Það einfaldasta er áhrifaríkast, - og maðurinn besta myndefnið.

Ein mynd getur sagt meira en þúsund orð. Þetta er þekkt speki. Myndin af sýrlenska drengnum er eins einföld og hugsast getur, ein persóna, einn stóll. En blóðið og sárin segja allt og með því að taka myndina þannig að rýmið í kringum drenginn er haft frekar mikið, verður einsemd hans átakanlegri. 

Hugsanlega er mynd Finnboga Rúts Valdimarssonar af líkum þeirra 39, leiðangursstjóranum fremstum, sem fórust með franska rannsóknarskipinu Pourqouis pas? við Mýrar í ofviðri 16. september, ljósmynd 20. aldarinnar. 

Myndin af Vestmannaeyjakirkju og hliðinu með áletruninni "Ég lifi og þér munuð lifa" með eldstólpa Heimaeyjargossins í baksýn 1973 kemur líka til greina. 

Mér tókst ekki að taka ljósmynd af því sem blasti við mér og einum á flugleið neðar skýjum til Eyja fyrstu gosnóttina, ljósaröð bátanna, sem sigldu með flóttafólk á þilförum í átt frá Heimaey í baksýn með kaupstaðinn líkt og í björtu báli logandi gígaraðarinnar að baki.

Í rúst eins hússins, sem snjóflóðið í Neskaupstað eyðilagði í desember 1974, var áhrifamikið og einfalt myndefni sem ég gat ekki fengið mig til að festa á filmu.

Þá hafði ég ekki hugsað út í það að slíka mynd á samt að taka, því að aðalatriðið er hvort og hvenær hún verður gerð opinber.

Ef ég hefði tekið hana myndi ég hafa sett 75 ára frest á birtingu hennar, en hún hefði getað orðið táknmynd fyrir snjóflóð 20. aldarinnar.

Ég var búinn að ljúka öllum undirbúningi fyrir það að fljúga einn með kvikmyndatökuvél á tveggja hreyfla flugvél vorið 1976 þegar gott veður kom á miðunum við Hvalbak og búast mátti við tíðindum í þorskastríðinu. Flugvélin var af gerðinni Cessna 210 og gat verið á lofti í allt að tólf klukkustundir ef því var að skipta.

Við athugun hafði komið í ljós, að þegar gott veður kom á miðunum eftir brælu, urðu árekstrar og átök þar á milli breskra herskipa og íslenskra varðskipa. 

Að kvöldi sama dags var búið að setja á dagskrá Kastljósþátt um "svörtu skýrsluna" svonefndu hjá fiskifræðingum, sem ég hafði undirbúið og átti að stýra, og hefði orðið að aflýsa þættinum ef ég færi í hina tvísýnu kvikmyndatökuferð og óhlýðnaðist með því fréttastjóranum.

Yrði kannski rekinn í framhaldinu. 

Ég guggnaði á því þótt ég teldi 90 prósent líkur á því að ég myndi finna varðskip og herskip og ná myndum af þeim.

Í ljós kom að þarna varð alvarlegasta og lang myndrænasta atvik allra þorskastríðanna, árekstur Falmouths og Týs, sem næstum því hvolfdi, en rétti sig við á fullri ferð og klippti aftan úr togara. Efni í fréttakvikmyndarskot aldarinnar. 

Dæmi um magnaða ljósmynd, sem tekin var en hefði ekki átt að birta fyrr en 75 árum síðar, er mynd af sundurtættu framsæti flugvélar, sem fórst við árekstur á fjall.

Hún var hins vegar birt sem forsíðumynd í einu dagblaðanna, því miður.   


mbl.is Bestu fréttamyndir ársins 2016
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Harla einkennilegt ef ekki mætti birta myndir af nýjum flugslysum og allri eyðileggingunni sem þeim fylgja, enda er slíkt gert mörgum sinnum á ári hverju, bæði í dagblöðum og sjónvarpi.

Flugvélar fljúga yfirleitt oft á dag yfir miðbæ Reykjavíkur og geta hrapað þar eins og annars staðar, enda eru flugslys einna algengust í aðflugi að flugvöllum.

Í gær:

Voru meðvitaðir um eldsneytisskortinn

Flugslysið þurrkaði megnið af kólumbíska fótboltaliðinu út.

Þorsteinn Briem, 27.12.2016 kl. 18:44

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Lestu það sem ég skrifa. Ég hef ekkert á móti víðum myndum af flugvélarflökum  var eins og þú birtir. 

Flugvélin sem ég er að skrifa um, var aðeins með fjóra um borð og birt var nærmynd af öðru framsætinu þannig að ættingjar og vinir þess sem þar tættist í sundur voru sérstaklega áreittir með þessari óþörfu myndbirtingu. 

Ómar Ragnarsson, 27.12.2016 kl. 18:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband