23.1.2017 | 13:58
Hefur gerst áður og ekki til góðs.
Á uppgangsárunum á þriðja áratug síðustu aldar var gengi íslensku krónunnar hækkað "með handafli".
Á þeim tíma var ekki hægt að sjá fyrir heimskreppuna, sem gerði það enn verra en ella hefði orðið að bregðast við.
Að lokum var gengið fellt 1939 þegar stærsta útgerðarfyrirtæki landsins, Kveldúlfur, hafði orðið gjaldþrota og önnur útgerðarfyrirtæki riðuðu til falls.
Þetta reyndist skammgóð lausn, því að óðaverðbólga skall á 1942 vegna hinna miklu uppgripa og stríðsgróða við vinnu fyrir herlið Bandamanna og fiskflutninga til Bretlands.
Gengi krónunnar var því þegar orðið of hátt 1942 og svo rammskakkt 1949, að enn varð að fella það.
Þó nægði gengisfellingin ekki, heldur varð að búa til flókið fjölgengiskerfi, sem snerist í kringum svonefnt bátagjaldeyriskerfi, og taka varð upp harðsvíruðu innflutningshöft.
Aftur færðist í sama horf og fella varð gengið 1961 og tvívegis árið 1967.
Út öldina snerust efnahagsaðgerðir um að finna mótvægi gegn síendurteknu of háu gengi krónunnar og viðskiptahalla við útlönd þegar hátt gengi krónunnar var hvati fyrir innflutning.
Fyrstu átta ár þessarar aldar var gengið í fyrsta sinn frjálst og hækkaði vegna dæmalausrar útþenslu bankakerfisins og þenslu, sem stórfelldar virkjana- og stóriðjuframkvæmdir ollu á sama tíma.
Háir vestir í brengluðu hagkerfi sogaði erlent fjármagn inn í landið, sem fljótlega fékk nafnið snjóhengjan og hékk eins og Daemoklesarsverð yfir höfðum landsmanna.
Allt sprakk þetta í loft upp haustið 2008.
Nú horfa menn undir niðri með velþóknun á hækkað gengi, sem gerir kleyft í bili að lækka verð á innfluttum varningi og sporna gegn verðbólgu, en enda þótt bent sé á að undirstaða hækkaðs gengis sé ekki lánsfjárbóla eins og 2008, heldur raunverulega stórauknar gjaldeyristekjur af ferðamönnum, er það áhyggjuefni í ljósi reynslunnar hve mikið gengi krónunnar hefur hækkað.
Ekki styrkst eins mikið í áratugi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.