9.1.2017 | 09:15
Fyrirsjáanlegt: Gættinni ekki alveg lokað, heldur smárifa opin?
Rökin fyrir því að skella ekki öllum hurðum hugsanlegrar aðildar að ESB með látum hafa verið þau að sá tími geti komið að skást sé að þjóðin kveði beint uppúr með það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvað gera skuli í málinu á því stigi sem það er nú.
Með slíkri atkvæðagreiðslu verði hægt að skera úr um þetta mál, sem hefur klofið þjóðina og flesta stjórnmálaflokka í bráðum aldarfjórðung og valdið með því endalausum vandræðum við myndun ríkisstjórna, gerð stjórnarsáttmála og framkvæmd stjórnarstefnu.
Strax 2009 hefði átt að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort sækja skyldi um aðild með því skilyrði að tryggt yrði að enginn aðildarsamningur yrði staðfestur fyrr en eftir bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.
Á þessum tímapunkti horfðu menn ekki nógu langt fram í tímann.
Ef niðurstaðan við myndun ríkisstjórnar nú verður eitthvað lík því sem spurst hefur út, þýðir það að allir aðilar stjórnarinnar eru þó sammála um það að taka enga áhættu, heldur skilja málið eftir þar sem það er, í salti eða á ís eftir því hvernig það er orðað, og sumir geta túlkað sem svo, að ekki hafi orðið fullkomin og endanleg slit á því umsóknarferli, sem í gang fór 2009 en strandaði síðan.
Ef nú færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort klára skuli samningaferlið með skilyrði um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um hugsanlegan samning, taka allir aðilar málsins áhættu, líka þeir sem vilja þjóðaratkvæðagreiðslu nú um aðildarumsóknina.
Þess vegna er það ekki óeðlileg niðurstaða að allir hopi í raun á hæli og með því að málinu sé slegið á frest um ótilgreindan tíma.
Þrátt fyrir yfirlýsingar þáverandi utanríkisráðherra voru margir harðir andstæðingar ESB-aðildar óánægðir með það að ekki skyldi skellt öllum hurðum í málinu.
Evrópumálin sett á ís | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Spillingin er orðin Íslands mesti fjandi og kjósendur virðast ekki hafa vitsmuni né þroska til að sigrast á þeim andskota. EU væri hinsvegar að mínu mati rétt spor í þá átt að gera Ísland að alvöru lýðræðisríki, en ekki bjánalýðræði Íhaldsins, Engeyinga og þeirra kjölturakka.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 9.1.2017 kl. 11:06
Markhópur krata eru hinir ríku og frægu. Hér má sjá fulltrúa þeirra grautfúlan með verðlaunin sín.
http://www.mbl.is/folk/frettir/2017/01/09/let_trump_heyra_thad/
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 9.1.2017 kl. 11:36
Píratar, Vinstri grænir, Samfylkingin, Viðreisn og Björt framtíð eru með meirihluta á Alþingi og geta hvenær sem er samþykkt að halda skuli þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Niðurstaða þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu yrði þó ekki bindandi fyrir Alþingi, enda þótt það gæti samþykkt að virða niðurstöðuna.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar yrði einungis með eins þingmanns meirihluta og getur að sjálfsögðu fallið hvenær sem er á kjörtímabilinu, þannig að ný ríkisstjórn yrði mynduð á tímabilinu eða kosið aftur áður en því lýkur.
Þorsteinn Briem, 9.1.2017 kl. 17:34
Að segja upp aðildar umsókn á einörðu skíru máli eru bara venjulegir samskipa hættir manna og ekkert dónalegt við það.
Ég veit ekki hverjir það voru sem þú segir að hafi viljað rjúka á dyr með hurðaskellum frá þessu máli, en það hefði verið jafn heimskulegt og sú aðferð sem við höfð var og þar urðu forustumenn sem fóru með þetta mál sjálfum sér og okkur íslendingum öllum til verulegrar minnkunar.
Hrólfur Þ Hraundal, 9.1.2017 kl. 18:53
Hurðum hugsanlegrar ESB aðildar var lokað og læst þegar nýja stjórnarskráin var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu og tók í kjölfarið gildi árið 1944.
Guðmundur Ásgeirsson, 9.1.2017 kl. 19:13
"Hurðum hugsanlegrar ESB aðildar var lokað og læst þegar nýja stjórnarskráin var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu og tók í kjölfarið gildi árið 1944."
Merkileg söguskoðun. Eftir þessu er útilokað að skipta um skoðun hafi einhverntímann ákvörðun verið tekin. En þó er í því ljósi afar sérkennilegt að hinir vísu herrar sem sömdu stjórnarskrána frá 1944 höfðu í henni endurskoðunarákvæði og leiðir til breytinga og voru þeir liðir samþykktir með yfirgnæfandi meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu og tóku gildi með hinum, að foreldrum mínum viðstöddum, eftir hádegi þann 17. júní 1944. Þau höfðu þá að vísu tekið þá ákvörðun að ganga ein í lífinu en skiptu um skoðun eftir að þau kynntust og bjuggu eftir það saman í hjónabandi meðan bæði lifðu.
Af þessu leiðir vitaskuld að heimilt er að ganga til hverra þeirra samninga sem þjóðinni þykir við eiga og má þá breyta stjórnarskrá til hæfis hverju sinni, enda gilda breytingaákvæðin sem sagt enn.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 9.1.2017 kl. 21:34
Þorvaldur S.
Ef ég gef mér að þú sért ekki bara að reyna að snúa út úr fyrir mér, þá sýnist mér að þú áttir þig ekki á því sem þarna býr að baki.
Ég var alls ekki að halda því fram að ekki mætti að skipta um skoðun eða að allar breytingar á stjórnarskrá væru útilokaðar. Þvert á móti eru einmitt ætluð til þess þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem kveða á um hvernig henni má breyta. Það er hægt að gera með því að Alþingi samþykki lög um viðkomandi breytingu, svo þarf að boða til kosninga, og eftir það þurfa sömu lög að vera staðfest aftur af nýkjörnu Alþingi svo breytingin taki gildi.
Lykilatriði í þessu er að til að breyta stjórnarskránni þarf að setja lög um breytinguna, og til þess að þau lög geti öðlast gildi svo bindandi séu þá þurfa þau að vera sett með stjórnskipulega réttum hætti eins og öll önnur lög þurfa. Lög sem sett eru í andstöðu við ákvæði stjórnarskrár eru hins vegar að vettugi virðandi (með öðrum orðum ógild).
Svo er nefninlega annað ákvæði í stjórnarskránni sem þú ert að líta fram hjá, en það er 47. gr. hennar þar sem segir að sérhver nýr þingmaður skuli vinna drengskaparheit að stjórnarskránni, þegar er kosning hans hefur verið tekin gild, eins og þeir hafa allir gert síðan stjórnarskráin tók gildi.
Þar sem stjórnarskráin er æðsta réttarheimild íslenskra laga, leiðir af 47. gr. að þingmenn mega ekki samþykkja nein lög sem myndu lækka hana að tign og gera einhverja aðra réttarheimild henni æðri, því þá væru þeir að brjóta gegn drengskapareið sínum við stjórnarskránna. Þetta hafa margir núverandi þingmenn staðfest í þingræðum sem þeir héldu á síðasta haustþingi þegar til umræðu var mál þar sem reyndi einmitt á rétthæð stjórnarskrárinnar.
Þannig gætu lög sem gerðu einhverja aðra réttarheimild æðri stjórnarskránni, svo sem stofnsáttmála Evrópusambandsins, aldrei verið sett á stjórnskipulega réttan hátt og því aldrei orðið bindandi sem gild lög, vegna þess að þau myndu brjóta gegn drengskaparheiti þingmanna og þar með gegn 47. gr. stjórnarskrárinnar. Slík lög gætu því aldrei orðið annað en ólög.
Höfundar stjórnarskrárinnar virðast hafa séð fyrir þann möguleika að á þetta kynni að reyna í framtíðinni, og þess vegna innbyggðu þeir þennan varnagla með lítt áberandi hætti. Mikil var sú snilld þeirra!
Góðar stundir.
Guðmundur Ásgeirsson, 9.1.2017 kl. 23:24
Jæja Guðmundur. Þetta er vitaskuld hugsanleg lagatúlkun, en fremur fjarstæðukennd. Og næsta víst að fáir lögfræðingae eru henni sammála. En sussum hafa sést fráleitar lagatúlkanir áður svosem sú sem gerði ráð fyrir að menn gætu kosið utankjörfundar í hvaða kjördæmi sem væri.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 10.1.2017 kl. 15:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.