og hæð þeirra yfir sjó, og þar trónir einn efst: "Reynisfjall. 119 metrar." 

Íslendingar hafa oft gert grín að hæsta "fjalli" Danmerkur, Ejer Bavnehoj, sem er 173 metrar yfir sjávarmáli eða um 40% hærra en hið svonefnda Reynisfjall.

Að ekki sé talað um Himmelbjerget, sem er 157 metrar yfir sjávarmáli, eða þriðjungi hærra en títtnefnt Reynisfjall.

Misskilingur fólks, sem hneykslast á fáfræði útlendinga nær til meirihluta okkar sjálfra, eins og sést á algengum ummælum Íslendinga um fréttir af því að útlendingar hafi lent í vandræðum á Reynisfjalli:  "Hvað eru þessir vitleysingar að æða upp á fjöll í vitlausu veðri."

Þegar maður bendir þessum Íslendingum á að vegurinn liggi alls ekki upp á fjall, heldur meðfram Reynisfjalli, sé ekki hærri yfir sjó en sumir hlutar úthverfa Reykjavíkur og sé hluti af þjóðvegi 1, hringveginum, trúa margir því ekki í fyrstu.

Þarf töluverða fyrirhöfn til að taka upp vasabók sína og sýna hæðartöluna: 119 metrar, og benda á að Vatnsendahæð sé 144 metra yfir sjó.

Mýrdælingar sjálfir eru algerlega ósáttir við þessa nafngift og skilgreiningu Vegagerðarinnar en hafa greinilega lítið fengið aðgert.

Þessu þarf að kippa í liðinn, ekki aðeins til að rétt skuli vera rétt, heldur líka til að koma í veg fyrir útbreiddan misskilning.

Þess má geta að nokkrir hlutar hringvegarins, til dæmis frá Reykjadal í Þingeyjarsýslu til Mývatnssveitar liggur mun hærra yfir sjó en vegurinn rétt norðan við Vík í Mýrdal, og að sjálft Mývatn liggur í 277 metra hæð án þess að þessi kafli sé skilgreindur sem fjallvegur.  


mbl.is Þriggja bíla árekstur við Vík í Mýrdal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hljómar sértaklega furðulega í eyrum okkar sem hafa komið á Reynisfjall.

GB (IP-tala skráð) 26.12.2016 kl. 18:41

2 identicon

Hef komið mörgum sinnum uppá Reynisfjall. Þannig að kalla

þessa heiði fyrir norðan Reynisfjall, Reynisfjall, er

alveg fáránlegt.

Af hverju ekki nefna það Reynisheiði..???

Gott nafn og vísar vel í staðsetningu.

Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 26.12.2016 kl. 19:50

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þú ættir nú sjálfur að fara rétt með áður en þú gapir um fáránlegar villur hjá öðrum.

Hér er fjöldi fólks sífellt að leiðrétta þig, Ómar Ragnarsson.

Þorsteinn Briem, 26.12.2016 kl. 19:56

4 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Hæðir, tögl, flatir, skörð, börð, botnar, móar, mýrar, tún, engi, berjabrekkur, lautir og fleira.

Fá einhvern kunnugann til að benda á nokkra möguleika með skírskotun til örnefna, staðhátta eða atburða.

Velta möguleikunum aðeins fyrir sér.

Gangi ykkur allt í haginn.

Egilsstöðum, 26.12.2016  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 26.12.2016 kl. 20:42

5 Smámynd: Þórir Kjartansson

Fjallaskarðið þar sem vegurinn liggur inn af þorpinu í Vík á milli Höttu og Reynisfjalls er kallað einu nafni "Víkin"  Þar eru svo auðvitað mörg örnefni sem vegurinn liggur, s.s. Skjónugil, Grafartangi, Selhryggur, Selhryggsmýri, Messuholt, o.f.l. Veðurstöð Vegagerðarinnar sem á heimasíðunni er kölluð "Reynisfjall" er langt frá fjallinu sjálfu.  Svæðið norðan við enda Reynisfjallsins er kallað "Fjallsendi" og með góðum vilja má kalla að hún sé innan þess en nærtækast er þó að segja að hún standi við Saurukeldubotna. Eini staðurinn sem vegurinn kemst í snertingu við Reynisfjallið sjálft er brekkan upp af þorpinu sem liggur í austurhlíðum þess.

Þórir Kjartansson, 26.12.2016 kl. 21:07

6 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Gott er að nafn feli í sér upplýsingu, birtu, von og kærleika, en ekki hið gagnstæða.

Ef við merktum alla staði eftir mistökum og vandræðum okkar, þá væri lítið gaman í ferðalaginu.

höfðar, dalir, skriður, kílar, keldur, götur, traðir, ásar, skógar, holt, lækir, fossar.

Egilsstaðir, 26.12.2016  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 26.12.2016 kl. 21:23

7 identicon

Takk Þórir fyrir þessi fróðleg heit.

Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 26.12.2016 kl. 21:37

8 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Bílarnir voru fastir á Fjallsenda(vegi) við Reynisfjall,

frá þér,  Þórir Kjartansson

Smá leikur.

Egilsstöðum, 26.12.2016  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 26.12.2016 kl. 21:38

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er óskiljanlegt hjá Steina Briem að halda því fram að "fjöldi fólks sé að leiðrétta mig" í þessu máli. 

Ég hef enn ekki séð eða heyrt einn einasta mann halda því fram að umræddur staður heiti Reynisfjall eða eigi að heita það. 

Sjálfur hef ég ekki sagt eitt einasta orð um það hvað svæðið ætti að heita en fólk er að koma með tillögur um eitthvað annað nafn en "Reynisfjall." 

Ómar Ragnarsson, 27.12.2016 kl. 03:09

10 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

 Hvernig sem menn vilja jagast útaf þessu, þá er það þannig að miðað við aðstæður þá var þarna vanbúið fólk á vanbúnum bílum.  Væntanlega hafa margir af þessum bílum verið frá bílaleigum. Það væri engin goðgá að bílaleigur létu leigutaka skila leiðar áætlun tld. Fyrir fyrstu vikunna að minnsta kost yfir vetrar tíman. 

Þetta gæti verið nánast eins og krossapróf og því hægt að hafa á mörgum tungumálum og mögulegt að gera það í tölvu hjá leigusalanum áður en leigutakinn fer af stað. Þá gæti leigusalinn gefið upplýsingar og veitt ráð og þar með fækkaði mögulega vandræða og óhappa tilfellum.    

Hrólfur Þ Hraundal, 27.12.2016 kl. 10:46

11 Smámynd: Þórir Kjartansson

Á heimasíðu Vegagerðarinnar er veðurstöð VIÐ Lómagnúp. Sama mætti segja um veðurstöðina í Fjallsendanum VIÐ Reynisfjall. Gæti verið góð lausn á þessu því auðvitað er gott að kenna þetta við Reynisfjallið sem allflestir þekkja.

PS: En Ómar, þú værir kannski svo vænn að upplýsa okkur um hver er á bak við þennan Steina Briem. Hann virðist leggja þig í einelti cool

Þórir Kjartansson, 27.12.2016 kl. 11:20

12 Smámynd: Þórir Kjartansson

Réttilega segir þú Ómar að "Víkin" er ekki mikill fjallvegur ef eingöngu er horft á hæð yfir sjó. En eins og dæmin sanna eru þarna ótrúlega mörg umferðaróhöpp. Þarna er mjög sviptivindasamt og oft krapi og ísing á veginum. Þetta er oft eini staðurinn sem flutningabílstjórar og aðrir þurfa að keðja bílana alla leið frá R-vík til Reyðarfjarðar. Við heimamenn vitum af mörgum óhöppum og líka atvikum þar sem hefur legið við stórslysum á þessum kafla en hafa aldrei ratað í fréttir. Ég held að menn ættu ekki að reyna að gera lítið úr hættunum sem svo sannarlega eru fyrir hendi á þessum vegspotta og auðvelt er að komast hjá með því að gera göng undir Reynisfjallið. Það er líklegasta einhver arðbærasta vegaframkvæmd sem horft er til á landinu í dag. Umferðin í gegnum þorpið er líka orðin illþolandi en myndi leysast við jarðgöng.

Þórir Kjartansson, 27.12.2016 kl. 11:38

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Steini Briem hefur aldrei verið undir nafnleynd, sem er ólíkt því sem ýmsir hælbítar sem vega úr launsátri stunda. Ég veit að Steini hefur meðal annars starfað sem blaðamaður, en það er aukaatriði, hann heitir réttu nafni Þorsteinn Briem og það nægir mér. 

Ómar Ragnarsson, 27.12.2016 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband