5.1.2017 | 20:55
Einangrunarstefna hefur ekki reynst farsæl.
Forsetar Bandaríkjanna hafa forðast að taka upp einangrunarstefnuna, sem var aflögð árið 1941 með "láns- og leigulögunum", hervernd Íslands og Atlantshafsfundi Roosevelts og Churchills.
Síðan hefur alþjóðasamvinna verið meginstefið í 75 ár í valdatíð alls 23ja Bandaríkjaforseta, 12 demókrata og 11 repúblikana.
Einangrunarstefna Bandaríkjamanna gagnvart Evrópu gaf Þjóðverjum færi á því 1914 að gera tilraun, sem var nærri því að heppnast, til að ná Evrópu undir sig í Fyrri heimsstyrjöldinni og hún endurnýjuð einangrunarstefna gaf Hitler svipað færi 1939.
Á miðjum sjöunda áratugnum söng Tom Lehrer svonefnt "MLF-Lullaby" þar sem hann setti sig í spor þeirra ráðamanna vestra sem reyndu að róa þá sem voru áhyggjufullir vegna þess að Þjóðverjar fengju taka þátt í ákvörðunum um notkun "Multilateral force", sameiginlegs kjarnorkuherafla.
"One of the fingers on the button will be German", söng Lehrer en bætti við:
"Once all the Germans were warlike and mean /
but that will not happen again. /
We tought them a lesson in 1918 /
and they´ve hardly bothered us since then! /
Einangrunarstefnan byggðist á því að "hollur væri heimafenginn baggi" og að stuðningur við alþjóðasamtök og önnur ríki væru íþyngjandi útgjöld fyrir Bandaríkin.
Marshall-aðstoðin í kjölfar Seinni Heimsstyrjaldarinnar til stríðshrjáðra landa í Evrópu byggðist á hugsun sem var mun dýpri framsýnni en hin hráa einangrunarstefna, það er, að það yrði mikil upplyfting fyrir Bandaríkin þegar Evrópuríkin myndu miklu fyrr úr kútnum en annars hefði orðið þegar fjárfestingin í endurreisninni færi að skila hagnaði og framförum.
Fyrir bragðið urðu Ameríkuþjóðirnar og Evrópuþjóðirnar samstíga í einhverri hröðustu uppsveiflu og endurreisn allra tíma á sjötta og sjöunda áratugnum og raunar Japanir einnig.
Það var samstarf á sviði Sameinuðu þjóðanna sem gerði kleyft að grípa til aðgerða alþjóðlegs herliðs til að aftra því Norður-Kóreumenn næðu allri Suður-Kóreu á sitt vald sumarið 1950 með innrás í landið, og það var víðtækt samstarf Bandaríkjamanna undir forystu George Bush eldri 1991 sem stuðlaði að farsælli lausn þegar Saddam Hussein lagði Kuveit undir sig með hervaldi.
Það er kaldhæðnisleg mótsögn fólgin í því þegar Donald Trump virðist taka veldi Bandríkjanna á fyrrnefndum áratugum sem fyrirmynd að því sem hann kallar "að gera Bandaríkin stórkostleg á ný."
Veldi Bandaríkjanna á þessum áratugum byggðist nefnilega á andstæðu einangrunarstefnunnar, á því að þau hefðu forystu og tækju öflugan þátt í starfi alþjóðastofnana á borð við Sameinuðu þjóðirnar og legðu mikið af mörkum í alþjóðasamvinnu.
Auðvitað var þetta alþjóðlega lögregluhlutverk eins og það var stundum nefnt í gagnrýnistóni, oft á tíðum fólgið í skaðlegri íhlutun í innanríkismál annarra ríkja eða stuðningi við einvalda og harðstjóra, en jákvæðu hliðarnar voru fleiri.
Einangrunarstefnan í Bandaríkjunum reyndist tvívegis illa á síðustu öld og það mun ekki reynast betur í þriðja sinn ef einhverjum verður gefið færi á að stíga inn í það tómarúm sem stikkfrí afstaða Kana mun skapa.
Í hin fyrri tvö skipti nýttu herská öfl í Þýskalandi sér það að geta stigið inn í tómarúmið og valsað þar um.
Tómarúmið skaðlegt bandarískum hagsmunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Trump(etinn) er fyrst og fremst kjaftaskur og gerir væntanlega ekki nema brot af því sem hann segist ætla að gera, þegar búið er að leiða honum fyrir sjónir hversu heimskulegt það er.
Þorsteinn Briem, 5.1.2017 kl. 21:10
Trump(etinn) verður ekki einráður í Bandaríkjunum.
Bandaríska þingið skiptir til að mynda einnig miklu máli.
Þorsteinn Briem, 5.1.2017 kl. 21:14
Sæll Ómar.
Það sér á að þú skulir hafa þolað þá raun að
hlusta á einhliða áróður fréttastofu RÚV
gagnvart Trump í heilt ár sem síðan endaði
í orðum fréttaritara þess sem sagði 'vitleysing'
vera kominn til valda i Bandaríkjunum.
Orðalagið "að gera Bandaríkin stórkostleg á ný,"
er enskuskotið og ekki einasta aðfinnsluvert heldur
ótækt með öllu.
Engum duldist það sem á hlýddu í þessa 12 mánuði að
Trump ætlar sér að sjá þann draum rætast að Bandaríkin
verði stórveldi á ný; ríkjasamband sem mark er takandi á
en ekki einhver gullbræðsla fyrir gerspilltar valdafígúrur
sem þarna hafa álpast inn á undanförnum árum.
En auðvitað finn ég til með þér og fréttastofunni svokölluðu
því auðséð er að harmur er kveðinn að þessu fólki og
hinn stórgóði þáttur Lestin það eina sem getur fengið
menn til að brosa gegnum tárin á þessum síðustu og
verstu tímum. Og dugi þetta ekki þá er alltaf hægt að
æla í takt við áramótaskaupið!
Húsari. (IP-tala skráð) 6.1.2017 kl. 00:25
Betri þýðing á "to make America great again" óskast.
Ómar Ragnarsson, 6.1.2017 kl. 00:28
Sæll Ómar.
Áður en Ólafur digri Haraldsson kom til sögunnar
þótti ríkið hafa harað niður
og þyrfti að reisa það úr öskustó til vegs og
virðingar að nýju.
En þessarar þýðingar er ekki þörf því orðalagið
vísar beint til þess að sjá fyrir sér Bandaríkin
stórveldi eftir að það hafi harað niður í tíð Obama.
Engum getur dulist að Trump á við þetta og annað ekki:
að Bandaríkin verði stórveldi; skipi sér þann sess meðal þjóðanna
að vera í fararbroddi sem helsta stórveldi veraldar.
Húsari. (IP-tala skráð) 6.1.2017 kl. 01:29
Fínn pistill, Ómar.
Orðið "great" þýðir mikill, og þá er auðvelt að búa til íslenska þýðingu. "Stórkostleg" er bara mjög gott en kannski ekki þjált, kannski of gildishlaðið.
Már Elíson, 6.1.2017 kl. 20:34
MÁr! Það er óþjált vegna þess
að það er enskuskotið; er ekki íslenska
auk þess að vera hrein hugsanavilla!
Þú ert sjálfur nær hinu rétta og finnur
að eitthvað stemmir ekki við þetta orðalag!
Annars má einu gilda um þennan pistil Ómars
því hann kaus að svæfa hann í stjórnborðinu
ásamt öðrum til svo líkur eru til að honum hafi
þótt lítið til hans koma þegar upp var staðið.
Það er eins með Ómar og Morgunblaðið: Hvorugt
þekkir mistök og kannast aldrei við þau jafnvel
þó svo þau séu hverju barni augljós og sýnt
hafi verið fram á þau með óhrekjandi rökum.
Húsari. (IP-tala skráð) 7.1.2017 kl. 01:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.