28.12.2016 | 20:10
Litlir og einfaldir hlutir ráða oft úrslitum.
Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi, segir máltækið. Í flugi er það oft einföld atriði sem geta valdið stórfelldum vandræðum.
Dæmin eru mýmörg en nefna má nokkur:
Á ýmsum flugvélum skiptir notkun vængbarða eða flapa oft öllu máli um fluggetu þeirra.
Þegar búið er að setja þennan vængjabúnað í lendingarham miðast allt við að flugvélin geti lent á sem minnstum hraða og komist af með sem styst lendingarbrun, en á móti kemur, að þegar komið er fram yfir ákveðinn stað verður ekki hægt að hætta við lendingu.
Svo mikill munur er á minnsta mögulega flughraða með fullum flöpum eða engum flöpum, að þegar vökvakerfi DC-10 vélar varð óvirkt á flugi í Ameríku fyrir um þremur áratugum, varð að lenda á 400 kílómetra hraða í stað um 230 kílómetra hraða. Afleiðingin varð brotlending þar sem vélin rifnaði í þrjá hluta og um helmingur farþega fórst.
Flugmönnum farþegaþotu í flugtaki á bandarískum flugvelli gleymdu að setja vængbörðin í flugtaksstöðu og sjálfvirkur búnaður, sem átti að setja flapana niður fyrir þá, hafði verið bilaður þannig að flugvélin náði aldrei að klifra eftir flugtak.
Þvottamaður á flugvelli setti lítt áberandi límmiða yfir örlítið gat á flugvélarskrokki, sem er á öllum flugvélum til að tryggja að réttur loftþrýstingur sé á mælikerfi vélarnnar.
Hann gleymdi að taka límmiðann í burtu eftir þvottinn og flugmönnum sást yfir hann.
Fyrir bragðið varð mælakerfi vélarinnar ónothæft þegar komið var í hæð úti yfir Kyrrahafi og loftið utan vélarinnar varð æ þynnra, flugmennirnir misstu stjórn á henni og hún hrapaði í hafið og fórst.
Tímamót urðu í rannsóknum á flugslysum þegar fyrstu farþegaþotur heims, Comet, fórust hver af annarri og allar við sams konar skilyrði, þegar komið var í farflughæð.
Brak Cometþotu, sem fórst yfir Miðjarðarhafi, var fiskað upp og raðað saman að nýju. Þá kom í ljós að vegna svonefndrar málmþreytu gáfu sig nokkur hnoð, sem héldu flugvélarskrokknum saman framarlega að ofanverðu og þar með rifnaði skrokkurinn í sundur.
Á flugsýningu í París sumarið 1997 var metaðsókn þann dag þegar sýna átti einstæðar listir á rússneskri Sukhoi 37 orrustuþotu, sem tóku öllu fram í flugheiminum, vegna snilldarlegrar hönnunar og notkunar á svonefndum stefnukný (vector thrust).
Þotan fór í loftið, flaug í nokkra hringi og dýfur skammt frá flugvellinum, en kom síðar aftur inn til lendingar. Síðan var tilkynnt: Ekki tókst að taka hjólin upp og því var ekki hægt að framkvæma fluglistirnar!
Varla er hægt að hugsa sér neyðarlegra en að vandræði við jafn einfalt atriði og að taka hjól upp lami gersamlega fluggetu einhverrar flóknustu og fullkomnustu orrustuþotu veraldar.
Hrapaði vegna bilana í vængjabúnaði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mig minnir að Hrímfaxaslysið við Fornebuflugvöll í Osló, vorið 1963, hafi stafað af því að væng- eða stélbarðar verkuðu ekki rétt við lendingu.
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 28.12.2016 kl. 21:02
Orsök Hrímfaxaslyssins var trúlega annaðhvort það að einhver skrúfanna rangventist eða þá að stjelið var ísað, sbr. wikipedíu.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 28.12.2016 kl. 21:37
Sonur eins flugstjórans, sem flaug Viscount vélunum, sagði að faðir sinn hefði frekar grunað skrúfuna en stélið.
En vegna slysa af völdum ísingar held ég að fleiri hallist að þeirri skýringu.
Ef nútíma kerfi hefði verið í gildi á þessum tíma er hugsanlegt að búið hefði verið að gera ráðstafanir í tíma til að forðast ísingarslys.
Á þeim tíma tók aðgerðarferlið meiri tíma en nú.
Ómar Ragnarsson, 28.12.2016 kl. 22:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.