Sannleiksgildi frétta hefur verið misjafnt frá upphafi fréttaflutnings til okkar daga svonefndra falsfrétta.
Íslensk dæmi eru fjölmörg. Um aldamótin 1900 var háð fáránleg deila um myndbirtingu annars af helstu blöðum þess tíma af sjósorfnu klettagati við Arnarstapa á Snæfellsnesi.
Deilt var um hvort myndin væri af þessu gati eða gatinu á Dyrhólaey.
Í dag væri slík deila óhugsandi, því að útlit Dyrhólaeyjar er alkunnugt.
Þegar Hermann Jónasson var lögreglustjóri í Reykjavík og orðinn að einum af helstu forystumönnum Framsóknarmanna, komst sá kvittur á flot, að hann hefði stundað ólöglegar skotveiðar við Örfirisey og skotið þar æðarkollu. Urðu harðar blaðadeilur um málið.
Já, þetta varð að stórmáli.
45 árum síðar voru mikil málaferli um eignarhald Björns Pálssonar, Alþingismanns Framsóknarmanna, á merinni Skjónu.
Á fjölmennri samkomu í Reykjavík var Björn spurður um það mál og líka um kollumálið.
Björn svaraði að bragði: "Ég á Skjónu en Hermann skaut helvítis kolluna."
Sjálfur afgreiddi Hermann málið á sínum tíma með snjallri vísu:
Ævi mín var eintóm leit
eftir villtum svani,
en ég er, eins og alþjóð veit
aðeins kollubani.
Falsfréttir þrífast oft á ótta. Ein þeirra birtist í Alþýðublaðinu sumarið 1939 þess efnis að þýskir vísindamenn færu um norðausturhálendið í því skyni að mæla út hugsanleg flugvallarstæði fyrir þýsku nasistastjórnina. Sá fótur var fyrir þessari frétt, sem hefur síðar verið upplýst í tengslum við hana, að Agnar Koefoed-Hansen, þá flugmálaráðunautur ríkisstjórnar Íslands, hefði síðar beðið Halldór bónda á Brú á Jökuldal um leyfi til að gera flugvöll þar sem nú er Sauðárflugvöllur, og að smalamenn á Brúaröræfum hefðu rifið niður hlaðnar vörður í september 1939, sem þar höfðu verið settar upp.
Agnar flaug sumarið 1938 um allt land í leit að hugsanlegum framtíðarflugvallarstæðum.
Vorið áður hafði íslenska ríkisstjórnin hafnað beiðni Hitlers um að Þjóðverjar fengju að koma sér upp aðstöðu hér á landi fyrir áætlað flug sitt yfir Atlantshaf.
Var það gert vegna ráðlegginga Agnars og vakti heimsathygli.
Enn fyrr höfðu Íslendingar fjarlægt merki, sem hinn heimsþekkti þýski vísindamaður Wegener hafði reist á fjöllum uppi til að sanna hina stórmerku grundvallarkenningu sína um rek meginlandanna, svonefnda landrekskenningu.
Um það leyti sem bandarískt varnarlið kom til Keflavíkurflugvallar 1951 kom frétt í dagblaðinu Tímanum um að grunsamlegar mannaferðir hefðu sést við brúarmælingar í Leirársveit og var leitt líkum að því að þar hefðu útsendarar Rússa verið á ferð til að undirbúa innrás.
Síðar kom í ljós að þarna var Íslendingur að mæla brúarbreiddina vegna flutnings á litlum sumarbústað.
Enn er í minnum stórbrotinn fréttaflutningur vikum saman af viðbjóðslegu drápi hundsins Lúkasar á Akureyri fyrir nokkrum árum.
Þegar hundurinn týndi birtist síðar sprelllifandi hrundi þessi fréttaflutningur gersamlega.
Í Guðmundar- og Geirfinnsmálum á sínum tíma voru stórfréttir fluttar í öllum fjölmiðlum af drápinu á Geirfinni í dráttarbrautinni í Keflavík þar sem tveir nafngreindir menn, sem þá sátu í ströngu gæsluvarðhaldi vikum saman, hefðu verið í hópnum sem drap Geirfinn.
Síðar voru fluttar jafn stórbrotnar fréttir af því, að morðið á Geirfinni hefði verið framið á allt annan hátt og mennirnir tveir hvergi nærri komið, enda leystir saklausir úr fangelsi.
Þjóðin glímir enn við það mál, því að aldrei hafa fundist neinar efnislegar sannanir fyrir því að Guðmundur Einarsson og Geirfinnur Einarsson hafi verið drepnir, og enn ekki hægt að afsanna til fulls að þeir séu á lífi.
Má vísa þar til þess þegar Íslendingur einn, sem hvarf í Bandaríkjunum, var úrskurðaður látinn, en birtist 12 árum síðar sprelllifandi á Íslandi.
Falskar fréttir fara á flug | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Dagpeningum sem greiddir eru vegna ferðalaga launamanna á vegum launagreiðanda er ætlað að standa undir kostnaði launamannsins vegna fjarveru frá heimili sínu, s.s. gisti- og fæðiskostnaði og öðrum tilfallandi kostnaði sem af ferðinni hlýst.
Heimilt er að færa frádrátt á móti dagpeningum sem launamaður hefur fengið greidda frá launagreiðanda sínum þegar öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
Á hverju ári eru settar reglur um hámark frádráttar frá dagpeningagreiðslum. Reglurnar eru birtar í skattmati.
Heimill frádráttur getur þó tekið breytingum á tekjuárinu og eru þær í samræmi við ákvörðun Ferðakostnaðarnefndar ríkisins um dagpeninga ríkisstarfsmanna á ferðalögum innanlands og erlendis.
Ekki þarf að draga staðgreiðslu frá dagpeningunum ef greiðslurnar eru ekki hærri en ákvörðun ferðakostnaðarnefndar segir til um á hverjum tíma.
Séu þær hærri ber að halda eftir og standa skil á staðgreiðslu af mismuninum."
Þorsteinn Briem, 15.2.2017 kl. 09:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.