9.1.2017 | 23:45
Alþýðuflokkurinn var tæpur 1944.
Nýsköpunarstjórnin svonefnda 1944-1946 var þriggja flokka stjórn eins og Engeyjarstjórnin verður nú.
Alþýðuflokksmenn skiptust í tvær næstum jafnar fylkingar þegar verið var að mynda Nýsköpunarstjórnina, þar sem helstu áfhrifamennirnir í Sjálfstæðisflokknum og Alþýðubandalaginu voru hins vegar samstíga um stjórnarmyndunina.
Í tímabili leit ekki vel út með að þessi stjórnarmyndunartilraun Ólafs Thors heppnaðist vegna tregðu krata til að vinna með "kommúnistum."
Þar að auki studdu fimm Sjálfstæðisþingmenn ekki stjórnina, - gátu heldur ekki hugsað sér að styðja stjórn með kommúnistum.
Samkvæmt ævisögu Ólafs Thors "fiffaði" hann djarfa fléttu til að koma krötum inn í stjórnina með því að gera þeim svo ævintýralegt tilboð um byltingu í almannatryggingamálum, að þeir gátu ekki hafnað henni.
Tilboð Ólafs gekk mun lengra en kommarnir höfðu búist við.
Þegar stjórnin hafði verið mynduð voru kratar til friðs í samstarfinu, en kommarnir gengu úr stjórninni 1946 vegna grundvallarágreinings milli þeirra og samstarfsflokkanna í utanríkismálum, nánar tiltekið varðandi Keflavíkursamninginn svonefnda.
Þegar Engeyjarríkisstjórnin tekur við völdum á morgun er alls óvíst að það verði þingmenn Bjartrar framtíðar sem rjúfi eininguna í henni, þótt baklandið sé klofið.
Þingmenn Bjartrar framtíðar eru líka nþað fáir, að alls óvíst er að einn eða tveir vilji kljúfa sig frá eftir að traustur meirihluti baklandsins hefur samþykkt stjórnarþátttöku.
Úrslit í málum ríkisstjórna ráðast nefnilega tæknilega séð á þingfylgi, þótt harðsnúið bakland geti stundum haft áhrif.
Saga Bjartrar framtíðar er vörðuð þeirri skoðun, að skárra sé að komast í valdaaðstöðu til að hafa áhrif en að vera í stjórnarandstöðu og ráða engu.
Þetta hafa þeir sýnt í þremur af fjórum fjölmennustu sveitarfélögum landsins.
Þar að auki sýnist ljóst að ekki verði hægt að mynda miðju-vinstri stjórn.
Björt framtíð samþykkti sáttmálann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Saga Bjartrar framtíðar er vörðuð þeirri skoðun, að skárra sé að komast í valdaaðstöðu til að hafa áhrif en að vera í stjórnarandstöðu og ráða engu."
Björt framtíð er miðflokkur og ekkert undarlegt við það að flokkurinn velji ýmist að vera í sveitarstjórnum og ríkisstjórnum með hægriflokkum eða vinstriflokkum.
Þorsteinn Briem, 10.1.2017 kl. 04:52
"Þar að auki sýnist ljóst að ekki verði hægt að mynda miðju-vinstri stjórn."
Viðreisn er frjálslyndur hægriflokkur og því yrði ríkisstjórn Viðreisnar, Bjartrar framtíðar, Pírata, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar ekki "miðju-vinstri" stjórn.
Og Viðreisn er með stærri þingflokk en miðflokkurinn Björt framtíð.
Þorsteinn Briem, 10.1.2017 kl. 05:05
Fólk sem kýs Sjálfstæðisflokkinn aðhyllist einstaklingshyggju, frjálslyndi, frjálshyggju eða íhaldsstefnu.
Meira kraðak er nú varla til í einum stjórnmálaflokki og samstaðan oft lítil, enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn margsinnis klofnað og brot úr flokknum myndað ríkisstjórn með öðrum stjórnmálaflokkum.
Steini Briem, 7.4.2014
Þorsteinn Briem, 10.1.2017 kl. 05:07
""Það verður unnið í sátt og það verður þjóðaratkvæðisgreiðsla framkvæmd af Alþingi," sagði Björt Ólafsdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar, um Evrópumálin eftir að stjórnarsáttmálinn var samþykktur á stjórnarfundi flokksins."
Þessi ummæli eru alveg ný skilgreining á þjóðaratkvæðagreiðslu.
Samþykkt Alþingis um Icesave var sem sagt það sama og þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave.
Þorsteinn Briem, 10.1.2017 kl. 05:15
Jahérna, átti Alþýðubandalagið aðild að nýsköpunarstjórninni löngu áður en það varð til?
Jón (IP-tala skráð) 10.1.2017 kl. 10:03
Ég segi hvergi að Alþýðubandalagið hafi átt aðild að Nýsköpunarstjórninni enda man ég vel þegar það var myndað sem kosningabandalag 1956 og félög eins og Sósíalistafélag Reykjavíkur og Málfundafélag jafnaðarmanna voru áfram til sem aðilar að því.
Sameiningarflokkur alþýðu - sósíalistaflokkurinn átti aðild að Nýsköpunarstjórninni, en andstæðingar þess flokks og ýmsir fleiri kölluðu þá oft "kommúnistana" eða "kommanna", enda vörðu "kommarnir" þá Stalín og Sovétríkin í erg og gríð.
Ómar Ragnarsson, 10.1.2017 kl. 12:41
Alþýðuflokksmenn skiptust í tvær næstum jafnar fylkingar þegar verið var að mynda Nýsköpunarstjórnina, þar sem helstu áfhrifamennirnir í Sjálfstæðisflokknum og Alþýðubandalaginu voru hins vegar samstíga um stjórnarmyndunina.
Jón (IP-tala skráð) 10.1.2017 kl. 15:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.