7.2.2017 | 23:06
Nýja Zeroið vonbrigði fyrir mig en ánægja fyrir Pál Óskar.
Í lokin á tengdri frétt á mbl.is af glæsilegu atriði Lady Gaga á Ofurskálinni má sjá, að þetta flotta atriði baf heitið "Pepsi Zero Sugar Super Bowl" og var því í rauninni risavaxin og rándýr auglýsing fyrir sykurskert Pepsi.
Ekki veit ég hvort þetta er ný gerð af Pepsi til að mæta samkeppni við nýja gerð af Coke Zero sykur, en sé þetta auglýsing fyrir Pepsi Max er magnað hve miklu er kostað til auglýsinga á vöru, sem flestir, sem á annað borð neyta svona drykkja, eru fyrir löngu búnir að velja eða hafna í samræmi við sinn smekk.
En fjöldi koffein-sykur fíklanna er slíkur að það má reyna.
Ég bý núna nokkur hundruð metra frá Bónusverslun og Hagkaupaverslun.
Ég spara eins og kostur er við kaup á cola-drykkjum, og kaupi aðeins tveggja lítra flöskur, sem ég helli síðan úr í hálfslítra flöskur.
Í Bónus kosta tveggja lítra flöskur með Kók og Pepsi um 200 krónur, en þær eru talsvert dýrari í Hagkaupum, þar sem hins vegar má fá tveggja lítra RC cola fyrir rúmlega 200 kall.
Það er ekki hægt að deila um smekk í þessu efni. Páll Óskar hrósaði hástöfum nýrri gerð af Coke Zero, sem ber hetið Coke Zero sykur.
Bendir til þess að einhverju efni, sem líkist hreinum hvítasykri, hafi verið bætt í drykkinn.
En eftir að ég las hól Páls Óskars og fékk mér nýja Zeroið, varð ég fyrir vonbrigðum varðandi þessa breytingu.
Ástæðan er sú að ekkert gerviefni eða orkusnauð eftirlíking getur gefið það sem hvítasykurinn með allri sinni orku og viðeigandi eftirkeim gefur.
Hingað til hefur Coke Zero orðið fyrir valinu frá mér, af því að í þeim drykk virðist framleiðandinn hafa valið þá leið, að sækjast ekkert mikið eftir sterku eftirlíkingar-sætubragði.
Það virðist hins vegar gert í Pepsi Max og þess vegna verður rammur eftirkeimurinn af sterku sætubragði drykksins alltof sterkur fyrir minn smekk.
Coke light er heldur ekki á dagskrá hjá mér.
Það kemur fyrir að í kókskorti eftir lokun Bónus sé gripin tveggja lítra Light RC cola í Hagkaupum sem neyðarúrræði. Er reynt að dreifa og fresta neyslu hennar næstu daga eftir því sem kostur er.
Nú virðist eitthvað svipað hafa verið gert varðandi Coke Zero sykur og í gerð Pepsi Max.
Allt í einu kominn, í kjölfar sterkara sykur/sætubragðs aukinn eftirkeimur, það mikill, að það stefnir í að maður hafi hér eftir við höndina smáflösku með "The real thing", hvítasykruðu Kóki til að drekka síðasta sopann í kókdrykkjunni úr henni og fá réttan eftirkeim í lokin.
Gaman væri að vita hvort fleiri eru sama sinnis og ég í þessu efni. Við erum að tala um hundruð milljóna fíkla.
Sé svo, hlýtur gamla Coke Zero að koma aftur.
Einu sinni prófuðu þeir að framleiða Coke koffeinlaust. Auðvitað kolféll það.
Þeir föttuðu ekki, að fíklarnir söknuðu koffeinsins, rétt eins og að kaffi án koffeins myndi kolfalla í sölu!
Niðurstaða fyrir mig: Að vísu Coke Zero sykur, úr því að hið gamla Zero er ekki lengur á boðstólum, en helst höfð tiltæk lítil flaska af kóki, Pepsi eða RC cola með koffeini og hvítasykri, sem yrði drukkinn einn sopi af í lokin á eftir nýja Zeroinu, eins og af fleyg.
Lokaspurning: Hvers konar langloka er þetta um jafn lítilfjörlegt málsefni?
Jú, ég met mig sem alkóhólista, sem aldrei hefur smakkað vín og er með einkanúmer á vespuhjólinu mínu í samræmi við það, en dreypi þó á coladrykkjum til að sefa sárasta þorstann í eins litlu magni og mér er unnt. Vísa K-N hljómar svona hjá mér, lítillega breytt í samræmi við ólíka drykkju:
Kókið blakka´´er besti matur, -
bragðið góða svíkur eigi.
Eins og hundur fell ég flatur
fyrir því á hverjum dagi.
Skál!
Falinn boðskapur Lady Gaga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Umfjöllunin sem gosdrykkir fá á Íslandi eru ævintýralegir. Engin smá auglýsing. En hvaðan kemur þessi barnalegi áhugi fyrir gosi á skerinu.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.2.2017 kl. 09:58
Engin ástæða til að fara á límungunum þá að Frú GG sé ekki alltaf þægileg. Hún boðar þá kennignu að ef það er ekki til neitt vont og ljótt þá sé ekki heldur til neitt gott og fallegt.
El Acróbata (IP-tala skráð) 8.2.2017 kl. 12:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.