18.1.2017 | 05:57
Ef þessi tækni hefði verið komin árið 1974...?
Það er áhugavert að íhuga hvernig Guðmundar- og Geirfinnsmálin hefðu þróast árið 1974 ef núverandi myndavélatækni og farsímatækni hefði verið komin þá.
Í báðum tilfelllum hefði verið hægt að sjá feril farsíma þessara manna, hefðu þeir haft slikan á sér eins og langlíklegast er að þeir hefðu haft, miðað við það sem nú tíðkast.
Hægt hefði verið að sjá eftir á hvort Guðmundur fór að Hamarsbraut, og hvort sem slökkt hefði verið á síma hans eða ekki og svipað má segja um feril Geirfinns Einarssonar.
Raunar er ómögulegt að láta sér detta í hug allar þær breytingar á gangi rannsóknar þessara mála, sem núverandi tækni hefði getað haft í för með sér.
Eins og máli Birnu Brjánsdóttur er háttað núna, er það vafalaust rétt hjá lögreglunni að skilgreina málið ekki enn sem sakamál, heldur sem mannshvarf, sem hægt sé að beita svipuðum aðferðum við að upplýsa og ef það væri sakamál.
Meðan Birna finnst ekki er enn ekkert fast í hendi um saknæmt athæfi, frekar en var í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum, þar sem aldrei fundust nein lík né hugsanleg morðvopn.
Í bloggpistli á undan þessum er líkleg niðurstaða sú, byggð á veðurathugunum, að einhver í landi hafi lagt niður skó Birnu við Hafnarfjarðarhöfn eftir klukkan 18:00 síðastliðið mánudagskvöld, þegar grænlenski togarinn Polar Nanuq hafði verið tvo sólarhringa á sjó á leiðinni til Grænlands.
Sá, sem það gerði "veit meira og hefur ekki gefið sig fram" eins og Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn orðar það.
Og kannski eru fleiri, sem vita meira en hafa ekki gefið sig fram.
Einhver sem veit meira | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Hægt hefði verið að sjá eftir á hvort Guðmundur fór að Hamarsbraut, hvort sem slökkt hefði verið á síma hans eða ekki og svipað má segja um feril Geirfinns Einarssonar."
Sem sagt hægt að rekja ferðir farsíma Birnu Brjánsdóttur, sem slökkt er á eða rafhlaðan tekin úr símanum.
Lögreglan ætti þá að vita hvar farsíminn er núna.
Þú ættir að taka að þér rannsókn þessa máls, Ómar Ragnarsson.
Þorsteinn Briem, 18.1.2017 kl. 06:50
"Kjartan Briem framkvæmdastjóri tæknisviðs Vodafone segir að ef kveikt er á farsíma sem leitað sé að fáist allnákvæmar upplýsingar um staðsetningu símans í gegnum farsímasenda."
"Kjartan segir að upplýsingar um hvenær símtæki var tengt ákveðnum sendi séu almennt ekki skráðar hjá símafyrirtækjum nema á meðan notandinn talar í símann, sendir skilaboð eða fer á netið.
Í þessum tilfellum sé ekki hægt að fá nákvæma staðsetningu því hver sendir geti drifið marga kílómetra."
"Ef einhver slökkvi á símanum sendi síminn símstöðinni merki um það og er þá skráð að slökkt sé á honum.
Ef hins vegar síminn verður rafmagnslaus eða fer út af þjónustusvæði rofni einfaldlega sambandið við símstöðina án þess að síminn sendi frá sér sérstakt merki."
Svona eru ferðir manna raktar í gegnum farsíma
Þorsteinn Briem, 18.1.2017 kl. 07:10
Þetta er alger misskilningur hjá þér, Steini. Ég segi hvergi að hægt sé að rekja ferðir farsíma þar sem búið er að taka rafhlöðuna úr eða hann orðinn rafmagnslaus.
Ég segi eingöngu að að hægt sé að rekja ferðir síma, þar sem rafhlaðan gefur honum rafmagn. Og langlíklegast er að Guðmundur og Geirfinnur hefðu í byrjun farar sinnar frá þeim stöðum, þar sem síðast var vitað með vissu um veru þeirra, hefðu verið með kveikt á símum sínum, þótt þeir væru ekki að tala í þá.
Ómar Ragnarsson, 18.1.2017 kl. 11:19
Síðan segja mér einnig kunnáttumenn, að munur sé á því hvort slökkt sé á síma eða hvort rafhlaðan sé aftengd eða orðin rafmagnslaus.
Ómar Ragnarsson, 18.1.2017 kl. 11:22
Nú sé ég hvað veldur. Orðið "sem" er leifar af öðrum texta, sem ég breytti í þann sem birtist, þannig að því var ofaukið. Biðst ég velvirðingar á því og hef tekið það í burtu. Ég er þarna aðeins að endurtaka það sem lögreglan sagði, að það kom fram hvar slökkt var á síma Birnu og hið sama hefði átt við um þá Guðmund og Geirfinn.
Ómar Ragnarsson, 18.1.2017 kl. 11:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.